Klukkan fjögur að morgni þann 4. júní 1989 slökkna öll ljós á Torgi hins himneska friðar í Peking. Órói grípur um sig meðal hundruða þúsunda mótmælenda. Í margar vikur hafa þeir setið um hinn táknræna miðpunkt Kína og krafist lýðræðis en nú sendir kommúnistastjórn landsins herinn á vettvang. Í gegnum stóra hátalara heyrist kall:
„Við munum nú byrja að hreinsa torgið. Allir sem heyra þessi skilaboð verða að yfirgefa það tafarlaust. Hermennirnir munu beita öllum nauðsynlegum ráðum gegn þeim sem óhlýðnast þessari skipun“.
Í myrkrinu breiðist örvæntingin út. Sumir yfirgefa torgið í flýti. Aðrir hrópa slagorð eins og „ræningjar“ og „fasistar“ að hermönnunum sem eru að taka sér stöðu. Klukkan 4.30 kvikna ljósin aftur og hermenn með byssur og skriðdrekar sækja í átt að mótmælendum.
Skömmu síðar er Torg hins himneska friðar að mestu hreinsað. Alls staðar liggja dauðir og særðir – sex vikna uppreisn er drekkt í blóði. Fjöldamorðin eru alvarlegt vandamál fyrir leiðtoga Kína, Deng Xiaoping sem hefur opnað land sitt fyrir fjárfestingum vestrænna fyrirtækja. En nú er hætta á að allt stöðvist.
Sem betur fer fyrir Kínverja mun heimurinn þó fljótlega hafa nýtt illmenni í sigtinu, svo að „Miðríkið“ geti haldið ferð sinni áfram í átt að stöðu sem eina ríkið sem getur ögrað stöðu Bandaríkjanna sem mesta stórveldi heimsins.
Kötturinn á að veiða mýsnar
Eftir misheppnaða efnahagsáætlun Maós – og engu betri árangur eftirmanns hans Hua Guofeng – var kínverski kommúnistaflokkurinn loksins reiðubúinn að styðja leiðtogaframbjóðanda með raunsærri hugmyndafræði. Árið 1978 – tveimur árum eftir dauða Maós – benti flokkurinn á Deng Xiaoping sem tilheyrði hægri vængnum.
Kosning Deng gaf vonir um að framundan væri ríkara og opnara kínverskt samfélag. Hann hafði lengi talað fyrir opnari stjórnsýslu þannig að ofsóknirnar og misþyrmingarnar í menningarbyltingunni myndu aldrei endurtaka sig. Deng studdi einnig lýðræðishreyfingu landsins sem samanstóð af ungum Kínverjum sem leyfðu sér að gagnrýna Maó, menningarbyltinguna og bág kjör almennings.
Deng litli Xiaoping (hann mældist aðeins 157 sentimetrar) varð stór í Kína með því að beygja kommúnismann til hins ítrasta.
Gagnrýni þeirra mátti lesa á veggblöðum sem sett voru upp í miðborg Peking – og sem almennt gekk undir nafninu „Democracy Wall“. Hins vegar olli fyrsti leikur Dengs vonbrigðum meðal unga fólksins: Hann bannaði lýðræðishreyfinguna og lét rífa niður lýðræðismúrinn.
Í stað frjálsra kosninga innleiddi Deng umbætur til að tryggja betri lífskjör borgaranna. Aðferð hans fólst í því að sameina fimm ára áætlanir Kínverja með verkfærum úr markaðshagkerfinu.
„Það skiptir ekki máli hvort kötturinn er svartur eða hvítur, svo framarlega sem hann getur fangað mýs,“ útskýrði Deng fyrir flokksmönnum sem kölluðu það landráð að hleypa kapítalismanum inn í landið.
Svarti kötturinn var vel þekkt tákn fyrir áætlunarbúskap kommúnismans en hvíti kötturinn táknaði frjáls öfl markaðarins. Saman þurftu þeir (mýsnar), að skapa vöxtinn sem Kína þurfti svo sárlega á að halda.
Í landbúnaði voru hin óhagkvæmu samvinnusamfélög lögð niður. Þess í stað voru jarðir leigðar bændum á langtímasamningum. Dýrin og verkfærin í eigu samvinnusamfélaganna voru seld hæstbjóðanda og á skömmum tíma jókst matvælaframleiðsla til muna.
Þar sem samvinnusamfélögin höfðu áður þurft að skila meirihluta uppskerunnar til ríkisins, gátu bændur nú selt meirihlutann á frjálsum markaði, þar sem framboð og eftirspurn réðu verðinu.
Vestræn fyrirtæki eru lokkuð inn
Einnig komu fram mörg einkafyrirtæki innan iðnaðar- og þjónustugeirans. Í samskiptum við útlönd urðu afgerandi breytingar. Meðfram ströndinni stofnaði Deng efnahagssvæði þar sem erlendum fyrirtækjum bauðst að fjárfesta á sérstaklega hagstæðum kjörum.
Þau voru lokkuð til landsins með lágum sköttum, undanþágum frá aðflutningsgjöldum, lágum launum í Kína, banni við verkalýðsfélögum og vel þróuðum höfnum, vegum og járnbrautum.
Á valdatíma föður síns vann Deng Pufang óþreytandi í þágu fatlaðra í Kína. Árið 2003 hlaut hann Mannréttindaverðlaun Sameinuðu Þjóðanna fyrir störf sín.
Í Kína er hættulegt að tapa völdum
Valdabarátta í kommúnistaflokknum hefur alltaf verið harkaleg. Þegar Maó formaður hreinsaði toppinn af flokknum í menningarbyltingunni var það erfitt fyrir bæði fjölskyldu Deng Xiaoping og Xi Jinping.
Þegar á 3. áratugnum gekk Deng Xiaoping til liðs við Kommúnistaflokk Kína, þar sem hann varð fljótlega vinur Mao Zedong. Kannski var það vináttan sem bjargaði honum í hreinsununum árið 1966. Í stað áralangs fangelsisdóms var Deng sendur í útlegð til dráttarvélaverksmiðju langt frá Peking. Fjölskylda hans slapp þó ekki svo vel.
Einn af sonum Deng Xiaoping, Deng Pufang, var fangelsaður og pyntaður mánuðum saman af rauðu varðliðum Maós. Til að komast undan stökk hinn 24 ára gamli Pufang út um glugga á þriðju hæð árið 1968. Hann bakbrotnaði þegar hann skall í jörðina og lamaðist. Síðan þá hefur Deng Pufang verið í hjólastól. Núverandi leiðtogi Kína, Xi Jinping, varð einnig illa úti.
í menningarbyltingunni. Í opinberri heimsókn til Austur Þýskalands var faðir hans sakaður um að hafa horft um of til hins kapítalíska Vestur-Þýskalands – til að kynna sér lífið þar.
Vegna glæps eiginmanns síns var móðir Xi send út á land. Þar varð hún að vinna líkamlega erfiðisvinnu þrátt fyrir heilsubrest. Og ein af hálfsystrum Xi var myrt eða framdi sjálfsmorð af ótta við rauðu varðliðana.
Hinn 14 ára gamli Xi var sjálfur rekinn úr skóla og handtekinn af rauðu varðliðunum sem hótuðu að „taka hann af lífi hundrað sinnum“. Í kjölfarið var hann sendur í þorp u.þ.b. 1.000 kílómetra frá Peking til að vinna erfiða líkamlega vinnu.
Áhugi vestrænna stórfyrirtækja á að koma sér fyrir í Kína var gríðarlegur. Sum erlend stórfyrirtæki völdu að láta kínverskar verksmiðjur inni á svæðunum framleiða vörur sínar. Önnur hófu samstarf við kínversk fyrirtæki, þar sem erlent fjármagn og tækni voru flutt inn í kínverskar verksmiðjur og nutu góðs af vinnuafli þeirra. Loks voru einnig erlend fyrirtæki sem stofnuðu eigin verksmiðjur á fríverslunarsvæðunum.
Hagkerfi Kína óx um rúm sjö prósent árið 1979 og framtíðin fór að líta bjartar út fyrir hið áður afturhaldssama ríki. Þrátt fyrir bjartsýnina óttaðist Deng Xiaoping að gífurleg fólksfjölgun þjóðarinnar myndi gera það að verkum að ómögulegt yrði að tryggja íbúunum betri lífskjör. Þess vegna var eins barnsstefnan tekin upp. Kínverskum hjónum var framvegis aðeins heimilt að eignast eitt barn.
Ef þau brutu lögin var refsingin þung. Konur sem urðu óléttar áttu á hættu að verða neyddar til að fara í fóstureyðingu ef þær áttu barn fyrir.
Kommúnistar mega alveg vera ríkir
Umbætur Dengs skiluðu glæsilegum vexti í gegnum níunda áratuginn, þar sem verg þjóðarframleiðsla Kína jókst að meðaltali um 11 prósent – á hverju ári. Á mettíma varð landið að verkstæði heimsins þar sem allir gátu framleitt iðnaðarvörur sínar ódýrt.
Kínverskir verksmiðjueigendur og stjórnendur græddu vel í fyrsta skipti í áratugi. Sérstaklega í stærri borgum á austurströndinni settu sífellt fleiri auðmenn mark sitt á götumyndina með því að flagga auði sínum með eyðslusemi.
Stóru bílarnir, dýru heimilin og hönnunarfötin vöktu athygli margra flokksmanna, því kommúnisminn fordæmdi gróða og arðrán verkafólks. En Deng vissi líka hvernig átti að svara þeirri gagnrýni.
„Það er heiður að verða ríkur. Og sumir verða að fá að verða ríkir á undan öðrum,“ sagði hann. Að sögn leiðtoga landsins myndi auður nýju kínversku yfirstéttarinnar á endanum nuddast yfir á restina af þjóðinni.
Og velmegun breiddist svo sannarlega út. Milli 1980 og 1990 var á milli 150 og 200 milljónum Kínverja lyft upp úr sárri fátækt. Úti á landsbyggðinni urðu til fyrstu svokölluðu 10.000 júana bændurnir sem jafngildir því að vera milljónamæringur.
Á örfáum árum varð Kína ójafnara samfélag. Þeir sem urðu undir voru illa menntaðir, ungir jafnt sem eldri og miðaldra Kínverjar sem vegna „Stóra framfarastökksins“ á tímum Maó og menningarbyltingarinnar höfðu verið sviptir tækifærinu til að mennta sig.
Þeirra lífskjör voru að mestu óbreytt. Stökk Kína fram á við hafði einnig landfræðileg áhrif, því vöxturinn átti sér fyrst og fremst stað meðfram ströndinni á meðan mið- og vestur-Kína stóð í stað. Afleiðingar þess urðu að milljónir leituðu frá landsbyggðinni til borganna í von um betra líf.
Þróunin þýddi að orðspor Deng Xiaoping óx – bæði í Kína og erlendis. Bandaríska fréttatímaritið Time Magazine valdi Deng sem „mann ársins“ árið 1986.
En vinsældunum lauk skyndilega með fjöldamorðunum á Torgi hins himneska friðar.
Þótt kommúnistaflokkurinn hafi lagt sig fram um að fela það sem gerðist í skjóli myrkurs 4. júní 1989 lét heimspressan ekki blekkjast. Myndir af blóðugu malbikinu, reiðhjólum sem skriðdrekar flöttu út og brunnum vegatálmum og virkjum bárust um heiminn. Og viðbrögðin létu ekki á sér standa.
Vesturlönd drógu sig frá Kína og fjárfestingar stöðvuðust. Mörg erlend fyrirtæki drógu sig til baka að hluta eða öllu leyti. Deng Xiaoping sat eftir með umbótastefnu sem var við það að fara út um þúfur.
Segja skilið við reirða fætur
Það var árás Saddams Husseins á Kúveit árið 1990 sem losaði Kína úr einangruninni.
Vegna ritskoðunar er þessi mynd frá uppreisninni á Torgi hins himneska friðar 1989 óþekkt í Kína í dag. Ef þú spyrð Kínverja úti á götu, finnurðu engan sem man eftir „skriðdrekamanninum“.
Bandaríkin og alþjóðasamfélagið þurftu að fá stuðning Kína í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að samþykkja ályktanir sem gáfu grænt ljós á herferð alþjóðlegs bandalags gegn Írak.
Samvinna Kína og Bandaríkjanna varð til þess að Bandaríkjamenn fengu tilætlaðan stuðning við stríðið gegn Írak – og mörgum refsiaðgerðum sem beitt hafði verið gegn Kína eftir fjöldamorðin á Torgi hins himneska friðar var aflétt. Aftur lifnaði yfir efnahag Kína.
88 ára gamall fór Deng í sína síðustu stóru ferð til Suður-Kína árið 1992, þar sem hann heimsótti meðal annars Shenzhen-svæðið nálægt Hong Kong sem hafði árið 1979 orðið eitt af fyrstu sérstöku efnahagssvæðum landsins. Hér varði hann umbætur sínar.
„Ef það er eitthvað gott við kapítalismann, þá verður sósíalisminn að taka það til sín. Efnahagsumbæturnar mega ekki ganga jafn hægt og kona með reirða fætur,“ sagði Deng.
Með þessum orðum afhenti hann völdin í hendur nýrrar kynslóðar kínverskra leiðtoga – í þeirri von að þeir myndu fullkomna sýn hans um sterkara og ríkara Kína.
Yfirgripsmikil rannsókn sýnir hvaða borgir í heiminum verði harðast úti í eyðileggingu af völdum loftslagsbreytinga.
Á tíunda áratugnum óx iðnaðurinn enn frekar en umhverfið greiddi vöxtinn dýru verði. Í stórborgunum varð mengun að vaxandi vandamáli og mengaðar árnar skemmdu landslagið. Kína varð heldur ekki lýðræðislegra. Kommúnistaflokkurinn hélt áfram að taka allar pólitískar ákvarðanir – þó voru nokkrar umbætur gerðar til að koma í veg fyrir endurtekningu á persónudýrkun í kringum leiðtoga landsins.
Flokkurinn setti tímamörk á hversu lengi sami maður gæti gegnt æðstu embættum. Tvö kjörtímabil til fimm ára ættu að vera hámarkið. Einnig átti óformlegt aldurstakmark að koma í veg fyrir að valdamiklir menn gætu setið í embætti til dauðadags. Héðan í frá átti enginn að geta náð kjöri í æðstu embætti ef hann var eldri en 68 ára.
Loks leyfðu stjórnvöld í auknum mæli að efnt væri til mótmæla sem gagnrýndu samfélagsleg vandamál. Hins vegar var enn hart tekið á allri gagnrýni á einokun kommúnistaflokksins á valdinu.
Og undir stjórn núverandi leiðtoga Kína, Xi Jinping, hefur landið breyst enn og aftur.
Xi er Mao útgáfa 2.0
Xi Jinping var kjörinn leiðtogi kommúnistaflokksins árið 2012 og margir líta á hann í dag sem Maó með andlitslyftingu. Efnahagslega séð fetaði hann í fótspor Dengs – samkvæmt Xi hlutu framboð og eftirspurn að leika vaxandi hlutverk – en pólitískt var hann innblásinn af Maó.
Í dag eru mótmæli sjaldgæf. Takmarkanir á því hversu lengi leiðtogi má þjóna hafa einnig verið afnumdar, vegna þess að Xi vill gera Kína að stórveldi og sjálfan sig að valdamesta manni heims – eða kannski óttast hann bakslag í þróuninni ef hann segir af sér. Undir stjórn Xi er fylgst með mannfjöldanum enn nánar en áður og hart er tekið á hverjum þeim sem ekki fylgir línu leiðtoga flokksins.
Nokkrir af ríkustu mönnum Kína hafa horfið í skemmri eða lengri tíma á undanförnum árum og í júní 2023 hvarf Qin Gang utanríkisráðherra og hefur ekki sést síðan.
Kínverska Dong Feng-26 eldflaugin getur hitt skotmörk í 5.000 kílómetra fjarlægð. Hægt er að vopna eldflaugina bæði hefðbundnum og kjarnaoddum.
Er Kína orðið að stórveldi?
Frá upplausn Sovétríkjanna 1991 hafa Bandaríkin verið eina stórveldi heimsins – með sterkar varnir og gífurlegan efnahagslegan styrk. En Kína gæti verið á leiðinni þangað eða nú þegar komið þangað, telja sumir sérfræðingar.
JÁ
Vöruskiptaafgangur Kína við önnur lönd hefur á síðustu áratugum veitt landinu efnahagslegan styrk sem fá lönd geta jafnast á við. Heildargjaldeyriseign Kína jafngildir meira en 420.000 milljörðum íslenskra króna. Gjaldeyriseign Bandaríkjanna er til samanburðar 35.000 milljarðar íslenskra króna.
JÁ
Tæknilega séð hefur Kína tekið risastökk. Frá því að vera „verkstæði heimsins“ á níunda áratugnum og framleiða aðallega ódýrar vörur hefur iðnaðurinn breyst og er nú framarlega í alls kyns hátækni, til dæmis framleiðslu rafbíla og háhraðalesta.
JÁ
Hið svokallaða „Silk Road Project“ gengur vel. Verkefnið miðar að því að koma á siglingaleiðum og verslunarleiðum á landi til alls heimsins. Að minnsta kosti 150 lönd eru nú þegar hluti af samstarfinu. Kína er líka að kaupa upp námur, járnbrautir og hafnir um allan heim – til að styrkja valdastöðu sína.
NEI
Frá 1979 til 2015 dró einsbarnsstefna Kína mjög úr fólksfjölgun – til hagsbóta fyrir efnahag landsins. En þessi 36 ár sköpuðu líka tifandi tímasprengju, því að öllum líkindum mun landið skorta vinnuafl í náinni framtíð.
NEI
Herstyrkur Kína og geimtækni landsins hefur þróast mikið á undanförnum árum. Þrátt fyrir þetta er landið enn á eftir Bandaríkjunum. Sérfræðingar telja Kína þriðja sterkasta herveldi heims – á eftir Bandaríkjunum og Rússlandi.
NEI
Ólýðræðislegt stjórnarfar gæti hamlað framtíðarþróun Kína. Sumir sérfræðingar telja að skortur á lýðræðislegum réttindum geti einnig drepið löngun og getu borgaranna til að hugsa nýja hluti.
En Xi er sannarlega ekki öruggur í sæti sínu. Vöxtur dregst saman, atvinnuleysi eykst og kreppa er á kínverskum húsnæðismarkaði. Á sama tíma fer margt ungt fólk beint úr erfiðu menntakerfi á atvinnuleysisskrá eða í illa launuð störf.
Margir innan og utan Kína spyrja því spurningarinnar: Getur efnahagssamdrátturinn ásamt brostnum væntingum unga fólksins leitt af sér nýja uppreisn á Torgi hins himneska friðar? Og hvernig munu Kína og Vesturlönd þá bregðast við?
Lestu meira um nútíma sögu Kína
- Jeffrey N. Wasserstrom: The Oxford History of Modern China, Oxford University Press, 2022