Náttúran / Loftslagsbreytingar
Lestími: 6 mínútur
Kalifornía, Kanada, Tyrkland, Grikkland, Spánn og Ástralía. Á árinu 2021 hefur ekki verið neinn skortur á brennandi heitum fyrirsögnum alls staðar að úr heiminum.
Þessar fyrirsagnir lýsa sérstöku náttúrufyrirbrigði: Skógareldar eru algengari, ákafari og breiðast yfir stærri landsvæði en venjan hefur verið – nákvæmlega eins og varað er við í nýjustu skýrslu loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna.
Í Síberíu hafa skógareldar herjað síðan í júní og lagt í rúst ámóta stórt landsvæði og Grikkland og Danmörk til samans – meira en 16 milljónir hektara samkvæmt mati Greenpeace í Rússlandi.
Skógareldarnir í Síberíu eru þar með umfangsmeiri en allir aðrir skógareldar þessa árs samanlagt.
Þurrir skógar í Síberíu verða eldum að bráð nánast á hverju einasta ári. En í ár slær útbreiðslan öll met, þar með talið met síðasta árs í Síberíu.
Skógarnir verða skraufaþurrir vegna langvarandi þurrka og hita. Þannig fór hitinn í þorpinu Saskylah í 31,9 gráður í júní en það er hæsti hiti þar síðan 1936. Með þessu móti veldur hærra hitastig á hnettinum æ meira ógnvekjandi gróðureldum.
Hitakort af norðurskautssvæðinu 18. – 25. júní 2021, í samanburði við sama meðaltal sama tímabils á árunum 2003-2013.
Skógareldar skilja ekki aðeins eftir sig gríðarstór landsvæði, brunnin til ösku, heldur senda líka mikið magn koltvísýrings upp í gufuhvolfið, óþekkta stærð í því reikningsdæmi sem kallast loftslagsútreikningar.
Í júní 2020 losuðu skógareldar norðan heimskautsbaugs um 59 megatonn af koltvísýringi samkvæmt mati evrópsku veðurspámiðstöðvarinnar ECMWF.
En sumarið 2021 bárust alls um 505 megatonn af koltvísýringi frá skógareldum í Síberíu, samkvæmt mati Copernicus-gufuhvolfsvöktunarmiðstöðvarinnar, CAMS.
Til samanburðar var samanlögð losun Norðurlanda og Benelux-landanna nærri 430 megatonn árið 2019.
Skógareldar losa gríðarlegt magn koltvísýrings sem eykur enn á þau gróðurhúsaáhrif sem þó eru nógu slæm fyrir.
Ný rannsókn á Amazon-svæðinu leiddi í ljós að CO2-losun frá skógarbrunum í þessum „lungum hnattarins“ var þrefalt meiri árið 2020 en öll önnur tré í þessum regnskógum náðu að binda.
Með öðrum orðum: Skógarnir eru farnir að losa meiri koltvísýring en þeir ná að binda með ljóstillífun sinni. Skógareldarnir skildu meira að segja eftir sig ámóta mikið af CO2 í gufuhvolfinu á einu ári og Japan – sem er í fimmta sæti yfir þau ríki sem losa mest.
Skógarnir ættu að vera meðal mikilvirkustu bindingarafla heimsins en þessi aukna losun frá skógareldum eykur enn á gróðurhúsaáhrifin sem svo aftur valda meiri skógareldum. Þessi vítahringur mun óhjákvæmilega hafa hryllileg áhrif.
Einkum eru það þó skógarsvæði á norðurhveli jarðar sem eru viðkvæm og varnarlaus gagnvart skógareldum. Þegar sótagnir úr reyknum falla niður á ís og snjó, draga þessi hvítu svæði í sig meiri hitaorku. Það veldur því að snjór og ís bráðnar og hækkar þannig hitastigið enn meira, segja sérfræðingar alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar WMO.
Þess vegna brenna „kaldir“ skógar
Það virðist mótsagnakennt að ógn geti stafað af skógareldum norðan heimskautsbaugs.
En það voru ekki færri en 400 skógareldar sem komu upp í Alaska á fyrri hluta ársins 2019 og í Síberíu brunnu 17 milljón hektarar skóglendis í júní og júlí sama ár, segir fréttaveitan Bloomberg.
Niðurstaða rannsóknar árið 2013 var sú að svipuð þróun hefði ekki orðið norðan heimskautsbaugs síðustu 10.000 árin – og af eðlilegum ástæðum náði rannsóknin ekki til nýlegra og langvarandi skógarelda á svæðinu.
Síðustu tvö ár hafa bæði verið metár, bæði varðandi skógarelda og hátt hitastig.
Skógareldar á annars köldum svæðum verða yfirleitt á sumartímabilinu frá maí og fram í október.
Í júní 2020 mældist 38 stiga hiti í Verkhoyansk í Síberíu en það er nyrsti staður þar sem svo hár hiti hefur mælst. Að meðaltali var lofthiti fimm gráðum hærri frá apríl fram í júní í Síberíu en meðaltalshitinn á árabilinu 1981-2010.
Á heimsvísu hefur meðalhitinn á jörðinni hækkað um ríflega eina gráðu frá upphafi 20. aldar og í nýjustu skýrslu loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna er því slegið alveg föstu að þessi hlýnun sé að stærstum hluta af mannavöldum.
Og þessi hlýnun af mannavöldum veldur því nú að skógar sem annars ættu að vera rakir og frjósamir, standa sums staðar þurrir eins og kjörinn eldiviður.
Oft kvikna skógareldar út frá grillstæðum eða litlu báli sem fólk kveikir á náttstað en sígarettustubbar eru líka algeng orsök gróðurelda og stundum þarf ekki annað en rusl sem fleygt er á víðavangi, t.d. málmhluti sem endurspegla sólarljósið til að valda íkveikju í þurrum gróðri. Og svo gerist það líka að fólk kveiki viljandi í gróðri.
Þrennt þarf í hina hættulegu blöndu
Eldfimt efni, hiti og súrefni. Þetta þrennt skapar hinn svonefnda brunaþríhyrning. Vanti eitthvað eitt af þessu þrennu getur enginn eldur kviknað. En sé þetta allt til staðar og jafnvel mikið af því, þá getur verið hætta á skógareldum.
Alveg náttúrulegur skógareldur er sjaldgæfur og oftast er það elding sem veldur honum.
Aftur á móti stafa 84% af skógareldum af mannavöldum, ýmist beint eða óbeint. Þetta eru niðurstöður rannsóknar hjá Colorado-háskóla 2017 en rannsóknin náði til allra skógarelda í Bandaríkjunum á árabilinu 1992-2012.
Birt 04.09.2021
MICHAEL LEANDER