Flugferðir eru meðal þeirra þátta sem losa gríðarlega mikið af koltvísýringi. Það er því ekkert skrýtið þótt margt sé reynt til að þróa sjálfbærari leiðir til farþegaflutninga í lofti.
Fljótandi vetni hefur þótt lofa góðu í tilraunum sem gerðar voru með ómannaðar flugvélar. Nú hefur þýskt fyrirtæki tekið af skarið og sent flugmann í loftið við stýri flugvélar sem einvörðungu er knúin þessu eldsneyti.
Fyrirtækið að baki þessari tímamótaflugferð hefur aðsetur í Stuttgart og heitir H2FLY. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá því.
Fljótandi frekar en gas
Tilraunavélin sjálf fékk heitið HY4 og er búin háþróuðu brunasellukerfi sem nýtir fljótandi vetni.
Alls fór HY4 í fjögur tilraunaflug og eitt þeirra stóð yfir í meira en þrjár klukkustundir.
Fyrri tilraunavélar hafa yfirleitt notað vetnisgas en nú hefur H2FLY skipt gasinu út fyrir vetni í fljótandi formi.
Það er þó ekki alls kostar einfalt að geyma vetni í fljótandi formi því það krefst 253 stiga frosts.
Með því að skipta út vetni í gasformi yfir í fljótandi vetni tvöfaldaði H2FLY skilvirkni nýju HY4 flugvélarinnar. Tankurinn á myndinni er fylltur af vetni sem er kælt niður í -253°C, sem gerir það fljótandi.
Eldsneytisgeymir með fljótandi vetni er stórum mun léttari en gasgeymir og því eykst flugdrægnin til muna, auk þess sem burðargetan vex.
Með því að nota fljótandi vetni hefur fyrirtækinu tekist að tvöfalda flugþolið úr 750 km í 1.500 km.
Hjá H2FLY eru önnur verkefni þegar í gangi. Með þróun nýs H2F-brunasellukerfis er ætlunin að ná 8,2 km flughæð og nálgast þannig þá 12 km hæð sem venjulegar farþegaþotur nýta nú.