Líffræði
Tveir líffræðingar við Kaliforníuháskóla í San Francisco í Bandaríkjunum hafa nú uppgötvað að lirfur bjöllunnar Meloe franciscanus hafa með sér samstarf til að draga karlkyns býflugur á tálar.
Atferlið hefst þannig að kvenbjallan verpir eggjum sínum við rót ákveðinnar plöntu. Um leið og lirfurnar hafa klakist þjappa þær sér saman og skríða því næst í einum klumpi upp eftir jurtinni.
Þegar þær hafa náð þangað upp á jurtinni þar sem býflugur hafa mök, tekur klumpurinn á sig nýja mynd og líkist nú kvenbýi. Jafnframt gefa lirfurnar frá sér samskonar ilmefni og kvenbý.
En um leið og karlbý kemur á vettvang og hyggst athafna sig, leysist klumpurinn upp og lirfurnar skríða upp á afturbúk flugunnar. Síðar, þegar karlinn kemst í tæri við kvenflugu, flytja lirfurnar sig yfir á hana og fá nú far heim í býflugnabúið þar sem þær svelgja í sig blómasafa þar til þær hafa vaxið úr grasi og geta sjálfar farið að huga að næstu kynslóð.