Frá árinu 2000 hefur þýska rannsóknarskipið Polarstern sem tilheyrir Alfred Wegner-stofnuninni í Brimarhöfn verið einn ötulasti þátttakandi í alþjóðlegu rannsóknarverkefni, Census of Marine Life.
Meira en 2.000 sérfræðingar frá ríflega 80 löndum hafa tekið þátt í tilraun til að lýsa dýralífi heimshafanna og svara fjórum einföldum en ákaflega mikilvægum spurningum: Hversu margar tegundir finnast, hvar lifa þær, hve stórir eru stofnar þeirra og hvaða þýðingu hafa þær fyrir samspil lífvera í sjónum?
Eftir fjölmarga leiðangra í bæði norður- og suðurhluta Atlantshafsins hafa áhafnarmeðlimir átt sinn þátt í að lyfta hulunni af því hvernig líf mótast í myrku og köldu umhverfi, þar sem þrýstingur er langtum meiri en á landi.
Það er ekki auðvelt að vera djúpsjávardýr. Það er langt milli tegundarfélaga, bráðar og mögulegra maka á 4 – 5.000 metra dýpi. Fyrir djúpsjávardýr skiptir því mestu máli að grípa tækifærið þegar það gefst. Þegar bráð er loksins innan seilingar má hún ekki sleppa, jafnvel þó hún sé stærri en rándýrið.
Margir djúpsjávarfiskar eru því ekki aðeins búnir skaðræðistönnum og risastóru gini sem getur fangað hvaða bráð sem verða vill, þeir hafa einatt maga sem getur tekið dýr sem eru stærri en þeir sjálfir.
Margir fiskanna borða ríflega aðeins fáein skipti á ævi sinni.
Ekki síður er vandasamt að finna sér maka og á þessu sviði eru það fiskarnir sem hafa komið fram með öfgafyllstu lausnirnar. Þegar karldýr og kerla af ætt kjaftagelgja finnast, sleppa þau aldrei takinu.
Karlinn sem er miklu minni en kerlan bítur sig fastan í hana og vex eftir nokkra daga fastur við kvendýrið. Það sem eftir lifir er hann einungis sæðisbanki sem tekur næringu sína úr blóðkerfi hrygnunnar.
Veiðar á djúpsjávardýrum eru hreint ekki auðveldar og því hafa fræðimenn um borð í Polarstern þróað margvíslegan sérhæfðan búnað. Einn þeirra er svonefnt MOCNESS tól sem samanstendur af röð 5 fjarstýrðra neta sem sitja saman á einum ramma.
MOCNESS er sökkt niður á t.d. 5.000 m, eða hámarksdýpi, þar sem söfnunin fer fram. Þá er opnað með fjarstýringu fyrsta netið og búnaðurinn dreginn upp á 4.000 m dýpi.
Þessu næst má loka fyrsta neti og opna hið næsta og svona gengur það koll af kolli þar til MOCNESS nær til yfirborðs. Þannig vita líffræðingarnir á hvaða dýpi dýrin voru fönguð.
Á þilfarinu þarf að hafa skjótar hendur. Dýrin eru vön að lifa við allt aðrar aðstæður en við yfirborðið og því munu mörg þeirra vera annað hvort dauð þegar þau koma upp eða deyja skjótt. Sé hægt að koma þeim í ískaldan sjó strax geta þau þraukað í nokkurn tíma.
Þá tekur Solvin Zankls við dýrunum. Hann hefur þróað tækni sem gerir kleift að mynda dýrin án glers þannig að sjá megi öll smáatriði þeirra. Þetta krefjandi starf fer fram í myrkvuðum kæliklefa um borð í rannsóknarskipinu.