LESTÍMI: 4 MÍNÚTUR
Flensa, kvef og Covid-19 eru allt veirusjúkdómar sem leggjast á öndunarfærin og eru mörg einkenni sjúkdóma þessara svipuð.
Helsti munurinn er reyndar sá að sá síðastgreindi dregur gríðarlega marga til dauða þessa mánuðina ellegar veldur alvarlegum veikindum.
Í þessari stöðu er mikilvægt að geta lesið úr einkennum líkamans og að gera sér grein fyrir hvað aðgreinir þessa veirusjúkdóma.
Þegar öllu er á botninn hvolft getur einungis sýnataka skorið úr um hvort einstaklingur hefur smitast af kórónuveiru en einkennin geta vakið með okkur meira eða minna rökstuddar grunsemdir.
Einkenni
Á fyrsta, væga stiginu af Covid-19-smiti finna sjúklingarnir, samkvæmt upplýsingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, fyrir þurrum hósta og slæmri líðan en með því er átt við að líkaminn hegði sér öðruvísi en venjulega, fólk sé með vægan hita og finni hugsanlega fyrir þreytu. Þurr, þrálátur hósti er mikilvæg vísbending.
Sé um að ræða hósta, án þess að önnur einkenni geri vart við sig, er sennilega ekki um að ræða kórónuveiru.
Ef engin einkenni önnur en hor í nös gera vart við sig er sennilega aðeins um kvef að ræða. Nefrennsli er þó mögulega eitt af einkennum delta-afbrigðisins.
Flensa felur yfirleitt í sér mörg einkenni sem samanlagt valda því að við verðum óvinnufær.
Kórónuveirueinkenni birtast oft í þessari röð
Vísindamenn við háskólann í Suður-Kaliforníu hafa rannsakað alls 57.024 sjúkraskýrslur kórónuveirusjúklinga til þess að geta betur áttað sig á einkennum sjúkdómsins.
Niðurstöður þeirra leiddu í ljós að Covid-19 gerir iðulega fyrst þannig vart við sig að fólk fær hita og þvínæst hósta og vöðvaverki. Síðar meir koma svo einkenni í líkingu við flökurleika og uppköst og að lokum er svo niðurgangur.
Einungis mjög fáir sjúklingar verða varir við magaóþægindi sem fyrstu einkenni.
Vísindamenn binda vonir við að rannsóknir þeirra geti gagnast til að greina Covid-19 frá öðrum kvillum.
Meðgöngutími
Önnur leið til að meta hvort um er að ræða kórónuveirusmit er að átta sig á tímalengdinni sem líður frá því að smit á sér stað þar til einkennin koma í ljós, þ.e. meðgöngutíma sjúkdómsins.
Flensa þróast hratt, þ.e. á 1-4 dögum á meðan það tekur einkenni Covid-19 lengri tíma að láta á sér kræla. Miðgildið, þ.e. miðmælingin frá því að smit átti sér stað og þar til smitaði einstaklingurinn fer að finna fyrir einkennum, nemur alls 5,1 degi, ef marka má rannsóknir.
Kvef gerir vart við sig innan 1-3 daga.
Viðvörunarmerki
Viðbrögð ónæmiskerfisins við milljónum veiruagna í lungum geta á nokkrum dögum þróast yfir í lungnabólgu.
Fylgist náið með hvort andardrátturinn verður örari og breytist úr u.þ.b. 12-16 innöndunum yfir í 20-30 skipti á mínútu. Sömu aðvörunarmerkja verður að öllu jöfnu ekki vart í tengslum við kvef og flensu.
Geri öndunarerfiðleikar vart við sig, svo og þyngsli yfir brjósti og bláar varir, skyldi strax leita til læknis, samkvæmt leiðbeiningum bandarískra heilbrigðisyfirvalda.
Haldið ykkur heima hver sem einkennin eru
Rannsókn sem birtist í vísindatímaritinu Nature hefur leitt í ljós að mest hætta sé á smiti frá einstaklingi sem nýverið hefur smitast, jafnvel áður en einkennin koma í ljós. Því fyrr sem þig grunar að þú hafir smitast og ferð í einangrun, þeim mun minni hætta er á að þú smitir aðra.
Ef þú ert í vafa um hvort þú hafir smitast af Covid-19, flensu eða bara kvefi, mæla heilbrigðisyfirvöld með að þú haldir þig heima. Ráðlegt er að hringja í lækni ef einkennin versna.
JEPPE WOJCIK