Geimferðir
Evrópska geimferðastofnunin ESA hefur nú tekið stórt skref í þróun hinnar svokölluðu geimslöngu.
Þessi slöngvivaður er að mestu leyti löng lína á braut um jörðu, en henni er ætlað að slöngva gervihnöttum út í geiminn af miklu öryggi og með lágum tilkostnaði.
Í framkvæmd er reyndar nokkuð erfitt að koma upp geimslöngu. Eitt erfiðasta vandamálið er einmitt fólgið í því að leggja svo langa línu án þess að hún flækist.
Þetta vandamál eru þó menn hjá ESA þó komnir vel á veg með að leysa. Gervihnötturinn Foton-M3 flutti með sér lítið hylki með 30 km langri línu.
Í 300 km hæð yfir jörðu tókst að leggja línuna áfallalaust. Að vísu misstu vísindamennirnir fjarskiptasamband við hylkið en greiningar gagna frá gervihnettinum sjálfum benda til að línan hafi rúllað út samkvæmt áætlun.
En lína alvöru geimslöngu þarf að vera 100 km löng og á snúningi. Þegar annar endinn er næst jörðu er sérstakri gripkló ætlað að grípa t.d. gervihnött og sveifla honum áfram út í geiminn.
Eftir að hafa sveiflast hálfhring á klóin svo að sleppa takinu og þeyta þannig gervihnettinum áfram á miklum hraða. Aðferðin er stórum mun ódýrari en að nota eldflaugar og kynni jafnvel síðar að duga til að slöngva varningi áleiðis til bækistöðva á tunglinu.