Sagan hefst 1941 þegar þýskur kafbátur skaut þremur tundurskeytum að enska herskipinu Barham. Skipið sökk og 861 sjómaður drukknaði. Þjóðverjarnir voru ekki vissir um að þeir hefðu hitt og breska flotastjórnin ákvað að halda atburðinum leyndum.
Um svipað leyti hélt skoska konan Helen Duncan miðilsfund og sagði þar frá því að Barham hefði sokkið. Einn hinna látnu sjómanna hafði fært henni tíðindin.
Í fyrstu hafði þetta engar afleiðingar, en þremur árum síðar, þegar D-dagurinn nálgaðist, vildu yfirvöld ekki eiga á hættu að Helen Duncan kæmi upp um fyrirætlanirnar og létu dæma hana í 9 mánaða fangelsi samkvæmt galdralögum frá árinu 1735.