,,KAFFI ER ÓHOLLT" - BÆÐI- OG
Orðspor kaffisins er ekki gott og það hefur verið tengt við bæði hjartasjúkdóma og krabbamein.
En á síðasta áratug hafa uppgötvast ýmsir heilsusamlegir kostir við kaffidrykkju.
Þetta gildir þó ekki um kaffiþamb, heldur aðeins ef kaffidrykkjan er í hófi. Mörkin liggja við 400 mg af koffíni á dag eða svo. Það samsvarar 4-5 bollum eða í mesta lagi einum lítra.
Meðal gagnlegra áhrifa eru minni dánarlíkur, einkum meðal hjartasjúklinga.
Kaffi virðist einnig veita nokkra vörn gegn parkinson, sykursýki 2 og lifrarsjúkdómum, m.a. lifrarkrabba.
Hins vegar benda rannsóknir til þess að ávinningurinn geti breyst í ókosti ef þú drekkur kaffið þitt á röngum tíma eða drekkur rangt kaffi.
Samkvæmt vísindamönnum frá háskólanum í Bath í Englandi hækkar blóðsykurinn gífurlega, til dæmis ef þú drekkur bolla af svörtu kaffi strax eftir slæman nætursvefn.
Hækkaður blóðsykur getur aukið hættuna á að fá sykursýki og þess vegna telja rannsakendur að alltaf eigi að borða morgunmat fyrir morgunkaffið.
Filterkaffi hollast
Auk þess hefur stór rannsókn leitt í ljós að filterkaffi er hollasta kaffið.
Niðurstaðan byggir á rannsókn á hálfri milljón Norðmanna, en heilsufarsgögnum þeirra og kaffivenjum var fylgt eftir í nokkra áratugi.
Fólkið sem drakk 1-4 bolla af filterkaffi daglega var með lægstu dánartíðnina af völdum hjarta- og æðasjúkdóma – meira að segja lægri en hjá þeim sem drukku alls ekki kaffi.
Að mati rannsakenda er filterkaffi hollasta kaffið þar sem sían fangar stóran hluta þeirra efna sem geta aukið hið slæma kólesteról og hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum eins og hjartaáföllum.
Koffín breytir heilanum þínum
Nýleg rannsókn leiðir í ljós að regluleg inntaka koffíns dregur úr rúmmáli heilavefsins sem vinnur aðallega úr upplýsingum – hið svokallaða gráa efni heilans.
Rannsóknin var byggð á tilraunum á tveimur hópum sem fengu koffínhylki og lyfleysuhylki á tveimur tíu daga tímabilum. Breytingarnar á gráa efninu voru mest áberandi í hægra gagnaugablaði heilans, þar á meðal í drekanum, sem er nauðsynlegur fyrir minnið.
Vísindamennirnir telja að breytingarnar þýði ekki endilega að koffín hafi neikvæð áhrif á heilann. Þeir líta hins vegar á niðurstöður sínar sem stökkpall fyrir frekari rannsóknir á þessu sviði.
Eftir að þátttakendur hættu að taka koffínhylkin og héldu sig frá koffíni í tíu daga jókst gráa efni þeirra í sama magn og hjá lyfleysuhópnum. Áhrif koffíns virðast því ekki vera varanleg.
Kaffi er tvíeggja sverð:
1. Áhrif á heilann
Lítið magn koffíns léttir lund og bætir minni og athygli. Of mikið veldur pirringi og svefnleysi. Koffínsameindir binda sig við sömu viðtaka og adenósín, sem á að flytja boð um þreytu.
2. Hækkar blóðþrýsting
Mikið kaffi losar dópamín sem glæðir orku og virkni. Það eykur fitubrennslu um allt að 12% - en hækkar líka blóðþrýsting.
3. Minnkar matarlyst
Kaffi getur verið megrandi. Það minnkar matarlyst og kannski líka upptöku kolvetna í þörmum. En það eykur framleiðslu magasýru.
Kaffið er þó enginn töfradrykkur. Mikið magn getur aukið kólesteról og aukið hættu á hjartasjúkdómum hjá fólki með tiltekið genaafbrigði.
Koffín er líka notað í mörg megrunarlyf vegna þess að það hraðar efnaskiptum og þar með fitubrennslu.
Því miður gætir þessara áhrifa mest hjá grannvöxnu fólki og hraðar efnaskiptum um allt að 29% en offitusjúklingar verða á láta sér nægja 10%.
,,KAFFI EYKUR LOFTSLAGSVÁ" - SATT
Kaffi er ræktað í kaffibeltinu kringum miðbaug. Tveir þriðju af 2,25 milljónum daglegra kaffibolla eru drukknir í ESB og BNA.
Í rannsókn árið 2013 var kaffinu fylgt frá Kosta Ríka til Evrópu og losun gróðurhúsaloftegunda skoðuð.
Kg af gróðurhúsalofti á ef þú drekkur 1 bolla:
Kaffi
155kg
Vín
114 kg
Möndlumjólk
51 kg
Te
15 kg
36% losunar verða á leið til Evrópu en 64% innan Evrópu. Neytendur sjálfir losa mest, um 45%, þegar þeir laga kaffið. Á heimsvísu er koltvísýringslosun vegna kaffis um 103 milljón tonn.
,,KAFFIFRAMLEIÐSLA ER Í HÆTTU" - SATT
Heimsmarkaður fyrir kaffi stækkar ár frá ári.
2018 var kaffiframleiðsla 4,8% meiri en 2017. Allt kaffi kemur af tveimur gerðum kaffirunnans, Coffea arabica og Coffea robusta.
Að auki tilheyra Coffea-ættinni 122 villtar tegundir sem teljast mikilvægar þar eð gen úr þeim má nýta til að auka þol ræktunartegunda gegn skordýrum og loftslagsbreytingum.
Af alls 124 tegundum er meirihlutinn í útrýmingarhættu eða HEIL 60%
Þefköttur skítur rándýru kaffi
Ein tegund þefkatta étur fullþroskuð kaffiber en meltir ekki baunirnar sjálfar, þannig að þær skila sér með saurnum.
Ferð kaffibaunanna um meltingarveginn bætir þær og úr verður dýrasta kaffi í heimi, enda er framleiðslan ekki nema um 250 kíló ári og kaffibaunirnar handtíndar. Kopi Luwak heitir kaffið.