Dularfyllsta stjarna alheimsins er eins konar gælunafn stjörnufræðinga á stjörnunni KIC 8462852. Stjarnan er um 50% stærri en sólin, um þúsund gráðum heitari og í þúsund ljósára fjarlægð.
Það sem gerir stjörnuna merkilega er að hún er líkt og blikkljós á himni, með miklu misjafnari ljósstyrk en þekkist hjá nokkurri annarri stjörnu.
200 tóku höndum saman
Nú hafa fleiri en 200 stjörnufræðingar tekið höndum saman til að finna ástæðuna og safnað gögnum um stjörnuna frá sjónaukum víða um heim undir forystu Tabethu Boyajian hjá ríkisháskólanum í Louisiana í BNA.
Þannig hefur tekist að afla nákvæmra upplýsinga og greina nákvæmlega hvernig og hvenær ljósstyrkurinn eykst og minnkar á mismunandi bylgjulengdum.
Væri þéttur og ógagnsær massi á ferð kringum stjörnuna, telja stjörnufræðingar að það hefði sömu áhrif á ljós á öllum bylgjulengdum, en sú er ekki raunin.
Ennþá ráðgáta
Þvert á móti dró meira úr ljósstyrk á sumum bylgjulengdum en öðrum. Þetta bendir til að gasský hverfist um stjörnuna og mismunandi ljós nái misvel í gegnum gasið.
Ráðgátan er þó ekki að fullu leyst. Stjörnufræðingarnir segja mögulegt að halastjörnur við sólstjörnuna hafi einhver áhrif og enn aðrir vísindamenn álíta enn að mismunandi ljósstyrkur eigi uppruna sinn í stjörnunni sjálfri.