Mengað drykkjarvatn er mikið vandamál víðsvegar um heiminn en því kann „tepoki“ þróaður við Stellenbosch University í Suður-Afríku að ráða bug á.
Innihald pokans getur nefnilega fjarlægt bæði eiturefni, bakteríur og óhreinindi úr vatni með því að setja bara pokann ofan í drykkjarflösku eða vatnsglas.
Innri hliðin á hreinsipokanum er þakin þunnri filmu af bakteríudrepandi efni sem er ofið inn í örsmáar nanótrefjar en þær eru aðeins 1/100 af þykkt mannshárs.
Inni í pokanum eru virk viðarkol sem draga til sín fjölmörg eiturefni og fjarlægja þau úr vatninu. Samkvæmt líffræðingnum Eugene Cloete getur einn stakur poki að jafnaði hreinsað einn lítra af menguðu vatni þannig að það sé algerlega drykkjarhæft.
Með ódýrum og þekktum efnum má lækka framleiðslukostnað pokans niður í fáeinar krónur.