Hópur vísindamanna hjá Bonnháskóla í Þýskalandi hefur nú leyst ráðgátu sem steingervingafræðingar hafa lengi glímt við.
Víða um heim hafa risaeðlutennur fundist liggjandi í snyrtilegum röðum, jafnvel þótt ekki hafi fundist neitt kjálkabein sem hefði getað haldið þeim kyrrum í allar þær milljónir ára sem liðin eru.
Eitthvað hlýtur að hafa haldið þeim og þýsku vísindamennirnir segja nú að þessar stóru sauropod-eðlur sem voru grasbítar, hafi haft eins konar goggkjálka.
Efri hluti tanna í Camarasaurus hefur verið umlukinn keratíni sem hefur haldið þeim föstum og verndað gegn sliti að sögn þýskra steingervingafræðinga.
Gríðarþungir risar með gogg eins og fuglar
Vísindamennirnir skoðuðu tannaraðir úr ýmsum sauropod-eðlum, þar á meðal Camarasaurus en úr þeirri tegund hafa fundist heilar hauskúpur.
Camarasaurus var uppi fyrir 150 milljón árum og stærstu dýrin urðu 23 metrar að lengd og 45 tonn. Rannsóknirnar sýndu að á þeim hluta tannanna sem nær voru kjálkabeininu voru engin merki um slit.
Efri hluti tannanna í efri kjálkanum og neðri hlutinn í neðri kjálkanum hefur verið umlukinn keratíni, því efni sem fuglsgoggur er gerður úr og reyndar mannshárin líka.
Vernduðu tennurnar gegn sliti
Rannsóknirnar sýndu líka fíngerðar rákir í kjálkabeinum, þar sem gætu hafa verið æðar sem sáu keratínvefnum fyrir næringu.
Þessi goggkjálki hefur að líkindum verndað tennurnar og veitt þeim stuðning, þegar þessi risavöxnu dýr rifu sundur harðar og seigar plöntur á borð við burkna og barrgreinar.