Vísindamönnum hjá ríkisháskólanum í Washingtonfylki í BNA hefur nú tekist að finna sameiginlega lausn á tveimur gjörólíkum vandamálum.
Annað vandamálið fólst í því að þróa nýtt efni í gangstéttarhellur. Hefðbundnar hellur eru svo þéttar að vatn kemst ekki í gegn og í mikilli rigningu safnast vatn upp bæði á götum og gangstéttum.
Slit vandamál
Úrhellisrigningar verða bæði öflugri og tíðari um þessar mundir vegna hnattrænnar hlýnunar og frárennslislagnir hafa oft ekki undan.
Tilraunir með gljúpar gangstéttarhellur hafa lofað góðu, en vatnið sem rennur gegnum þær, slítur þeim hratt. Þess vegna hafa menn þróað hellur sem eru bæði gljúpar og sterkar með því að blanda koltrefjum í steypuna.
Koltrefjar úr flugvélarhræi gera helluna nógu slitþolna til að þola gegnumstreymi vatns.
Fluvélahræ nýtt
Koltrefjar eru hins vegar dýrar, en með því að leysa alveg óskylt vandamál tókst að halda verðinu niðri. Koltrefjaefni hafa nú verið framleidd í svo mörg ár að þau eru farin að berast á haugana með þeim tækjum sem þau voru notuð í. Það er sem sagt til mikið af koltrefjum, sem ekki hefur verið unnt að endurnýta.
Við þróun steypunnar notuðu vísindamennirnir koltrefjar úr gömlum flugvélum frá Boeing-verksmiðjunum, en koltrefjar er líka að finna í gömlum bílum eða jafnvel vindmyllum.
Í vinnslunni er einblínt á að nota aðferðir sem hvorki krefjast efnameðferðar né mikillar orku.
Nýju flísarnar hafa verið prófaðar í rannsóknastofum með svo góðum árangri að nú á að prófa þær í raunverulegum gangstéttum.