Ratsjárstjórinn Erich Handke finnur að það er bankað í bakið á honum þegar hann situr með tveimur þýskum samlöndum sínum í næturárásarflugvél aðfaranótt 31. mars 1944.
„Þarna! Hann er þarna uppi,“ öskrar skytta vélarinnar og bendir á skugga breskrar Lancaster sprengjuflugvélar á tunglbjörtum næturhimninum vestur af Nürnberg.
Með hjálp ratsjár á jörðu niðri auk ratsjárbúnaðar flugvélarinnar hefur Handke fundið stóru bresku sprengjuflugvélina. Flugmaðurinn, Martin Drewes hægir á Messerschmitt vélinni og lætur hana svífa undir bresku sprengjuflugvélina.
Þegar hún er í um 50 metra fjarlægð frá Bretanum sem greinilega hefur ekki tekið eftir hættunni sem leynist í myrkrinu fyrir neðan, byrjar Drewes skothríð með vélbyssunni. Það kviknar í öðrum væng sprengjuflugvélarinnar.
„Við fylgdum Lancaster vélinni í fimm mínútur – þar til hún hrapaði og sprakk,“ sagði Erich Handke síðar.
Þessi árás yfir Nürnberg er langt frá því að vera sú fyrsta sem áhöfnin gerði. Þeir voru hluti af þýsku næturherliði sem steig á stokk á hverju kvöldi til að koma í veg fyrir að sprengjuflugvélar bandamanna geri loftárásir á Þýskaland.
Frá 1939 til 1945 skutu næturárásarvélarnar niður meira en 5.000 breskar sprengjuflugvélar – en það kostaði fórnir.

Það þurfti stáltaugar til þess að fljúga þýskri næturflugvél. Sprengjuflugvélar bandamanna voru fylltar af vélbyssum, svo næturkapparnir urðu að laumast að bráð sinni í myrkri.
Hugmyndin varð til í Danmörku
Þýska næturárásaflugliðið var stofnað sem svar við nætursprengjuárásum Breta á Þýskaland sem hófust í maí 1940, þar sem sérstaklega var ráðist á iðnaðar- og hafnarmannvirki.
Sprengjuflugvélar frá Konunglega breska flughernum (Royal Air Force), RAF, flugu oft yfir Danmörku sem var hersetin af Þjóðverjum. Hér sat hinn reyndi, þýski orustuflugmaður Wolfgang Falck í flugstöðinni í Álaborg og heyrði bresku flugvélarnar koma með banvænan farm sinn í gegnum myrkrið á leið til heimalands hans.
„Stöku sinnum sprengdu þeir flugvöllinn okkar á leiðinni heim eða skutu á flugvélar okkar með vélbyssum í árásum úr lítilli hæð og þar sátum við orustuflugmennirnir í skotgröfum!“ sagði hann eftir stríðið.
„Þetta var mjög niðurdrepandi fyrir okkur. Ég hugsaði að fyrst RAF gat flogið á nóttunni, hvers vegna gætum við það þá ekki líka?“
Falck komst að því að með nokkrum breytingum á Messerschmitt Bf 110 árásarflugvélum sínum væri hægt að nota þær til að ráðast á óvininn á nóttunni. Hann greindi frá hugmyndum sínum í ítarlega skýrslu sem send var yfirmanni þýska flughersins (Luftwaffe), Hermanni Göring.
„Göring var ekki ákjósanlegur leiðtogi en hann var ekki mótfallinn nýjum hugmyndum í baráttunni við bresku sprengjuflugvélarnar,“ sagði Falck sem fékk breyttar flugvélar til umráða.

Árásarflugmaðurinn Wolfgang Falck stofnaði og skipulagði þýsku næturárásasveitirnar til að berjast við sprengjuflugvélar bandamanna.
Þann 26. júní 1940 varð Nachtjagd – þýska næturárásasveitin – að veruleika með Falck sem leiðtoga.
Mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, voru næturvélarnar og árásaraðferðir þeirra betrumbættar og þegar RAF hóf öfluga hrinu sprengjuárása á Þýskaland frá og með vorinu 1942, urðu næturárásasveitirnar áhrifaríkasti óvinur sprengjuflugvéla þeirra.
Með nútíma ratsjám og öflugum vélbyssum ofsóttu næturárásarvélarnar Breta eins og martröð.
Flugmennirnir læddust að bráðinni
Tækniþróun ratsjár skipti sköpum fyrir næturárásarvélarnar þegar þær fóru á loft seint að kvöldi eða nóttu. Stóru ratsjárnar úti á ströndinni sáu bresku sprengjuflugvélarnar þegar þær komu yfir Norðursjó og minni ratsjár fylgdust síðan með þeim á leið þeirra yfir álfuna.
Sérhverri næturárásarvél var úthlutað afmarkað árásarsvæði u.þ.b. 50 km2 og þeim var leiðbeint að sprengjuflugvélunum í gegnum talstöð. „Dicke Auto“ – breiður bíll – tilkynnti bardagastjórnandinn af jörðu niðri þegar hann sá breskar sprengjuflugvélar á radarnum.
Hann gaf ratsjárstjóra orustuflugvélarinnar upplýsingar um hæð og staðsetningu óvinarins og að því loknu kveikti flugstjórinn á eigin ratsjá sem gat síðan leitt flugvélina að skotmarkinu.
„Skyttur bresku flugvélanna sáu okkur sjaldnast“
Þýski næturárásaflugmaðurinn Helmuth Schulte.
Loftnet ratsjárinnar var fest á nef flugvélarinnar og leit nánast út eins og þurrkgrind en þetta furðulega útlítandi tæki var lykillinn að því að geta fundið bráð sína í myrkri innan nokkurra mínútna.
„Pauke! Pauke!“ tilkynnti orustuflugmaðurinn þegar hann sá skotmarkið.
Næturárásarvélarnar réðust nánast alltaf á sprengjuflugvél aftan frá. Flugmaðurinn læddist undir bráðina og gat síðan notað sjónspegla til að skjóta á óvininn úr 20 mm vélbyssu.
„Þegar við vorum í 50-100 metra fjarlægð gerði ég mig tilbúinn og miðaði á milli tveggja hreyfla hægra megin. Um leið og ég hafði skotið, beygði ég til vinstri. Skyttur bresku flugvélanna sáu okkur sjaldnast,“ rifjar flugmaðurinn Helmuth Schulte upp.
Á klukkutíma gat þýskur flugmaður ráðist á sex sprengjuflugvélar að meðaltali áður en hann þurfti að lenda til að taka eldsneyti og endurnýja skotfærabyrgðirnar. Á góðum dögum gátu bestu flugmennirnir því unnið marga sigra.
„Þeir báðu næstum því um að verða skotnir niður“.
Heinz-Wolfgang Schnaufer árásaflugmaður um sprengjuflugvélar óvinarins.
Á aðeins einni nóttu grandaði ásinn Heinz-Wolfgang Schnaufer allt að sjö Lancaster flugvélum.
„Þeir báðu næstum því um að verða skotnir niður. Ég varð einfaldlega að hætta eftir þann sjöunda. Ég varð þreyttur á að drepa,“ sagði Þjóðverjinn.
Á tímabilinu mars til júní 1943 tókst 378 næturárásarflugvélum Þjóðverja að skjóta niður meira en 700 breskar sprengjuflugvélar með tæplega 6.000 áhafnarmeðlimum.
Sumarið 1943 taldi RAF sig hafa leyst þetta vandamál þegar þeir notuðu í fyrsta sinn svokallað „jamming“ í árás á Hamborg. 92 milljón ræmum af álpappír – með heildarþyngd u.þ.b. 40 tonnum – var hent út úr flugvélunum til að trufla ratsjárkerfi Þjóðverja.
Og þetta virkaði. Aðeins 1,5 prósent sprengjuflugvélanna í þeim leiðangri voru skotnar niður í stað 6-8 prósenta áður. En gleði Breta varð skammvinn.
⇑ Þunglamaleg árásarvél varð martröð bandamanna
Hellingur af Messerschmitt Bf 110 var skotinn niður í orustunni um Bretland árið 1940 en eftir endurteknar endurbætur og uppfærslur, þá nefnd Me 110, varð hún ein farsælasta næturárásavél seinni heimsstyrjaldarinnar.
Þegar Þjóðverjar notuðu Messerschmitt Bf 110 í innrásunum í Pólland og Frakkland, vann þessi þunglamalega árásarflugvél frá 1937 verkefnið eins og til var ætlast.
En þegar hún var notuð til að fylgja sprengjuflugvélum í orustunni um England á árunum 1940-1941 kom annað á daginn.
Þessi þunglamalega, tveggja hreyfla vél var allt of erfið í stjórn þegar hún lenti í loftbardögum við til dæmis bresku Spitfire vélarnar.
„Hún hreyfðist eins hægt og síróp. Og hún gat ekki verið í loftinu í meira en einn og hálfan tíma áður en við þurftum að snúa heim. Hvað ef við mætum Spitfire? Og við á 110unni okkar? Gleymdu því! Þá var ekkert annað að gera en að koma sér burt,“ sagði þýskur flugmaður.
Á hinn bóginn fann Messerschmitt 110 sitt rétta hlutverk við næturárásir. Hér kom rúmgóður stjórnklefi vélinni til góða því þar var pláss fyrir ratsjárbúnað, ratsjárstjóra og auka vélbyssur. Fullbúin til næturárása vó vélin u.þ.b. 10 tonn – tvöfalt meira en vélin gerði óbreytt í upphafi.
Messerschmitt 110 næturárásarvélarnar voru smíðaðar í nokkrum útfærslum, með ratsjá og mismunandi vopnabúnaði en sameiginlegt þeim öllum var að vélin þróaðist frá því að vera nánast vonlaus til þess að verða ein besta næturárásarvél samtímans.
Þýsku Messerschmitt 110 næturárásarvélarnar réðust venjulega á óvininn neðan frá. Myndin er fengin að láni frá Military-Art.com, þar sem hægt er að kaupa svipaðar myndir áritaðar.

Loftnet fann flugvélar
Hið einkennandi loftnet á nefinu var mikilvægasti hluti svokallaðrar Lichtenstein ratsjár sem gerði árásarvélinni kleift að fylgjast með flugvélum í innan við 3,5 kílómetra fjarlægð.
Flugvélin gerði árás neðan frá
Messerschmitt 110 næturárásarvélin læddist undir sprengjuflugvélarnar. Úr þeirri stöðu var hægt að skjóta á neðri hluta sprengjuflugvélarinnar. Að öðrum kosti gat flugmaðurinn skotið úr 20 mm vélbyssu sem snéri skáhallt upp á við.
Skotmarkið var eldsneytistankarnir
Árásarflugmaðurinn stefndi á vængi sprengjuflugvélarinnar en í þeim voru bæði eldsneytistankarnir og mótorarnir. Nokkrar sekúndur af vélbyssuskothríð nægðu til að gera út af við sprengjuvélina.
Þjóðverjar svöruðu eins og villisvín
Í júlí 1943 var ratsjárkerfi Þjóðverja betrumbætt til að bregðast við þessum mótleik Bretanna. Hajo Herrmann majór kom með þá hugmynd að nota liprar einshreyfils orustuflugvélar sem í raun voru ætlaðar til dagárása, í næturbardögum gegn Bretum.
Í vélunum var ekki pláss fyrir ratsjá. Þess í stað notuðu þeir svokallaða villisvínataktík. Það fólst í því að orustuflugmenn hringsóluðu í hópum þar til orustustjórnandi þeirra tilkynnti um hnit óvinasprengjuflugvélanna og væntanlega stefnu.
Leitarljós á jörðu niðri hjálpuðu orustuflugvélunum að koma auga á óvininn. Eftir það rötuðu orustuflugmennirnir – eins og árásargjörn villisvín – inn um hliðar bresku fylkingarinnar og skutu á vængi sprengjuflugvélanna áður en þeir þrumuðu í burtu aftur.
Ef ekki kviknaði í sprengjuflugvél við þetta var hún yfirleitt það mikið skemmd að hún varð auðvelt fórnarlamb á leiðinni heim til Englands.
Haustið 1943 olli þessi árangursríka vörn Þjóðverja miklum áhyggjum hjá RAF.
„Við erum ekki að ná árangri í að sigrast á þýsku næturvörninni. Við gætum þurft að horfast í augu við að annað hvort getum við ekki haldið uppi næturárásum eða að Þýskaland er fært um að brjóta þær á bak aftur,“ sagði Norman Bottomley flughershöfðingi.
Bretar svöruðu í sömu mynt
Hajo Herrmann tók sjálfur nokkrum sinnum þátt í hörðum loftbardögum, m.a. í janúar 1944, þegar meira en 150 næturorustuvélar vörðu Berlín með villisvínaaðferðinni:
„Ég sá fyrsta leitarljósið okkar, svo annað, þriðja og svo fleira. Frábært! Af stað! Ég stefndi inn á upplýstan, litríkan vígvöllinn. Í nokkrar sekúndur blinduðu flóðljósin mig. Svo opnaði ég (fyrir vélbyssurnar, ritstj.). Það kviknaði í sprengjuflugvélinni. Ég skaut aftur og sprengjuflugvélin varð alelda“.
Viðbrögð Breta við miklum afföllum í flugflotanum voru að senda eigin næturorustuvélar yfir Þýskaland ásamt sprengjuflugvélunum.
Hajo Herrmann uppgötvaði þessa nýju ógn nálægt Berlín þegar skot frá Mosquito vél hæfði hann sekúndum eftir að hann hafði skotið niður óvinasprengjuflugvél.
„Það varð hávaði, brak og brestir allt í kringum mig. Ég fann að eitthvað slóst í fótinn á mér. Ég var orðinn bráðin í eigin árás – logarnir í kringum sprengjuflugvélina lýstu algjörlega upp loftrýmið,“ útskýrði Herrmann sem þrátt fyrir slasaðan fótinn tókst að fljúga vél sinni á flugvöll.
Þrír flugmenn skutu niður 306 flugvélar
Þrír farsælustu næturárásaflugmennirnir skutu samtals niður yfir 300 breskar flugvélar. Þessi þrenning átti heiðurinn af yfir fimm prósentum af öllum sigrum þýsku næturveiðimannanna.

121 sigrar: Næturdraugurinn hræddi óvininn
Með því að granda 121 flugvél fór Heinz-Wolfgang Schnaufer fram úr öllum öðrum þýskum næturárásaflugmönnum. Hann vann flesta sigra sína í flugvél af gerðinni Messerschmitt Me 110. Ótrúleg nákvæmni Schnaufers gaf honum viðurnefnið „Næturdraugurinn frá Trond“ eftir bækistöð hans í Belgíu. Schnaufer lifði stríðið af en lést í umferðarslysi árið 1950.

102 sigrar: Flugmenn fórust við lendingu
Sumarið 1944 var Helmut Lent sá fyrsti til að ná að granda 100 flugvélum sem næturárásaflugmaður – rúmum þremur árum eftir fyrstu næturárás hans. En hinn farsæli flugmaður náði aðeins að vinna samtals 102 sigra áður en hann hrapaði haustið 1944 í ferjuflugi, þar sem Junkers Ju 88 vél hans flæktist í rafmagnslínum í lendingu vegna vélarbilunar.

83 sigrar: Fallhlíf aðalsmannsins brást
Sonur diplómatsins Heinrich Prinz zu Sayn-Wittgenstein fæddist í Kaupmannahöfn. Í stríðinu var hann númer 1 á lista yfir flesta sigra sem næturárásaflugmaður þar til Junkers Ju 88 vél hans var skotin niður í janúar 1944. Allir þrír áhafnarmeðlimir komust út úr vélinni en fallhlíf Heinrichs opnaðist ekki. Hann náði samtals að granda 83 flugvélum.
Orustuvélarnar hurfu af himninum
Þótt þýska næturflugsveitin hafi haldið áfram velgengni sinni fram til 1944, varð ljóst þegar leið á árið að árangursríkar varnir þeirra dygðu ekki lengur.
Í maí 1944 ollu bandarískar sprengjuárásir á sjö þýskar verksmiðjur sem framleiddu gerviolíu, kvíða Albert Speer varnarmálaráðherra.
„Óvinurinn hefur hitt á einn veikasta punkt okkar. Ef þeir halda svona áfram munum við bráðum ekki lengur hafa eldsneytisframleiðslu sem vert er að tala um,“ skrifaði hann Hitler.
Auk eldsneytiskreppunnar varð skortur á flugmönnum einnig til þess að fleiri og fleiri næturflugvélar stóðu áfram á jörðu niðri, jafnvel þegar ráðist var á þýsk skotmörk. Þjóðverjar töluðu um „die furchtbare Zeit“ – hinn hræðilega tíma.
Luftwaffe missti flugmenn einfaldlega hraðar en hægt var að þjálfa nýja – jafnvel þó að á síðasta ári stríðsins hafi þýskir flugmenn aðeins fengið 160 flugtíma, þar af 10-20 tíma í orustuflugvél.

Þegar hetja næturárásasveitanna, Helmut Lent fórst í flugslysi árið 1944 talaði sjálfur Hermann Göring við jarðarförina.
En þar sem lærdómstíminn var mun styttri en hjá breskum andstæðingum þeirra urðu lífslíkur ungu þýsku orustuflugmannanna verri, því í loftrýminu yfir Þýskalandi sluppu aðeins þeir hæfustu lifandi.
„Næturbardagi var engin ánægja. Þetta var bitur reynsla sem tók á taugarnar og fáir lifðu af. Þeir fáu sem lifðu af höfðu umfram allt hæfileikana og nauðsynlega heppni,“ sagði Helmuth Schulte flugmaður.
Um 3.800 næturflugmenn og áhafnarmeðlimir fórust á árunum 1940 til 1945, þegar næturárásasveitinni tókst á móti að skjóta niður 5.833 breskar sprengjuflugvélar.
Á endanum gátu næturkapparnir hins vegar ekki komið í veg fyrir að óvinurinn sprengdi stórborgir Þýskalands og iðnaðarsvæði í tætlur.
„Við vorum einfaldlega færri en við gerðum það sem við gátum. En það var einfaldlega ekki nóg,“ sagði Wolfgang Falck eftir stríðið.