Árið 1922 fékk þýski verkfræðingurinn Anton Flettner einkaleyfi á nýrri aðferð til að knýja skip.
Í stað segla komu snúningshólkar sem nýttu svokölluð Magnus-áhrif sem myndast hornrétt á loftstraum þegar hólkur er látinn snúast.
Lítil dísilvél sneri tveimur rafhreyflum sem aftur sneru tveimur sívalningum 120 snúninga á mínútu. Og aðferðin reyndist virka. Skip Flettners fór yfir Atlantshaf 1926 og lagði að bryggju í New York.
Í hrifningu sinni pantaði Hamborg-New York fyrirtækið 10 snúningsskip. Aðeins eitt þeirra var byggt, því olía og kol höfðu nú fallið svo í verði að útgerðarfyrirtækin kusu fremur að nota skip sem ekki voru háð duttlungum vindsins.
Aðferðin er þó ekki alveg útdauð. Árið 2008 stungu breskir vísindamenn upp á að nota snúningsskip til að draga úr gróðurhúsaáhrifum. Hugmyndin er að draga salteindir upp í gegnum hólkana og mynda þannig hvít ský sem endurkasti sólarljósi yfir hafinu.