202,9 km/klst. Það er nýja hraðametið í flokki vindknúinna farartækja á landi. Methafinn heitir „The Greenbird“. Farartækið var hannað í Bretlandi en metið sett á botni hins uppþornaða Ivanpah-vatns í Bandaríkjunum. Eldra metið átti Bandaríkjamaðurinn Bob Schumacher en það var nú bætt um 16,3 km/klst.
Maðurinn á bak við The Greenbird heitir Richard Jenkins. Farartækið er nánast einvörðungu gert úr koltrefjum og vegur aðeins 600 kg og nær fimmföldum vindhraða með sérstaklega hönnuðum seglum þar sem hugmyndir eru sóttar til flugvéla og bíla í Formúlu I.
Seglið minnir helst á lóðréttan væng flugvélar og er á sama hátt gert til að nýta vindinn til að knýja farartækið áfram. Vængirnir lyfta flugvélinni bæði upp og fram á við en seglið á The Greenbird nýtir vindinn aðeins til láréttrar hreyfingar.
Seglið nýtir bæði hinn raunverulega vind og þann hraðavind sem farartækið skapar sjálft. Gallinn við segl, hvort heldur það er notað á sjó eða landi og hvort heldur það er úr segldúk eða koltrefjum, er sá að þegar vindurinn knýr farartækið áfram, myndast hraðavindur sem vinnur á móti. Því meiri sem hraðinn verður, því meiri verður þessi mótvindur.
Hraðavindurinn vinnur í öfuga átt og um leið virðist hinn raunverulegi vindur blása mildar en hann gerir í raun og veru. En þegar seglinu er snúið þannig að það myndar nákvæmlega rétt horn við vindáttina, nýtist hraðavindurinn til að ná meiri hraða en sem nemur vindhraðanum.
Hönnuðirnir hafa þurft að leggja talsvert að sér til að ná að nýta þennan hraðavind og m.a. þurft að fínstilla bæði hjólaöxla og þrýsting í dekkjum af ýtrustu nákvæmni.
Næst hyggst Jenkins slá hraðametið á ís. Tilraunin verður gerð í vetur og þá notuð systurútgáfa af The Greenbird.