Maðurinn

Svör við helstu spurningum efasemdaradda um bólusetningu

Hættulegt? Öruggt? Þvingað? Ólík viðhorf heyrast frá þeim sem hafa efasemdir um bólusetningu en aðeins fá þeirra eiga við rök að styðjast.

BIRT: 25/02/2021

Læknisfræði – sjúkdómar

Lestími: 9 mínútur

Borið hefur á miklum efasemdum gagnvart bóluefni við kórónuveirunni allar götur frá því að lyfjaframleiðendur fyrst tilkynntu að það styttist í að bóluefni þeirra yrðu samþykkt.

 

Skoðanakannanir í ýmsum Evrópulöndum sýna engu að síður að stöðugt fleiri myndu þiggja bólusetningu ef hún stæði þeim til boða hér og nú.

 

Í Danmörku var staðan t.d. sú að um miðjan nóvember 2020 hugðust 40% þjóðarinnar láta bólusetja sig, þegar þar að kæmi en í lok janúar í ár hafði fjölgað í hópnum upp í 62%.

 

Sama tilhneiging sést í öðrum nágrannalöndum:

 

Noregur: Aukning úr 28% upp í 46%

Svíþjóð: Aukning úr 24% upp í 50%

Finnland: Aukning úr 24% upp í 44%

Holland: Aukning úr 28% upp í 51%

Bretland: Aukning úr 41% upp í 71%

 

Þess má geta að Íslendingar skáru sig strax úr og voru fljótt mjög hlynntir bólusetningum og samkvæmt Gallup könnun í september á síðasta ári kváðust 90% Íslendinga ætla að láta bólusetja sig þegar bóluefni byðist. Sá fjöldi mun vera kominn upp fyrir 92% í dag.

 

Í einstöku löndum eru efasemdaraddirnar enn mjög háværar en í Frakklandi hyggjast 44% enn ekki ætla að láta bólusetja sig, á meðan 66 af hundraði Japana hafa ekki trú á bóluefninu.

 

Við hjá Lifandi vísindum erum þess fullviss að efasemdir séu af hinu góða, einkum þegar þær eru rökstuddar með staðreyndum. Þess vegna ætlum við að gera okkar besta til að svara síendurteknum spurningum efasemdamanna:

 

1 „Sé bóluefnið saklaust, hvernig vinnur það þá bug á veirusýkingum?“

 

Bóluefnið sem slíkt vinnur ekki bug á sjálfri sýkingunni, heldur kennir bóluefnið líkamanum að gera það sjálfur.

 

Þegar sagt er að efni sé skaðlaust, er ekki átt við að það sé álíka meinlaust og vatn. Bóluefni innihalda svokallað virkt innihaldsefni sem samanstendur af veiklaðri eða óvirkri útgáfu af veirunni sem líkaminn þarf að læra að bera kennsl á og berjast gegn.

 

Sá bólusetti fær fyrir vikið örlítið og nákvæmlega mælt magn af smiti í líkama sinn. Hefðbundinn bóluefnisskammtur inniheldur örfá míkrógrömm, þ.e. milljónasta hluta af grammi, af virka innihaldsefninu.

 

Bóluefnin frá Pfizer og Moderna innihalda annars vegar 30 og hins vegar 100 míkrógrömm af virka innihaldsefninu RNA. Verkjatöflur innihalda sumar hverjar 500 míkrógrömm af virka innihaldsefninu, m.a. parasetamól.

Skoðanakönnun Gallup frá september 2020:

Þannig virkar bóluefni

Bóluefnið býr ónæmiskerfið undir það að takast á við veiru eða bakteríu.

Fyrstu ónæmisviðbrögð

 

Bóluefni samanstendur af dauðum eða lifandi hlutum veira eða baktería. Ónæmiskerfið bregst við með því að byggja upp mótefni sem ráðast til atlögu við sjúkdóminn, svo og minnisfrumur sem muna eftir þeim næst.

Önnur ónæmisviðbrögð

 

Þegar líkaminn kemst aftur í tæri við sömu veiru eða bakteríu ber ónæmiskerfið samstundis kennsl á hana og framleiðir mótefnin sem ráðast til atlögu við hana.

2. „Hvers vegna ætti ég að taka þá áhættu að veikjast alvarlega af bóluefninu?“

Í heimi vísindanna er greint frá tvenns konar fylgikvillum eftir bólusetningu gegn Covid:

 

  • Aukaverkanir, m.a. hiti og eymsli.
  • Lasleiki, m.a. ofnæmisviðbrögð.

 

Öll bóluefni hafa í för með sér aukaverkanir, t.d. fá 5-15% allra sem bólusettir eru gegn mislingum hita. Meðal vægra veikinda má einnig nefna þrútin útbrot sem fólk klæjar í.

 

Alvarlegri kvillar sem krefjast innlagnar á sjúkrahús, gera vart við sig hjá einum af hverjum þúsund til milljón ef marka má Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, WHO. Alvarleg veikindi og dauðsföll eru svo fátíð að erfitt er að halda tölfræði yfir þau.

 

Á hinn bóginn gera vísindamenn hjá WHO því skóna að bólusetningar forði um tveimur til þremur milljónum frá andláti ár hvert. Bólusetningum er að sjálfsögðu beitt vegna þess að betra er að þiggja bóluefni en að veikjast af viðkomandi sjúkdómi.

Yfirvöld meta aukaverkanir

Fram til þessa hafa framleiðendur bóluefnanna sjálfir veitt upplýsingar um aukaverkanir efnanna sem þeir framleiða.

 

Nú hafa bresk yfirvöld á hinn bóginn opinberað mat þeirra á bóluefninu frá Pfizer.

 

Algengar aukaverkanir sem hrjáð geta fleiri en einn af hverjum tíu:

 

  • Verkir/eymsli í kringum stungusvæðið (+80% allra bólusettra)
  • Þreyta (+60%)
  • Höfuðverkur (+50%)
  • Vöðvaverkir (+30%)
  • Kuldahrollur (+30%)
  • Liðverkir (+20%)
  • Hiti (+10%)

 

Algengar aukaverkanir sem hrjáð geta allt að einn af hverjum tíu:

  •  Þroti á stungusvæðinu
  • Roði á stungusvæðinu
  • Flökurleiki

 

Fátíðar aukaverkanir sem hrjáð geta allt að einn af hverjum hundrað:

  •  Bólgnir eitlar
  • Slappleiki

3 „Hvernig tókst þeim að framleiða bóluefni gegn kórónuveiru svo fljótt?“

Það tók tæpt ár að þróa fyrsta bóluefnið gegn kórónuveirunni.

Í gegnum tíðina hefur tekið 10-12-15 ár að þróa nýtt bóluefni. Þó tók ferlið ekki nema fjögur ár þegar bóluefni gegn hettusótt var þróað á sjöunda áratug síðustu aldar. Vinnan gekk þetta hratt fyrir sig sökum þess að vísindaleg undirbúningsvinna hafði þegar átt sér stað og sömu sögu er að segja af þróun bóluefna gegn COVID-19.

 

Bóluefnið frá AstraZeneca byggir sem dæmi á svonefndri veirugenaferju sem gegnir hlutverki sniðmáts. Í stuttu máli sagt þarf aðeins að bæta í sniðmátið próteinum úr veirunni sem bóluefninu er ætlað að vinna bug á.

 

Bóluefnaframleiðendum hefur jafnframt tekist að stytta tímann sem það tekur að þróa bóluefni vegna fyrri rannsókna á sviði bóluefna eftir að SARS braust út árið 2002. Veiran að baki þeim faraldri er með 80 prósent líkindi við okkar kórónuveiru, þ.e. SARS-CoV-2.

 

Þekkingin á SARS gaf t.d. til kynna að beita skyldi gaddapróteini sem er eins konar lykill veirunnar að líkamanum, í því skyni að bóluefnið geti kennt líkamanum að ráðast til atlögu. Strax í mars 2020 höfðu kínverskir vísindamenn kortlagt allt erfðaefni veirunnar, m.a. gaddaprótein hennar.

 

Þess má geta að bóluefni Pfizers og Moderna eru svonefnd RNA-bóluefni sem unnt er að framleiða alfarið í rannsóknarstofu sem gerir ferlið allt fljótvirkara en ella. Þegar framleiddar eru aðrar tegundir bóluefna þarf að nota lifandi veiruagnir og rækta þær en allt tekur þetta sinn tíma.

Við hjá Lifandi vísindum segjum sem svo:

 

Efasemdir eru af hinu góða! Allar vel unnar rannsóknir byggja á efasemdum, staðreyndum og vissu. Þetta ætti jafnframt að einkenna umræðuna um nýja bóluefnið gegn COVID-19.

 

Því miður fá staðreyndir og skynsemi ekki jafn mikið vægi og ótti og tilfinningar og fyrir bragðið verðum við þess áskynja hvernig lífshættulegar lygar og samsæriskenningar um bóluefnin breiðast út meðal fólks.

 

Á næstu mánuðum hyggjumst við fyrir vikið gera allt sem í okkar valdi stendur til að svara spurningum ykkar um nýju bóluefnin, lesendur góðir, til að draga úr áhyggjum ykkar og efasemdum.

 

Orðið er laust, til allrar hamingju. Við mælum með að þið kynnið ykkur vísindin á þessu sviði líka.

4. Hvernig vitum við að bólusetning gegn kórónuveirunni veldur ekki veikindum síðar meir?

 

Engin trygging er fyrir því að nýju bóluefnin hafi ekki í för með sér langtímaaukaverkanir en hins vegar á það ekki við nein rök að styðjast að þau geti haft í för með sér leyndar, langvarandi aukaverkanir.

 

Í fyrsta lagi má geta þess að reynslan af fyrri bóluefnum hefur sýnt að alvarlegar aukaverkanir, á borð við ofnæmisviðbrögð, gera yfirleitt vart við sig stuttu eftir bólusetningu.

 

Í öðru lagi er afar fátítt að grunsemdir vakni um alvarlegar, langvarandi aukaverkanir af völdum nútímabóluefna.

 

Bóluefnið Pandemrix sem notað var gegn svínaflensu árið 2009 er það efni sem mest umtal hefur hlotið fyrir slíkt.

 

Í Svíþjóð og Finnlandi vöknuðu grunsemdir um að börnum og ungmennum sem bólusett höfðu verið, væri fjórum til níu sinnum hættara við að fá drómasýki en ella.

 

Rannsókn sem gerð var við Stanford háskóla árið 2011 leiddi hins vegar í ljós að aukin tíðni drómasýki stafaði af veirusýkingum í efri öndunarvegum, m.a. eftir svínaflensusmit en ekki af sjálfri bólusetningunni. Í Danmörku hefur t.d. lyfjaeftirlitið lýst því yfir að Pandemrix sé fullkomlega öruggt bóluefni.

Staðhæfingar þess eðlis að MFR-bólusetning valdi einhverfu og að HPV-bólusetning hafi í för með sér ólýsanlega verki eru einnig úr lausu lofti gripnar.

 

Þetta breytir hins vegar engu um það að grannt verður fylgst með bólusetningum gegn kórónuveirunni á fjórða stiginu. Um er að ræða svokallað tilraunastig sem hefst eftir að leyfi fyrir bóluefninu hefur verið veitt og hefur það að markmiði að greina hugsanlegar aukaverkanir utan sjálfra rannsóknarstofutilraunanna.

 

5. Hvers vegna á að þvinga okkur til að fá bólusetningu?

Þeir sem standa fyrir mótmælum gegn bólusetningum halda því stundum fram að almenningur verði þvingaður til að láta bólusetja sig. Mannréttindasáttmálinn fjallar m.a. um „lyfjameðhöndlun án samþykkis“. Þó svo að lagaheimildir væru fyrir hendi, þá myndu þvingaðar bólusetningaraðgerðir allra íbúahópa einfaldlega brjóta í bága við mannréttindi.

 

Hópþvingun virðist ekki vera raunhæf lausn sem stendur.

 

Andstæðingar bólusetninga ræða enn fremur um óbeina þvingun: að þeim sem ekki verða bólusettir verði meinaður aðgangur að t.d. flugi og tónleikum.

 

Eitthvað í þessum dúr hefur borið á góma í löndum á borð við Bretland og Ástralíu.

 

Lagalega séð hafa einkafyrirtæki í líkingu við flugfélög og tónleikaskipuleggjendur fullt leyfi til að ákvarða sjálf hverjum þau hleypa inn, m.a. allsberu fólki, mjög drukknum einstaklingum, ellegar þá þeim sem ekki hafa látið bólusetja sig.

25.02.21

 

 

 

Jeppe Wojcik

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Hinsta verkefni Rommels 

Lifandi Saga

Stríðsrekstur Hitlers á lestarteinum 

Heilsa

Stökkbreytt gen hjálpar okkur að sofa minna

Lifandi Saga

Þungunarrof: Skömmin hrakti konur út í dauðann

Alheimurinn

Sólgos lýsir upp allt sólkerfið

Lifandi Saga

Kínverjar lásu Viktoríu drottningu pistilinn: „Reyndu að hafa stjórn á þínu illgjarna fólki“

Alheimurinn

Að baki fyrirbrigðinu: Halastjörnur eru tímahylki í geimnum

Jörðin

Hvers vegna er hafið salt?

Náttúran

Lítið eitt um geislavirkni

Alheimurinn

Hvað var fyrir Miklahvell?

Lifandi Saga

Ljósamafían eyðilagði ljósaperuna

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is