Menning og saga

Við erum sköpuð til að trúa

Allar götur frá því er fyrstu menningarsamfélögin litu dagsins ljós hafa trúarbrögð verið hluti af lífi manna og þetta hefur vakið furðu þróunarlíffræðinga. Hvernig er unnt að útskýra hvers vegna trúað fólk kýs að verja svo miklum tíma og mikilli orku, auk fjármuna, í starfsemi sem ekki virðist hafa neinn líffræðilegan ávinning í för með sér? Rannsóknir undanfarinna ára hafa leitt af sér eitt hugsanlegt svar.

BIRT: 14/01/2024

Þeir sitja í kyrrð og ró og biðja í daufri lýsingunni í kirkjunni. Ef við virðum fyrir okkur umhverfið er engu líkara en að háar steinsúlurnar, litríkar mósaíkmyndirnar og gylltir róðukrossarnir gefi til kynna guðdómlega nærveru.

 

Annars staðar í heiminum eru það gullin hof og moskur sem ramma tilbeiðsluna inn á stórbrotinn hátt og engin þörf er fyrir að ferðast til Rómar né Mekka til að vera umvafinn trú.

 

Allar götur frá því að fyrstu menningarheimarnir litu dagsins ljós hafa trúarbrögð verið stór þáttur af lífi fólks og ekki er til einn einasti menningarheimur sem ekki á sér einhvers konar trúarbrögð.
Þessi staðreynd hefur löngum vakið furðu þróunarlíffræðinga.

 

Hvernig er unnt að útskýra að trúandi fólk velji að fórna tíma, verðmætum og jafnvel, í undantekningartilvikum, sjálfum sér fyrir guð sem enginn nokkru sinni hefur fengið staðfestingu á að sé til í raun og veru?


Þegar við leiðum hugann að þeim fórnum sem fylgja trúarlegri iðkun er í fljótu bragði ekki unnt að koma auga á neinn líffræðilegan ávinning sem útskýrt gæti hvers vegna trúarbrögð verða til og því síður hvers vegna þau eru svo varanleg og ekki fyrir löngu horfin.
Praying in the church

Þróunarlíffræðingar fá aðstoð

Nú eru 162 ár liðin síðan Darwin setti fram þróunarkenningu sína sem hafði gífurlega mikið forspárgildi.


Þróunarkenningin hefur fyrir löngu slegið því föstu að við mennirnir erum lífverur í líkingu við önnur dýr. Það hlýtur og verður að vera líffræðileg skýring á atferli okkar.


Hvernig væri annars unnt að útskýra að kaþólskir prestar og nunnur af fúsum og frjálsum vilja skuli velja að lifa án þess verðmætasta sem fyrirfinnst í heimi líffræðinnar, þ.a. getunnar til að fjölga sér?


Samfélag af nunnum og munkum ætti að vera dæmt til að deyja drottni sínum en gerir það þó ekki, einhverra hluta vegna. Til er urmull af dæmum um trúarlegt atferli sem út frá líffræðilegu og þróunarfræðilegu sjónarmiði ætti að teljast skaðlegt fyrir einstaklinginn.
Gegnum tíðina hafa margir kappkostað við að útskýra hvers vegna trú eiginlega sé til.


Er hlutverk hennar að útskýra það óútskýranlega, á borð við alheiminn?
Eða er henni ætlað að koma ró á hópinn og gefa til kynna hvaða leið skuli halda, eins og t.d. „Við skulum fara þessa leið“ eða „Við skulum halda í stríð“.


Trúarbrögð geta enn fremur dregið úr hræðslu okkar við dauðann og gert það að verkum að við sofnum róleg á kvöldin eða þá losað okkur við óttann sem fylgir því að taka þátt í stríði.


Á undanförnum tíu árum hefur hópur vísindamanna úr jafn ólíkum starfsgreinum og taugasálfræði, félagsfræði og mannfræði, komið þróunarlíffræðingum til aðstoðar með ýmsum áþreifanlegum athugasemdum.


Nýjustu rannsóknarniðurstöðurnar veita svör við spurningunum um hvers vegna trúarlegir siðir og helgireglur borgi sig í líffræðilegum skilningi.
Rannsóknirnar gefa til kynna að trúarbrögð séu eins konar samfélagslegt lím sem haldi samfélaginu saman og myndi úr því eina félagslega heild. Segja má að trúarbrögð komi fastri skipan á góða hegðun.

 

En það sem enn meira máli skiptir er að trúarbrögð mynda rammann um eins konar merkjakerfi sem geri öllum kleift að sjá hverjum er treystandi og hverjum ekki.
Saint Peters Basilica - Vatican - Rome, Italy

Dýrir helgisiðir reynast best

Í ljós hefur komið að mjög mikilvægt er að helgisiðirnir hafi í för með sér sem mestan kostnað fyrir trúfélagann.
Því ef það kostar svo að segja ekkert að sýna að manni sé treystandi, þá kostar heldur ekkert að svíkja.


Ef það hins vegar kostar mikið að sýna að við séum sama sinnis, þá borgar sig ekki lengur að svíkja.


Trúarlegar venjur sía því frá sníkjudýrin, afæturnar og þá sem notfæra sér aðra.
Kannanir hafa leitt í ljós að flestir álíta að trúað fólk sé trúverðugra og samstarfsfúsara en gengur og gerist og siðvandir guðir, sem fyrirfinnast í íslamstrú, gyðingatrú og kristinni trú, eru sérleg trygging fyrir því að þeir trúuðu hegði sér vel.


Þróunarsálfræðingarnir Ara Norenzayan og Azim F. Shariff við British Columbia háskólann í Kanada eru þeirrar skoðunar að hugmyndin um guð sem fylgist með okkur hafi sömu áhrif á trúað fólk og hugmyndin um að mennskt fólk fylgist með okkur hefur á bæði þá sem trúa og þá sem ekki gera það.


Andstætt við það sem gerist með mennsk vitni hafa yfirnáttúrulegir verðir þó þann ótvíræða kost að trúendur vita að fylgst er með þeim (og að þeim verður refsað eða launað), jafnvel þótt engin jarðnesk vitni séu.


Richard Sosis við Connecticut háskóla hefur rannsakað nútímaleg sambýli, þ.e. samyrkjubú í Ísrael, og komist að raun um að trúrækni tengist meiri samhygð og nánara samstarfi.


Samyrkjubúin eru fastmótuð sambýli með næstum nákvæmlega sömu félagslegu uppbygginguna og sama efnahagsrammann, óháð því hvort þau byggja á trúarlegum grunni eður ei.


Sosis bað tvo meðlimi sama samyrkjubús um að taka þátt í hugvitssamlegum leik sem var gerður með það fyrir augum að sannreyna samstarfsviljann og samhygðina.
Án þess að hafa hugmynd um hver hinn þátttakandinn væri var báðum sagt að þeir hefðu aðgang að sama umslagi sem hefði að geyma peninga (100 shekel) og þeir áttu að velja hversu mikið fé þeir tækju, án þess að þeir vissu hve mikið hinn tók.


Ef báðar upphæðirnar samanlagt færu umfram 100 shekel fengi hvorugur neina peninga og spilinu væri lokið. Ef samanlögð upphæð beggja yrði lægri en sem nemur 100 shekel fengju báðir að halda upphæð sinni og 50% yrði bætt við afgangsupphæðina sem þeir tveir skiptu með sér.

 

Þetta gerir það að verkum að þeim mun meiri hemil sem þátttakendur hafa á sér, því hærri verður potturinn sem er til skiptanna. Vandamálið er bara að engin leið er að vita hvort hinn vinnur með manni eða svindlar.


Í ljós kom að meðlimir trúarlegu samyrkjubúanna tóku umtalsvert minna fyrir sjálfa sig úr umslögunum en þeir sem bjuggu á samyrkjubúum sem ekki byggðu á trúarlegum grunni.


Þá var enn fremur munur á körlum og konum í trúarlegu samyrkjubúunum. Það sem áhuga vekur er trúarleg athöfn sem einungis karlar leggja stund á:


Þrisvar á dag eiga karlar að taka þátt í sameiginlegri bæn í guðshúsinu og samanlagt taka þeir því þátt í bænahaldi í 1,5 til 2 klukkustundir á dag.


Í tilrauninni tóku þeir karlmenn sem mættu samviskusamlega í guðshúsið umtalsvert lægri upphæð en bæði konurnar og vantrúuðu karlarnir.


Hins vegar reyndist ekki vera marktækur munur á því hve mikið karlar sem ekki fóru í guðshús daglega tóku, annars vegar, og konurnar, hins vegar.


Tilraunin leiddi með öðrum orðum í ljós að trúarleg iðkun, sem felur í sér tímafrekt bænahald þrisvar á dag, getur stuðlað að auknu samstarfi og aukinni samhygð og því hugsanlega aukið stöðugleika trúarhópanna þeirra til lengri tíma litið og stuðlað að því að þeir leysist ekki upp.
Medieval monk praying to the holy god, religion

Reglur sía frá afæturnar

Önnur rannsókn sem gerð var á trúarsamfélögum í Bandaríkjunum á 19. öld leiddi í ljós að helgiathafnirnar sjálfar stuðluðu að því að samfélögin lifðu af.


Í þessari rannsókn báru Richard Sosis og starfsbræður hans saman hve lengi nýir hópar trúaðra og ekki trúaðra entust og komust að raun um að trúfélögin entust lengur en hinir hóparnir.


Þá kom einnig í ljós að trúfélög höfðu yfir að ráða helmingi fleiri reglum (t.d. um bindindi og föstu) en þau félög sem ekki voru grundvölluð á trú og að líkurnar á að félagið leystist ekki upp væru í samræmi við fjölda reglna.


Hvernig getur á þessu staðið?


Helsta vandamálið í samfélagi sem byggir á trausti er fólgið í afætum og sníkjudýrum sem ógnað geta hópnum verulega.


Reglur og fyrirmæli, sem fela í sér að kosta þurfi miklu til, geta verið leið til að sía frá, þannig að þeir sem ekkert leggja af mörkum, en þiggja sífellt, verði látnir víkja.

 

Þá skapa reglur og trúarsiðir að sama skapi traust með því að sýna öðrum að allir fylgja sama hegðunarmynstri.


Þetta snýst í grundvallaratriðum um að skynja hvort gerðir okkar eru sannar og fela eitthvað raunverulegt í sér, en þessari spurningu er einmitt vandsvarað með hliðsjón af líffræði.


Ef við virðum fyrir okkur dýr í líkingu við stökkhjört má sjá að dýrin stökkva hátt í loft upp án nokkurrar sýnilegrar ástæðu.

 

Þrátt fyrir að stökkið virðist býsna tilgangslaust, þá hefur það engu að síður tilgang.


Stökkhjörturinn er nefnilega með þessu að gefa hugsanlegum rándýrum til kynna að hann hafi yfir að ráða gegndarlausri orku og að rándýr myndu eiga í mesta basli með að hlaupa hann uppi.

 

Stökk hjartarins er því einfaldlega til þess gert að segja: „Finndu þér aðra bráð“.

 

Þessi tegund af atferli gæti mæta vel hafa verið þróuð með því sem Darwin nefndi náttúruval, án þess þó að stökkhjörturinn hafi hugmynd um hvers vegna hann stekkur, svo fremi til staðar sé rándýr sem skilur skilaboðin.


Í rauninni er mikilvægt fyrir sannleiksgildi skilaboðanna að hjörturinn sjálfur skilji hvaða áhrif stökkið hefur. Rándýrið verður að vera visst um að hjörturinn sé að „segja sannleikann“ og hvað er trúverðugara í hörðum heimi með takmörkuðum auðlindum en ýkt og gjörsamlega gagnslaus orkueyðsla?


Með öðrum orðum: Því meira sem varið er í atferli, þeim mun trúverðugra verður það, og þetta á einnig við um trúarlega helgisiði og fyrirmæli.


Líkt og með stökkhjörtinn skiptir það öllu máli fyrir sannleiksgildi skilaboðanna að við séum okkur ekki meðvituð um áhrifin af trausti annarra og samstarfsvilja þeirra og að atferlið „stafi frá hjartanu“.


Það að trúarlegar reglur og fyrirmæli séu verðmæt er í samræmi við samanburð þvert á menningarsvæði og trúarbrögð sem leitt hefur í ljós að stórir hópar hafa tilhneigingu til að trúa á predikandi guð sem tekur þátt í siðvöndu atferli fólks.


Þetta leiðir hugann að ákveðnu forsögulegu tímabili fyrir á að giska 11.000 árum, þegar fyrstu veiðimennirnir og safnararnir fóru að stunda akuryrkju og að eiga fasta búsetu á tilteknum stað.


Með þessari breytingu átti sér jafnframt stað breyting hvað stærð hópanna áhrærði og fyrstu stóru bæirnir, á borð við Catal Hüyük í Tyrklandi, urðu að veruleika.


Í þessum fyrstu bæjum gátu trúarbrögðin skipt sköpum fyrir samheldni íbúanna. Fólk þurfti nú að fara að taka afstöðu til algerlega ókunnugs fólks í stað þess að þekkja alla persónulega og að vera skyldir flestum.

 

Þetta átti ekki hvað síst við um markaðstorgið, þar sem fólk keypti varning, en þar reyndi nú á traust til annarra og upp kom þörf fyrir aðferðir sem nýttust til að koma upp um þá sem hefðu í huga að gabba aðra.


Flestir fræðimenn eru sammála um að á þessu stigi hafi trúarbrögð breyst úr því að vera frumstæð alþýðutrú yfir í skipulögð trúarbrögð með reglum og helgisiðum.
Woman Standing Church Religion Concept

Trúarbrögð henta heilum okkar

Hvers vegna erum við viljug til að trúa og leggja stund á trúarlega iðkun?


Taugasálfræðingar hafa á undanförnum árum vakið athygli á að maðurinn hefur yfir að ráða sálrænu kerfi sem geri okkur móttækileg fyrir yfirnáttúrulegum fyrirbærum og æðri mætti.


Jesse Bering við Queens háskólann í Belfast hefur sýnt fram á að „draugur“ geti komið því til leiðar að námsmenn svindli síður á prófum.


Bering bað námsmenn um að fara yfir prófverkefni fyrir sig og sá hluti námsmannanna sem sagt var í framhjáhlaupi að nýlátinn maður hefði birst eftir andlátið í sama herbergi var marktækt heiðarlegri en hinir.


Þó svo að námsmennirnir væru hvorki trúaðir, né tryðu á yfirnáttúruleg fyrirbæri, gaf atferli þeirra engu að síður til kynna að þeir tryðu á draugasögur og að eitthvað okkur „æðra“ gæti séð og dæmt hegðun þeirra, líkt og um væri að ræða mann sem horfði yfir öxlina á þeim.


Í annarri rannsókn kannaði Bering hvenær börn byrjuðu að trúa á yfirnáttúruleg fyrirbæri. Hann sagði þeim frá ósýnilegum anda sem hann kallaði „Alice prinsessu“.


Börnunum sem þátt tóku í tilrauninni var sagt að þau mættu ekki opna tiltekna öskju og eftir að fullorðna fólkið hafði yfirgefið herbergið voru marktækt færri börn sem opnuðu öskjuna ef þau höfðu heyrt söguna um Alice.


Að þessu loknu tókst Jesse Bering að sýna fram á að börnin túlka atburði sem tákn frá yfirnáttúrulegum verum (Alice prinsessu) frá u.þ.b. sjö ára aldri. Fræðimennirnir gerðu börnunum skiljanlegt að Alice prinsessa gæti aðstoðað þau við að velja rétta öskju af tveimur mögulegum.


Þegar börnin teygðu sig í aðra öskjuna gerðist eitthvað óvænt, til dæmis datt mynd niður af veggnum. Litlu börnin álitu að myndin hefði einfaldlega dottið af því að hún var ekki fest nægilega vel en ríflega 80% eldri barnanna álitu „að Alice væri að segja þeim að opna hina öskjuna“.

 

Human brain

Heilinn sér tákn alls staðar

Hvernig getur þá getan til að túlka hlutina fæðst?


Vísindamenn telja að getan til að sjá tákn og tilgang í öllu eigi rætur að rekja til þess er við öðluðumst vitrænan skilning til að lifa í félagslegum hópum.


Maðurinn nýtur sérstöðu meðal dýranna því við höfum yfir að ráða meðvitund sem gerir okkur kleift að nema og vinna úr upplýsingum úr náttúrunni og, ekki hvað síst, úr félagslegu umhverfi okkar.


Árið 1976 stundaði Nicholas Humphrey, sálfræðingur, rannsóknir á villtum simpönsum í Afríku og benti á að lífið í félagslegum hópi krefðist meiri heilaorku en flóknustu tæknileg verkefni.


Þetta hefur síðar fengist staðfest og nú á dögum telst vitræn ögrun, á borð við það að setja upp tengslanet og að beita kænskubrögðum, vera mjög mikilvægur drifkraftur fyrir vitræna þróun okkar.


Vitræn kerfi mannsheilans hafa verið rannsökuð til hlítar á undanförnum áratug og rannsóknir Pascal Boyer sálfræðings við Washington háskóla gefa sterka vísbendingu um að það sé uppbygging heilans sem geri okkur kleift að leggja stund á trúarbrögð.


Ekki svo að skilja að hann telji okkur búa yfir guðastöð í heila heldur hefur komið í ljós að heilastarfsemi tengd trú á sér stað víðs vegar í heilanum, á stöðum sem einnig eru virkjaðar til annarra hluta.


Boyer er þeirrar skoðunar að til séu mörg vitræn kerfi í heilum okkar sem geri okkur fær um að trúa.

 

Á svipaðan hátt og við erum fær um að hafa gaman af tónlist, taka þátt í stjórnmálastarfi og tengjast fjölskylduböndum.


Í þessu sambandi er fróðlegt að vita að rannsóknir hafa leitt í ljós að heilinn getur leikið á okkur og látið okkur gera hluti sem samræmast ekki trú okkar.


Jafnvel þó að við e.t.v. trúum á almáttugan Guð, sem sér allt og heyrir, þá setjumst við engu að síður niður, spennum greipar og förum með bæn til Guðs, sem jafnvel er fólgin í því að gera samkomulag við hann:

 

„Ef þú gerir svona, þá lofa ég að gera svona“, líkt og um mennska veru væri að ræða.


Meðvitaður skilningur okkar á Guði er algerlega á skjön við þann skilning sem við ekki látum í ljós.


Áhuga vekur að trúað fólk gerir nákvæmlega það sama óháð menningarheimum og þrátt fyrir ólík trúarbrögð eru hugmyndir fólks um guð mjög áþekkar í hinum ólíku menningarsamfélögum.


Það sem einnig er mikilvægt hvað mannsheilann varðar, og sem speglar sig í trúarbragðasögunni, er að við munum sögur afar vel ef eitthvað gerist í þeim sem samræmist ekki raunveruleikanum.


Með þessu er t.d. átt við að einhver gangi á vatni, sé ósýnilegur, gangi gegnum veggi o.þ.h.

 

Heilar okkar eru nánast stilltir með það fyrir augum að nema hluti sem eru öðruvísi en þeir ættu að vera, hvort heldur sem eru furðulegir atburðir eða frásagnir.
Religious cards for sale

Þróunin mótar trúarbrögð

Boyer segir að skoða megi þær sögur sem fyrirfinnast í trúarbrögðum í dag sem þær síðustu í langvarandi þróun grípandi frásagna sem við beitum eins konar náttúruvali við að leyfa að hafa áhrif á minni okkar.


Hann segir jafnframt að árátta okkar mannanna til að finna tilgang með hlutunum geti skýrt hvers vegna guðir og andar með mannlega drætti séu svo algengir í hinum ýmsu trúarbrögðum og menningarsamfélögum.


Hægt er að líta á menningu sem menningarlega hugmynd sem fæðist eðlilega og flyst áfram frá einni meðvitund til annarrar.


Hvað hópvitund varðar, hafa þróunarheimspekingar á borð við Daniel Dennett, við Tuft háskóla í Massachusetts, bent á að hugmyndirnar hafi þróast og lagað sig að heilakerfum okkar og að þær sem náð hafi að festa sig hvað best hafi öðlast mestu útbreiðsluna.


Hugsum okkur til dæmis hugmyndina um eilíft líf.
Það hlýtur einmitt að vera besta hugsanlega umbunin og hugmyndin gerir það í raun ógerlegt, á mjög hugvitssamlegan máta, að efast um tilvist Guðs.


Andstætt við önnur trúarbrögð, þar sem t.d. fórnargjafir til að tryggja betri uppskeru eða heilbrigða fæðingu hafa falið í sér hættu á að þeir trúuðu gengjust á hönd öðrum og gjafmildari guði, þá er vonin um eilíft líf trúarbrögðunum til mikils framdráttar.


Trúarbrögð eru álitin vera eitt sterkasta aflið sem mótar mannkynið, ekki hvað síst á okkar dögum þegar trúarbragðastyrjaldir um gjörvallan heim setja svip sinn á líf okkar.

 

Ef nýjustu rannsóknir geta fært okkur aukna vitneskju um þá eðlisþætti sem eru að baki trúnni, mætti að sama skapi binda vonir við að við fáum betur skilið þau gífurlegu öfl sem ráða för.

HÖFUNDUR: Rasmus Kragh Jakobsen

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

Hér eru aðeins leyfð kvendýr og afkvæmi þeirra: Kvennasambýli hafsins

Náttúran

Hvernig myndast haglél?

Maðurinn

Hvað er stífkrampi?

Alheimurinn

Af hverju eru plánetur og sólir alltaf kúlulaga?

Lifandi Saga

„Pólskir riddarar réðust á þýska skriðdreka“

Náttúran

Finna skordýr sársauka?

Maðurinn

Heilaþvottur á að losa þig við versta óttann

Maðurinn

Sannleikurinn um heilabilun

Maðurinn

3 tilgátur: Þess vegna grátum við

Alheimurinn

Af hverju er geimurinn svartur?

Náttúran

Líf við ómögulegar aðstæður undir ís

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is