Meðan á kalda stríðinu stóð óskaði bandaríski flugherinn eftir sprengjuflugvél búinni kjarnakljúf. Orkan úr kjarnakljúfnum átti að geta haldið flauginni mun lengur á lofti að mati hershöfðingjanna.
Skjótt kom í ljós að erfitt reyndist að uppfylla óskir þeirra. Milli 1948 og 1951 gerði U.S. Air Force tilraunir með kjarnakljúf sem gat framleitt orku fyrir flugvélamótorana, en hann reyndist óviðunandi þungur, þar sem kröfur um öryggi áhafnar ollu því að þykkt lag af m.a. parafíni og stáli þurfti til að verja hana gegn geislavirkninni.
Undir nafninu NB-36H tókst kjarnorkuflaugin í fyrsta sinn á loft árið 1955. Að utan var eina sýnilega merkið um kjarnakljúfinn viðvörunarmerki um geislavirknina á stéli flugvélarinnar. Flugvélin fór 47 ferðir fram til ársins 1957, en þá reyndust nýjar gerðir flugvéla heppilegri. Verkefnið var síðan lagt á hilluna 1960 og hafði þá kostað hálfan milljarð dala – 46 sinnum meira en upprunaleg kostnaðaráætlun.