Svefnlausar nætur, ótal áhyggjur og grátandi börn valda foreldrum bæði erfiðleikum og þreytu. Þess vegna þarf það kannski ekki að koma á óvart að smábörn hraði öldruninni – alla vega hjá mæðrum.
Góða vísbendingu um hraða öldrunar er að finna í erfðamassanum eða réttara sagt á endum litninganna. Þar eru svokallaðir telómerar. Í telómerum eru engin gen, heldur er hlutverk þeirra að tryggja að erfðaefnið sé rétt afritað í hvert sinn sem fruma skiptir sér.
En við hverja frumuskiptingu styttast þessir endar. Þegar þeir eru orðnir mjög stuttir, deyja frumurnar og öldrunin verður áberandi. Stuttir telómerar tengjast t.d. bæði gráum hárum og hrukkum.
Aldur hefur áhrif á mæður
Vísindamenn hjá George Mason-háskóla í BNA hafa mælt lengd telómera í nærri 2.000 konum á aldrinum 20-44 ára.
Úr konunum voru tekin blóðsýni og lengd telómera í hvítum blóðkornum síðan mæld. Niðurstaðan sýndi að mæður höfðu að meðaltali 4,2% styttri telómera en barnlausar konur, jafnvel eftir að tekið hafði verið tillit til áhrifaþátta á borð við aldur, þyngd, kynþátt og tekjur.
Telómerar styttast að meðaltali um 9-10 basapör á hverju aldursári. Þar eð mæður hafa að meðaltali 116 færri basapör í telómerum en barnlausar konur virðist stytting telómeranna samsvara 11 ára frumuskiptingu.