Maurinn er vinnufíkill í margbrotnu samfélagi sem minnir um margt á heim manna. Með þróaða félagsgerð, skilvirka verkskiptingu, heilsugæslu, mikið hreinlæti, sorphreinsun, nágrannaerjur og mikla umhyggju fyrir afkomendum.
Sumar maurategundir stunda hátæknivæddan landbúnað með meindýravörnum og áburðargjöf, meðan aðrar halda þræla eða nýta sér meistaranám við að ala upp unga maura. Hinn einstæði árangur mauranna stafar af því að allir meðlimir samfélagsins vinna að einu marki: að fóstra eins mikið af afkomendum drottningarinnar og kostur er. Maurarnir hafa nýtt sér þetta ofursamfélag til að leggja undir sig heiminn.
Í dag er það einungis suðurskautið og nokkrar eyðieyjar sem ekki hýsa maura, og maurarnir eru 15 – 20% af dýralífmassa á landi – í hitabeltisskógunum ná þeir að verða allt að fjórðungi dýralífmassans.
Með þessum gríðarlega fjölda og óþrjótandi orku gegna maurarnir mikilvægu vistfræðilegu hlutverki. Þeir eru rétt eins nytsamlegir til að brjóta niður moldina eins og ánamaðkar, og þeir eru meðal mikilvægustu óvina skordýra og annarra smádýra í flestum vistkerfum.
Í regnskógum Suður- og Mið-Ameríku eru maurarnir helstu plöntuæturnar og fjarlægja meira en 15% af laufblöðum. Margar aðrar lífverur njóta góðs af yfirburðum mauranna og taka því þátt í þéttofnu samlífi með minnst 465 plöntutegundum, þúsundum af ólíkum smádýrum ásamt óþekktum fjölda tegunda af sveppum og gerlum.
Hinir öldnu fá hættulegu störfin
Það er örðugt að gera sér í hugarlund hvernig hinir smáu maurar, með sinn ennþá minni heila, hafa reynst færir um að leggja undir sig svo mikið af landinu – og enn torveldara að skilja þau líffræðilegu öfl sem hafa gert kleift uppbyggingu á þróuðum ofursamfélögum með fjölda lausna á flóknum samfélagsvandamálum.
Lykillinn að skilningi er þó að finna hjá einvaldi maurabúsins, drottningunni. Með ægivaldi sínu stýrir hún sístritandi undirsátunum. Nokkrar drottningar stjórna samfélagi sem er ekki stærra en borðtennisbolti, meðan önnur maurabú geta verið á við heilu skemmurnar og hýsa milljónir af iðnum maurum.
Stjórn á jafnvel litlum maurasamfélögum ætti að vera illleysanleg hvað aðföng og skipulag varðar, en sérhver maur þekkir verkefni sitt til hlítar og leysir það með iðni, aga og árangri.
Blaðskurðarmaurar eru meðal hinna vinnusömustu þar sem stærstu meðlimir maurabúsins sækja í sífellu blaðbúta heim í bú. Þar taka minni maurar á móti fengnum og naga blaðbitana í graut sem minnstu maurarnir fóðra sveppagarða með.
Neðst í metradjúpu hreiðrinu er að finna öskuhauga og grafreit þar sem elstu maurarnir eru að störfum. Þegar tíminn nálgast breytist verkaskipting mauranna og gömlu maurarnir taka nú til við að flytja sveppaleifar og dauða félaga í dýpstu hólfin.
Þetta felur í sér nokkra smithættu en maurarnir munu hvort sem er brátt drepast og þar sem þeir geta dreift sjúkdómsvaldandi gerlum og veirum fá þeir ekki að fara frjálsir ferða sinna í búinu. Með þessum hætti minnka blaðskurðarmaurarnir hættuna á að banvænn faraldur dreifist um meðal milljóna meðlima maurabúsins.
Blaðskurðarmaurar eru minnstu garðyrkjumenn heims og stunda ræktun sína án sólarljóss. Drottningin kemur á laggirnar garðyrkjunni með munnfylli af sveppamassa sem hún flytur með sér frá æskuheimili sínu.
Sveppurinn erfist þannig frá maurabúi til maurabús og hann leitast eindregið við að varðveita,einokun sína með því að halda aftur af öðrum sveppum sem berast inn í maurabúið. Sveppurinn gefur frá sér mismunandi efni sem hemja ekki aðeins aðrar sveppategundir, heldur einnig hans eigin svo framarlega sem sú tilheyrir ekki sama klóni. Þannig viðheldur sveppurinn einokun í maurabúinu, sem þýðir að í raun rækta maurarnir eitt stakt og sérhæft kvæmi, með nánast engum erfðafræðilegum frávikum.
Til að byrja með gætir drottningin ein sveppsins, en þegar fyrstu ungarnir vaxa upp fær hún aðstoð við vinnuna og getur dregið sig í hlé til að verða það sem henni er ætlað: stórbrotið eggjaframleiðslutæki.
Jafnframt hefst útþensla á veldi hennar og á næstu árum munu milljónir maura strita í milljarði klukkustunda við að framkvæma eitt af undraverðustu verkfræðiafrekum náttúrunnar. Hinir fjölmörgu ötulu fætur og kjálkar umbreyta fyrsta smágerða hólfi drottningar í iðandi stórborg með hundruðum af inngöngum, þúsundum af göngum, allt að 1.800 hólfum, sveppagörðum, loftræstikerfum, dreni, öskuhaugum og grafreitum.
Stærstu búin ná yfir 250 fermetra og geta verið allt að 6 metra djúp. Þá hafa maurarnir grafið allt að 40 tonn af mold upp og borið burt, en einn maur getur á fimm dögum grafið upp meira en þúsundfalda þyngd sína.
Röng lykt er ávísun á dauða
Allir einstaklingar í maurabúinu eru komnir af drottningunni og þeim karldýrum sem hún makaðist við áður en hún stofnaði búið. Því eru allir systkini eða hálfsystkini.
Hormón drottningar halda í þennan stóra systkinahóp og tryggja að enginn undirsátanna verði kynþroska né glati þannig einbeitingu á starfi sínu fyrir maurabúið. Hin stóru samfélög blaðskurðamaura og annarra maurategunda geta einungis starfað vegna þess að hin fjölmörgu systkini skiptast í stéttir með mismunandi stærð og verkefni. Hjá sumum tegundum eyða vinnumaurar fyrstu dögum sínum í fullorðinna tölu við að gæta drottningar og lirfa hennar. Þessu næst taka þeir til við að grafa og byggja í búinu áður en þeir verða reiðubúnir til þjónustu meðal varðmanna búsins eða taka þátt í leiðöngrum í leit að fæðu.
Breytingar milli þessara tímabundnu stétta og mismunandi verkefna geta verið skyndilegar og eru að líkindum ætlaðar til að nýta líftíma vinnumauranna sem best. Ungir vinnumaurar byrja á meinlausu starfi meðan gamlir maurar sem munu brátt deyja af náttúrulegum orsökum taka á sig hættulegustu verkefnin.
Það eru að líkindum blanda af erfðafræðilegum bakgrunni, næringu, umhyggju og umhverfi ásamt hormónum drottningar sem ákvarða í hvaða stétt ungarnir lenda. Hjá sumum tegundum enda afkvæmin, sem eru fóðruð á mörgum næringarríkum skordýrum, í stórvöxnum stéttum, meðan ungar sem fá einungis plöntufóður verða smávaxnir.
Þegar drottningin stofnar nýlendu flytur hún með sér sæði eftir mökun við mörg karldýr. Því eru sumir einstaklingar systkin og aðrir aðeins hálfsystkin.
Stærstu vinnumaurarnir geta verið 500 sinnum stærri en hinir minnstu og sinna að jafnaði fæðuöflun eða vörnum maurabúsins. Sterkir hermaurar með öfluga kjálka vakta búið í sífellu sem og flutninga mauranna. Hjá afríkanska regnskógarmaurnum, Polyrhachais laboriosa, tromma varðmaurar við minnstu hættu – framandi lykt, óþekktan titring eða rándýr – afturbúknum við blað til að kalla á hjálp. Hermaurar flykkjast skjótt að átakasvæðinu og bjóða óvininn velkominn með efnahernaði, því þeir draga búkinn inn á milli fótanna og skjóta ætandi bunu af maurasýru. Aðvörunin getur einnig borist frá dauðum maurum þar sem að kraminn maur sendir frá sér lyktarefni sem breytir nálægum maurum í forhertar drápsvélar og laðar jafnframt að maura lengra í burtu.
Í bardögum við önnur maurabú senda sumar maurategundir frá sér fölsk boðefni sem rugla óvinina í ríminu þannig að þeir fara að berjast innbyrðis.
Odontomachus – maurar frá Mið-Ameríku eru öflugustu útkastarar meðal mauranna.
Þeir nýta sér einhverjar hröðustu hreyfingar innan dýraríkisins til að fleygja friðarspillum í burtu. Sérbyggðir kjálkar þeirra geta skollið saman með hraða sem svarar til 65 metra á sek. og þessi ótrúlega hröðun í skoltunum gefur af sér afl sem er meira en 300 sinnum meira en eigin þyngd mauranna. Því geta Odontomachus-maurar ekki aðeins fangað bráð auðveldlega og þeytt óvinum langar leiðir, heldur virka kjálkarnir einnig eins og slöngvivaður, því maurarnir geta bitið fast í undirlagið og skotið sjálfum sér í öruggt skjól.
Maura frá mismunandi maurabúum geta þeir greint milli vina og óvina á lyktinni sem seytist út á yfirborði þeirra. Lyktin er bæði meðlimakort að maurabúinu og aðgangskort. Sé lyktin röng jafngildir það dauða. Sníkjumaurar hafa þó fundið leið til að smjúga undir lyktarvarnirnar og inn í búið.
Sumar drottningar skríða jafnvel inn í bú annarra maura áður en fyrstu ungarnir hafa klakist og sameiginlegur lyktarkóði hefur náð að þróast. Aðrar drottningar senda frá sér villandi ilm sem tælir varðmaura til að bera hina fölsku drottningu inn í búið, sem drepur þá upprunalegu drottninguna og kemur á laggirnar sínu nýja veldi innanfrá. Með því að leggja undir sig tilbúið maurabú fær hin nýja drottning mikið forskot og sleppur þannig við hin hættulegu skeið í lífinu þegar hún þarf einsömul að stofna maura bú. Gamla maurabúið þarf hins vegar að gjalda dýru verði þessara stórveldisdrauma nýju drottningarinnar: án ekta drottningarinnar eru meðlimir maurabúsins geldir og vinna einvörðungu við að koma genum framandi maura áfram.
Blaðlýs eru haldnar sem húsdýr
Meðan sumar maurategundir læða sér inn í bú annarra maura nýta aðrir maurar sér grófari aðferðir. Þeir ráðast einfaldlega til atlögu við bú og hernema þau með valdi. Annað hvort éta þau unga og lirfur á staðnum eða fóstra þá upp sem þræla. Þrælarnir starfa ekki aðeins fyrir herramaurana og afkomendur þeirra, heldur taka einnig þátt í herferðum á önnur bú.
Hjá faraóa-maurum hefur drottningin sína eigin skutulsveina, þar sem hún viðheldur líkama sínum með nærandi seyti frá eigin lirfum.
Hvorki drottningin né aðrir fullvaxnir maurar í maurabúinu geta étið fasta fæðu svo lirfurnar virka sem eins konar fæðusjálfsalar hinna fullorðnu. Þegar lirfurnar framleiða meira en drottningin og undirsátar hennar geta étið eru útvaldir vinnumaurar troðnir út og þannig umbreytt í lifandi matarkistur. Þeir virka eins og forðabúr þegar hart er í ári og jafna út sveiflur í fæðuöfluninni þannig að drottningin geti viðhaldið eggjaframleiðslu sinni.
Til að tryggja sér auðsótta fæðu halda nokkrar maurategundir blaðlýs eða önnur húsdýr. Maurarnir “mjólka” orkudrykki úr lúsunum sem seyta frá sér sykurríkum safa í gegnum yfirborð líkamans. Í sumum tilvikum gefa blaðlýsnar frá sér hunangsdögg þegar maurarnir strjúka þær með þreifurunum.
Í staðinn verja maurarnir blaðlýsnar gegn rándýrum og flytja þær á nýjar beitilendur. Þegar öll nýlendan flytur gæta maurarnir þess að taka með sér bústofninn á næsta heimili.
Hinir framtakssömu maurar eru ekki aðeins garðyrkjumenn; þeir geta einnig verið dugmiklir við “skógarhögg”.
Í Amazon skapa Myrmelachista schumannimaurarnir ræktarland með einni tiltekinni trjátegund. Maurarnir stjórna nágrenni sínu og mynda svonefnda djöflagarða þar sem einungis er að finna Duroia hirsutatré.
Þeir mynda bú sín í þessari trjátegund og veita þessu uppáhalds tré sínu bestu aðstæður með því að drepa allar aðrar plöntur í nágrenninu.
Maurarnir nota sitt eigið plöntueitur, maurasýruna, í verkið með þeim afleiðingum að sumir djöflagarðar geta náð yfir þúsund fermetra með allt að 600 trjám.
Hinur ungu læra af boðhlaupi
Oft eru maurabú arkitektónískar perlur. Sum bú eru grafin djúpt niður í jörðu, önnur eru feiknarmiklir hraukar úr kvistum og blöðum, stærstu búin eru hugvitssamleg byggingarverk búin loftræstingu, hitatemprandi herbergjum og drenlögnum til að varna flóðum í hitabeltisrigningum.
Cataulacusmuticusmaurar í Suður-Asíu ráðast gegn flóðum með sérstæðum hætti. Nefnilega þeim að pissa flóðinu burt. Maurinn byggir bú sín jafnan í holum plöntum. Þegar flóð ógna búinu ummyndast vinnumaurarnir í lifandi vatnsdælur, sem drekka í sig vatn og pissa því jafnharðan út úr búinu.
Margir dýraungar læra af foreldrunum með því að herma eftir athöfnum þeirra. En maurar eru mögulega eina dýrið fyrir utan mennina, þar sem gagnvirkt nám milli kennara og nemenda á sér stað.
Temnothorax albipennismaurinn leiðir þannig félaga sína að nýrri fæðuuppsprettu með eins konar hægfara gerð af boðhlaupi. Á meðan þessu stendur eru hvorir tveggja kennari og nemandi afar uppteknir af hreyfingum hins. Kennarinn hægir á sér ef nemandinn dregst afturúr, en hraðar sér ef nemandinn kemst of nærri. Þannig á sér stað árangursrík og markviss yfirfærsla á þekkingu frá einum maur til annars.
Eftir milljón ára þróun og kerfisbundin vinnubrögð hafa maurarnir skapað eitt skipulegasta samfélag dýraríkisins. Með ótrúlegum afköstum, sjúkdómsvörnum og frjósemi geta flóknustu mýrarsamfélög borið sig saman við samfélög manna. Hins vegar hafa maurarnir hvorki þróað menningu eða sköpunargáfu. Líf þeirra er hins vegar endalaust strit.