Lifandi Saga

Upphafsár slökkviflugvéla: Óttalausir flugmenn réðust gegn eldinum

Árið 1955 opnaði flugmaðurinn Vance Nolta lúgu á heimasmíðaðri flugvél sinni og dembdi 640 lítrum af vatni yfir brennandi skóg í Kaliforníu. Æ síðan hafa flugvélar verið eitt öflugasta vopnið í baráttu við skógarelda.

BIRT: 08/06/2024

Logarnir dansa um Mendocino skóg í Kaliforníu þar sem eldurinn æðir um þjóðgarðinn og gleypir eldgamlar fururnar.

 

Það er 12. ágúst árið 1955 og hópar slökkviliðsmanna keppa við klukkuna við að hindra að eldarnir nái upp á fjallið Bald Mountain og breiðist þaðan um allan hinn gríðarstóra þjóðgarð.

 

Skyndilega heyrast drunur að ofan. Kófsveittir slökkviliðsmennirnir líta upp frá verki sínu við að grafa skurði í skógarbotninn til að hindra framrás eldsins.

 

Í gegnum reykjarmökkinn sjá þeir hvar Vance Nolta kemur fljúgandi í tvíþekjunni sinni klár í slaginn við eldhafið. Hann kippir í snúru um borð í vélinni og við það opnast lúga og 640 lítrar af vatni steypast yfir eldinn úr 20 metra hæð.

 

Þetta var í fyrsta skipti í sögunni sem flugvél var notuð til að slökkva eld en síðan þá hafa flugvélar verið eitt öflugasta vopnið sem við eigum í baráttunni við skógarelda hvarvetna í heiminum.

 

Þessi atburður í Mendocino skógi var aðeins upphafið á endalausri baráttu óttalausra flugmanna slökkviflugvéla við illvíga skógarelda sem verða sífellt hættulegri.

 

Í dag er starf þeirra talið eitt það hættulegasta í heiminum. Hér á eftir fer sagan af fyrstu slökkiliðsmönnum háloftanna.

Í dag skiptir hjálp frá slökkviflugvélum oft sköpum fyrir slökkviliðsmenn á jörðu niðri.

Hugmyndin komin frá þýskum ævintýramanni

Það var engin tilviljun að fljúgandi slökkvilið varð fyrst til í Kaliforníu. Þar kvikna um 8.000 skógareldar árlega.

 

Kalifornia, ásamt Oregon og Washington fylkjum urðu hluti af Bandaríkjunum um miðja 19. öldina og þá náðu Bandaríkin að Kyrrahafsströndinni.

 

Í fjallendinu inn af ströndinni urðu til margir bæir, oft afskekktir og umvafðir skóglendi og voru því berskjaldaðir fyrir ógninni af skógareldum.

 

Gróðurinn í skógunum er oft olíuríkur sem auðveldar plöntunum að lifa í miklum þurrki en gerir þær um leið einstaklega eldfimar.

 

Einir mestu skógareldar í sögu Kaliforníu urðu í september 1889 þegar 1.200 ferkílómetrar urðu eldi að bráð.

 

Fyrir einhverja ótrúlega heppni varð ekkert manntjón í þessum eldum því íbúarnir á svæðinu voru næsta bjargarlausir því þeir höfðu fátt annað en vatnsfötur og skóflur og grannar leðurslöngur til að berjast við eldinn.

Fram til 1955 var allt slökkvistarf í Bandaríkjunum unnið á jörðu niðri. Hér eru sjálfboðaliðar á leið í útkall árið 1934.

Eftir að Wright bræðrum tókst fyrstum manna að fljúga flugvél árið 1903 leið ekki á löngu þar til vesturstrandarbúar fengu þá hugmynd að nota mætti flugvélar til að hemja þær þúsundir skógarelda sem árlega kviknuðu á svæðinu.

 

Strax árið 1919 byrjuðu skógarverðir í Kyrrahafsríkjunum að fylgjast með skógareldum úr lofti.

 

1929 lagði þýski flugmaðurinn Friedrich Karl von Koening-Warthausen sem fyrstur manna flaug einsamall umhverfis jörðina, til að nota flugvélar gegn skógareldum eftir að hafa í júní sama ár séð skógarelda úr lofti.

 

Víðast hvar hlógu menn að hugmyndinni en ekki á vesturströnd Bandaríkjanna þar sem minni flugvélaframleiðendur og sjálfstæðir flugmenn höfðu verið að gera tilraunir með að varpa vatnssprengjum og vatnskútum úr flugvélum. Engar af þessum tilraunum höfðu þó skilað árangri.

 

Eftir seinni heimsstyrjöldina kom fram fjöldi ofurhuga sem voru til í að reyna sig við kalifornísku vítiseldana.

Floyd Nolta (fyrir miðju) breytti Boeing-Stearman Model 75 sem var u.þ.b. 8 metra löng tvíþekja, í slökkviflugvél.

Áhættuflugmaður smíðaði hina fljúgandi brunaslöngu

Maðurinn á bak við þróun slökkviflugvélarinnar var Floyd Nolta sem hafði áður starfað sem flugvirki, áhættuflugmaður og við áburðardreifingu úr flugvélum.

 

Umfram aðra var það Floyd Nolta sem gerði hugmyndina um slökkviflugvél að veruleika.

 

Floyd var heillaður af flugi frá barnsaldri og árið 1917, þá 17 ára gamall skráði hann sig í herinn og varð flugvirki á herflugvelli í San Diego.

 

Ekki minnkaði áhugi hans á flugi við það og strax eftir fyrri heimsstyrjöldina lærði hann að fljúga og stofnaði félagið Willows Flying Service sem sérhæfði sig í að dreifa fræi og áburði yfir akra bænda úr flugvélum.

 

Tveir yngri bræður hans, þeir Dale og Vance störfuðu við þetta með honum.

 

Árið 1939 hafði fyrirtækið 11 flugvélar í rekstri. Meðfram landbúnaðarfluginu starfað Floyd sem áhættuflugmaður í Hollywood.

 

Í seinni heimsstyrjöldinni voru bæði Vance og Floyd í hernum. Floyd var m.a. flugmaður í áróðurskvikmynd sem var gerð árið 1944. En eftir flugóhapp árið 1950 eftirlét hann Vance, litla bróður sínum hlutverk flughetjunnar.

 

Þess vegna var það Vance sem tók þátt í að slökkva skógarelda í Kaliforníu árið 1955 og varð þar með fyrstur manna til að nota flugvél við slökkvistarf.

Úr áburðardreifingu í slökkvistörf

Eftir stríðið streymdu atvinnulausir flugmenn til norður Kaliforníu þar sem hægt var að þéna vel vegna ört vaxandi notkunar flugvéla í landbúnaði.

 

Gamlar tvíþekjur voru útbúnar úðunarbúnaði og hinir þaulreyndu herflugmenn dreifðu úr þeim áburði og skordýraeitri yfir ræktarlönd bænda.

 

Um 1950 var eftirspurn eftir þessari þjónustu orðin svo mikil að margir fyrrverandi herflugmenn keyptu sjálfir flugvélar og stofnuðu sín eigin fyrirtæki. Einn þeirra var fyrrverandi áhættuflugmaðurinn Floyd „Speed“ Nolta sem bauð þessa þjónustu í gegn um fyrirtæki sitt, Willow Flying Service í bænum Willow í Kaliforníu.

 

Svo vildi til að yfirmaður skógarmála í Willow, skógfræðingurinn Joe Ely var mikill flugáhugamaður. Og þegar 15 ungir slökkviliðsmenn fórust við störf sín árið 1953 þegar bærinn brann að miklu leyti til grunna, einsetti Ely sér að gera að veruleika hugmynd sem hann hafði lengi gengið með.

„Hann bað mig að koma aftur eftir viku“.
Joe Ely eftir að hafa spurt flugmanninn Floud Nolta um slökkvistarf úr flugvél.

Honum hafði komið í hug að fyrst flugvélar gátu dreift áburði úr lofti þá hlytu þær líka að geta dreift vatni. Yfirvöld höfðu litla trú á hugmyndinni í fyrstu en að lokum tókst Ely að fá stuðning til að reyna þetta.

 

Fyrstu flugmennirnir sem hann leitaði til höfðu ekki áhuga á að taka þátt. Það var svo sumarið 1955 sem Ely kom á litla flugvöllinn hans Floyds Nolta sem hann hitti fyrir flugmann sem sýndi þessu áhuga.

 

„Ég sagði að ég væri að leita að flugmanni með mikla reynslu af dreifingu úr lofti fyrir bændur og spurði hvort hann gæti gert það sama yfir brennandi skógi“, skrifaði Ely í æviminningum sínum. „Hann bað mig að koma aftur eftir viku“.

 

Hlegið að frumkvöðlinum

Floyd Nolta hafði þá þegar fundið upp búnað til að dreifa hrísgrjónafræjum úr flugvél og hann notaði sömu tækni til að gera hugmynd Elys að veruleika. Þann 23. júlí 1955 var slökkviflugvél Floyds tilbúin.

 

Hann hafði útbúið litlu Boeing-Stearman Model 75 flugvélina sína með 640 lítra vatnsgeymi, gert gat á botninn á skrokki vélarinnar og komið þar fyrir hlera sem hann gat opnað með einu handtaki úr flugmannssætinu.

Hin u.þ.b. 8 m langa tvíþekja Boeing-Stearman Model 75 var breytt af Floyd Nolta í slökkviflugvél.

Til að prófa búnaðinn kveikti Floyd í grasinu við flugbrautina og fékk bróður sinn, Vance til að fljúga yfir og reyna búnaðinn.

 

„Vance flaug lágt yfir eldinum og togaði í reipið og slökkti eldinn. Slökkviflugvélin var fædd“.

 

Innan við mánuði síðar, þann 12. ágúst braust út skógareldur í Mendocino, aðeins 40 km frá Willow. Nolta bræðurnir fylltu strax vatnstank vélarinnar og Vance setti stefnuna á eldinn.

 

Hann dreifði vatninu úr lítilli hæð yfir eldinn og snéri síðan til baka og fyllti tankinn að nýju. Hann tæmdi sex tanka yfir eldinn í vesturhlíðum fjallsins „Bald Mountain“.

 

Vatnsausturinn og störf slökkviliðsmanna á jörðu niðri dugðu til að ná tökum á eldinum. Árangurinn var svo góður að Joe Ely og Floyd Nolta voru fengnir til að stýra sérstakri björgunarsveit; MATS-Mendocino Air Tanker Squad.

 

Sveitin sem fékk fjárstuðning frá hinu opinbera óx hratt og árið 1956 hafði hún sjö flugvélar, flestar breyttar tvíþekjur. Þær höfðu aðsetur ýmist á Willow flugvelli eða flugvelli Noltes og börðust þaðan við skógarelda um alla Kaliforníu.

„Þeir óðu óttalaust út í hvað sem var“.
Joe Ely um fyrstu slökkviflugmennina

Almenningur gat hringt í neyðarnúmerið 80 hjá stjórnstöð í Willow ef einhver varð var við eld eða reyk í skógi einhvers staðar.

 

Fyrsta starfsmánuð sveitarinnar, ágúst 1956 var hún kölluð út 12 sinnum.

 

Sáningartíma bænda lauk í júni, svo nóg var af verkefnalausum flugmönnum sem tóku vinnu við slökkviflugið fegins hendi.

 

Ely sagði að þeir væru „… síðustu flughetjurnar með leðurhjálm og trefil. Þeir óðu óttalaust út í hvað sem var“, skrifaði Ely fullur aðdáunar.

 

Að kæfa eldinn með slökkviefnum

Árið 1956 flugu slökkviliðsflugmenn Noltes 1.387 ferðir og dreifðu 300.000 lítrum af vatni yfir skógarelda í Kaliforníu og Oregon.

 

En þeir uppgötvuðu fljótlega eitt vandamál. Ef eldtungurnar náðu alla leið upp í trjátoppana þá gufaði vatnið upp áður en það náði til jarðar.

Bestu slökkviflugvélar sögunnar

Frá árinu 1955 hafa flugvélar og þyrlur barist við elda um allan heim. Hér eru fjórar af þeim sögufrægustu.

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Þá hófu Joe Ely og flugmennirnir tilraunir með efnablöndur sem gætu kæft eld en gufuðu ekki upp við hita. Ein þeirra innihélt t.d. bentonit sem er tegund af leir sem sýgur í sig vatn svo það gufar ekki upp en leirinn átti það til að setjast í köggla í vatnstönkum flugvélanna.

 

Fyrirtæki nokkurt fann upp vél sem gat blandað 3.750 lítra af efnablöndu og dælt í tank flugvélarinnar á örfáum mínútum.

 

Byggt á reynslunni af slökkviflugvélunum settu Ely og Nolta fram lögmál um hvernig bestur árangur næðist. Ef vatninu var sleppt í 30 metra hæð yfir jörðu þá fór það að mestu til spillis.

 

„Markmiðið ætti að vera að fljúga eins lágt og eins hægt og mögulegt er. Það þýðir almennt 130 km/klst. í 15 metra hæð“, segir Ely í skýrslu frá 1957.

 

Þegar vatninu er sleppt getur flugvélin hækkað flugið mjög hratt og lyft sér frá eldhafinu og yfir næstu fjallsbrún.

 

En eftir því sem slökkvivélarnar urðu stærri urðu þær ekki eins liprar í meðförum. Árið 1958 fórst Joseph Anthony fyrstur slökkviflugmanna þegar vél hans hrapaði nærri Sequoia þjóðgarðinum í Kaliforníu.

 

40 árum síðar, árið 1997 höfðu nærri 200 slökkviflugmenn farist við störf sín í Bandaríkjunum.

Í Evrópu kostar slökkviflug einnig mannslíf, eins og til dæmis árið 2007 þegar ítölsk Canadair slökkvivél hrapaði til jarðar.

Flugmenn með dauðann á hælunum

Að slökkva skógarelda er hættulegasta starfið í flugbransanum ef herflug er frátalið. Í Bandaríkjunum einum hafa yfir 300 flugmenn og áhafnarmeðlimir látið lífið við slökkvistörf frá árinu 1955. Hér á eftir er sagt frá nokkrum af þeim sorglegu atvikum.

 

– 1958: Stélið brotnaði af.

Silverado-gljúfur í Kaliforníu: Tveir flugmenn í slökkvivél af gerðinni Beechcraft Bonanza fórust þegar stélið brotnaði af flugvélinni í slökkvileiðangri.

 

– 1962: Slys kveikti nýja elda

Shasta-Trinity í Kaliforníu: Grumman F7F slökkvivél rakst á tré í slökkviaðgerð. Flugmaðurinn fórst og nýir eldar kviknuðu út frá flaki vélarinnar.

 

– 1974: Feðgar fórust

Safford, Arizona: Feðgar, báðir flugmenn, fórust þegar vængur B-24 slökkvivélar þeirra rakst í tré.

 

– 1985: Rakst í tré

Spokane, Washington: Sjóflugvél hrapaði í stöðuvatn þegar hún var að sækja vatn til að slökkva elda. Vélin rakst í trjástofn sem stóð upp úr vatninu.

 

– 1990: Þyrluspaðar brotnuðu

Silver Creek, Washington: Flugmaður fórst þegar Bell 204B slökkviþyrla hrapaði, hugsanlega vegna mikils hita frá eldunum.

 

– 2002: Risi hrapar

Walker, Kalifornía: Risavaxin slökkvivél, 30 metra löng Herculesvél, var nýbúin að sleppa 11.000 lítrum af slökkvivökva þegar vængirnir brotnuðu. Þrír fórust.

Margar af slökkviflugvélunum í Bandaríkjunum á sjöunda áratugnum voru breyttar herflugvélar og gátu borið allt að 9.400 lítra af vatni. Það er um 15 sinnum meira en vél Vance Nolta árið 1955.

 

Árið 1967 kom á markað sérbyggð slökkviflugvél, hin þekkta Canadair CL-215 sem gat tekið vatn á flugi úr ám og vötnum og þannig fyllt 5.400 lítra tanka sína á örfáum sekúndum.

 

Þróunin hélt áfram allt fram á níunda áratuginn þegar vatnsílát var í fyrsta sinn fest neðan í þyrlu. Á þeim tíma var einnig farið að nota slökkviflugvélar við Miðjarðarhafið.

 

Í dag veldur hlýnandi veðurfar stöðugt fleiri og stærri skógareldum. Frá Bandaríkjunum til Ástralíu og Grikklands stendur á hverju ári örvæntingarfull barátta við eldhafið.

 

Og í hvert skipti fá slökkvilið á jörðu niðri ómetanlega hjálp frá kollegum sínum í lofti,- þökk sér Joe Ely og Floyd Nolta.

HÖFUNDUR: Björn Arnfred Bojesen & Niels Peter

© Historical/Getty Images,© Matt Gush/Shutterstock.com,© National Archives Catalog 95-GP-4763-291705,© Forest History Society,© Evren Kalinbacak/Imageselect,© Claudio Lattanzio/AP/Ritzau Scanpix,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Gallerí: Baráttan við náttúruöflin

Lifandi Saga

Miðaldir voru tími svikahrappanna: Sérfróðir í svikum og prettum 

Lifandi Saga

Hversu margir bjuggu í Ameríku þegar Kólumbus bar að garði?

Lifandi Saga

Öll von slokknaði í fangelsum 19. aldarinnar

Maðurinn

Streita veldur ofþyngd

Maðurinn

Svartir punktar afhjúpa getgátur heilans

Alheimurinn

Hvað ef jörðin væri í öðru sólkerfi?

Náttúran

Skoðið myndirnar: Úlfar hegða sér eins og allt önnur dýr

Alheimurinn

Ótrúlegt afrek: Nemendur slá nokkur heimsmet með heimagerðri eldflaug

Náttúran

Hversu stór gátu skorkvikindi orðið?

Lifandi Saga

Olíuborpallur springur: Eldhaf í Norðursjó

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.