Lífshættulegar matarvenjur setja nú pokamörðinn í Norðaustur-Ástralíu í mikla hættu.
Þessi dýr eiga til að éta eitraða tegund froskdýra, svonefndar sykurreyrkörtur.
Svo eitruð er tegundin að ein karta dugar til að drepa pokamörð.
En nú veita menn tegundinni aðstoð. Vísindamenn hjá Sydneyháskóla hafa kennt 30 pokamörðum að forðast sykurreyrkörturnar.
Þeir fönguðu pokamerðina og gáfu þeim litla skammta af körtunni, blandaða með uppsölulyfinu thiabendazol, sem olli dýrunum talsverðri vanlíðan. Eftir meðferðina voru sendar festir á pokamerðina og þeim sleppt.
Þegar vísindamennirnir skoðuðu þessa pungmerði síðar kom í ljós að þeir lifðu allt að fimm sinnum lengur en aðrir. Næsta skref verður nú að rannsaka hvort hægt sé að beita þessari aðferð í stórum stíl, þannig að hún geti fyrir alvöru gagnast rándýrum í útrýmingarhættu.
Vísindamennirnir íhuga að þjálfa líka bæði sandeðlur og stærri eðlur sem einnig hafa sykurreyrkörtuna á matseðli sínum.
Sykurreyrkartan var upphaflega flutt til Ástralíu frá Suður-Ameríku upp úr 1930 og átti þá að hreinsa upp bjöllur á sykurreyrekrum. En nú ógnar þetta froskdýr dýralífinu, vegna þess hve mörg dýr leggja körturnar sér til munns og drepast.