Breska stúlkan Opal Sandy fæddist heyrnarlaus.
Opal litla þjáðist af genagalla sem olli því að þótt innra eyrað greindi hljóð alveg eðlilega barst það ekki áfram til heilans.
Eftir genagræðslu er þessi nú 18 mánaða gamla stúlka farin að heyra alveg eðlilega.
Aðgerðin markar tímamót og er sögð geta gagnast um allan heim í mörgum þeim tilvikum sem börn fæðast heyrnarlaus.
Vírus gerir við gallaða genið
Í þessu tilviki stafaði heyrnarleysið af galla í geni sem kallast OTOF.
Börn með stökkbreytingu í þessu geni framleiða ekki prótínið otoferlín sem er nauðsynlegt til að hár í kuðungi eyrans nái að koma boðum til heyrnartaugarinnar.
Hópur skurðlækna við enska NHS-háskólasjúkrahúsið í Cambridge taldi hins vegar mögulegt að ráða bót á þessu með nýrri aðferð við genagræðslu.
Bresku skurðlæknarnir sprautuðu meinlausri veiru (AAVI) í kuðunginn á Opal Sandy skömmu eftir að hún fæddist. Í veirunni hafði verið komið fyrir afriti af heilbrigðu OTOF-geni sem náði að gera við hárfrumurnar sem ekki virkuðu eins og til var ætlast.
Eftir þessa fyrstu aðgerð liðu aðeins fáeinar vikur þar til Sandy fór að bregðast við háværum hljóðum, svo sem þegar lófum var klappað saman.
Og eftir aðeins sex mánuði var hún farin að heyra nánast eðlilega lágværari hljóð á borð við hvísl.
Tvennt ógnar því að eyðileggja heyrn næstum helmings unglinga og ungra fullorðinna í heiminum.
Nú, þegar Opal er orðin 18 mánaða bregst hún eðlilega við röddum foreldra sinna og er sjálf farin að segja orð á borð við „dada“ og „bye-bye“.
„Árangurinn er stórkostlegur og betri en ég þorði að vona. Þetta er vonandi bara fyrsta skrefið í nýrri tækni genagræðslu í innra eyra og til lækningar fleiri gerða heyrnarskerðingar,“ segir Manohar Bance, eyrnaskurðlæknir við háskólasjúkrahúsið í Cambridge og meðal þeirra sem stóðu að aðgerðinni, í fréttatilkynningu.
Að sögn bresku vísindamannanna getur genagræðsla með þessari aðferð rutt brautina fyrir lækningu á fleiri gerðum heyrnarskerðingar og þannig orðið til þess að miklu fleiri börn sem fæðast heyrnarlaus fái eðlilega heyrn.
Einkum segja þeir möguleikana mikla ef unnt verður að beita sömu aðferð þegar heyrnarleysið stafar af galla í öðrum genum en OTOF-geninu.