Í um tvo áratugi hafa vísindamenn furðað sig á hala nokkrum sem geislar út frá tunglinu á hverju nýju tungli. Halinn uppgötvaðist árið 1998 og er lýst sem straumi af natríumfrumeindum – einu uppistöðuefninu í salti.
Rauðgult blik sem einungis er hægt að sjá með öflugum sjónaukum fylgir þessum mánaðarlega salthala. Og það er einmitt þetta blik sem hefur um áraraðir fengið vísindamenn til að klóra sér í kollinum, því að styrkur þess er breytilegur.
Nú hafa bandarískir vísindamenn fundið útskýringuna – eftir 14 ára rannsóknir og 21.000 ljósmyndir.
Loftsteinar skjóta salti út í geim
Tunglhalinn verður til þegar loftsteinar skella á yfirborði tunglsins en það rignir niður um 2.800 kg af loftsteinum á tunglið á degi hverjum.
Árekstrarnir þyrla upp ryki sem sólvindar þeyta mörg hundruð þúsund kílómetra út í geiminn. Tunglið hefur nefnilega engan lofthjúp til að halda í rykið.
Sjáið myndræna framsetningu á ögnunum sem jörðin safnar í einn geisla (a og c) sem myndar glitrandi hala á himninum (b):
📢 SCIENCE!
— Dr. James O'Donoghue (@physicsJ) March 4, 2021
1. The Moon is leaking sodium into space (via eg. meteors)
2. The Sun's radiation pressure & solar wind pushes it into a TAIL
3. Every month, Earth's gravity focuses the tail into a MOON BEAM that is seen on our night side! https://t.co/lbjyQeTsue by @SquigglyVolcano pic.twitter.com/9pPdoZXy3w
Geislastraumurinn er einungis sýnilegur frá jörðu einu sinni í mánuði við nýtt tungl, þegar tunglið er statt milli sólar og jörðu og halinn umlykur því jörðina.
Þyngdarsvið jarðar virkar eins og segull á natríumagnirnar og safnar þeim saman í þéttan straum sem glitrar mismikið á himni, þegar sjónaukanum er beint í gagnstæða átt við sólina.
Með því að rýna í fyrirbærið í 14 ár með öflugum sjónauka hafa vísindamenn við Boston University komist að því að sveiflur í styrk „halans“ tengjast því hvernig tilfallandi loftsteinum rignir niður á tunglið og í hvaða magni. Langflestir loftsteinanna eru afar litlir.
Risaloftsteinn gæti myndað sýnilegt blik
Frá 2006 til 2019 hafa stjarnfræðingarnir fylgst með styrk saltglitsins og tekið 21.000 myndir af tunglinu með sérstakri myndavél sem getur greint bylgjulengdir frá mismunandi frumefnum – t.d. natríum.
Þessar fyrirhafnarmiklu athuganir sýna að:
- Ljósblikið er sterkara þegar tunglið er nálægt jörðu.
- Blikið er sterkara þegar tunglið er norðan við sólbaug jarðar – þ.e.a.s. ofan við línu sem er dregin milli miðju sólar og miðju jarðar – og við nýtt tungl.
- Ljósstyrkurinn er breytilegur í mynstri sem fylgir fjölda tilfallandi loftsteina sem skella á jörðu – og þar með einnig á tunglið.
Það kom vísindamönnum á óvart að samhengi væri á milli tilfallandi árekstra loftsteina og styrks ljósbliksins. Þeir áttu von á því að finna sterkara samhengi við þá loftsteina sem skella á tunglinu frá loftsteinaregni sem kemur í lotum.
Ein möguleg skýring er að slitróttu loftsteinarnir séu stærri og tengist lengri og ófyrirsegjanlegum brautum sem veita þeim meiri hraða og orku.
Þegar slíkir loftsteinar skella á tunglinu þyrla þeir upp meira ryki – og skila þannig meira efni í tunglhalann.
Tilfallandi loftsteinar verka meira á saltblik tunglsins en t.d. lotubundið loftsteinaregn Leónítanna sem vísindamenn hugðust athuga árið 1998 þegar þeir uppgötvuðu hala tunglsins.
Með réttri tímasetningu og stærð loftsteinaárekstra telja vísindamenn að stór árekstur við tunglið gæti skapað svo öflugt blik, að það sjáist frá jörðu með berum augum.