Fyrir meira en 3.000 árum voru lærðir menn í Kína sannfærðir um að dýr sæju fyrir yfirvofandi náttúruhamfarir.
Með því að fylgjast náið með atferli bæði villtra og taminna dýra – jafnt fiska, skriðdýra, fugla og spendýra – töldu þessir lærðu menn sig geta fengið viðvaranir um jarðskjálfta eða eldgos mörgum klukkutímum, dögum eða jafnvel vikum fyrir atburðinn.
Þegar eldfjallið Etna á Sikiley gaus allmörgum sinnum 2012-2014 og jarðskjálftar urðu um miðbik Ítalíu 2016 og 2017, tókst vísindamönnum að sýna fram á að dýr sýndu viðbrögð á síðustu klukkustundunum fyrir atburðina.
M.a. forðuðu geitur og sauðkindur sér niður úr hlíðum Etnu áður en gosin hófust.
Þessar skepnur færðu sig á svæði með hávöxnum gróðri – sem einmitt er til marks um að svæðið verði sjaldan fyrir hraunstraumum. Niðurstaða vísindamannanna varð sú að dýrin skynji yfirvofandi hamfarir með 4-6 klukkutíma fyrirvara.
⇒Dýrin skynja hamfarirnar fyrirfram
Eldgosum og jarðskjálftum fylgja oft ákveðnar viðvaranir, svo sem hitabreytingar, smáskjálftar eða gasuppstreymi. Næm skynfæri sumra dýra virðast greina þetta betur en bestu mælitæki.