Nokkrar af stærstu borgum heims eru staðsettar á frekar óheppilegum stöðum, svo ekki sé meira sagt. Milljónaborgir eru staðsettar ofan á misgengi í jarðskorpunni þar sem hreyfingar meginlandsflekanna munu einhvern tíma leiða til harðra jarðskjálfta.
Sumar borgirnar hafa gripið til varúðarráðstafana, reist jarðskjálftaþolin háhýsi og þróað skilvirk viðvörunarkerfi, en hinar borgirnar gætu alveg þurrkast út þegar næsti stóri skjálftinn verður.
LOS ANGELES
Misgengi gæti eytt Hollywood
Jarðskjálftar í Kaliforníu stafa af hreyfingum á mótum tveggja jarðskorpufleka. Misgengi eru mörg á svæðinu og skorpuflekarnir ýta hvor á annan. Þekktast er San Andreas-misgengið.
Meðal milljónaborga í hættu er Los Angeles og þar varð öflugur skjálfti 1994. Sá skjálfti átti ekki upptök í San Andreas-misgenginu en þar verða líklegast upptök næsta hamfaraskjálfta.
Viðvörun og öryggi: 80%
MEXÍKÓBORG
Íbúar fá einnar mínútu fyrirvara
Mexíkóborg stendur á mexíkóska eldstöðvabeltinu og þar hafa orðið stórir skjálftar, síðast 1985 þegar tíu þúsund fórust og heilir borgarhlutar jöfnuðust við jörðu.
Borgin var meðal þeirra fyrstu þar sem viðvörunarkerfi voru sett upp. Nú er talið að íbúar fái allt að einnar mínútu fyrirvara áður en skjálftinn ríður yfir.
Viðvörun og öryggi: 70%
LIMA
Öflugir skjálftar á 10 ára fresti
Perú er að stórum hluta í Andesfjöllum, yngsta fjallgarðs í heimi sem er til orðinn vegna þrýstings frá Kyrrahafsflekanum sem þarna sígur undir Suður-Ameríkuflekann. Þarna er mikil jarðskorpuvirkni og hætta á stórum skjálftum.
Í höfuðborginni Lima verða skjálftar upp á meira en 7 stig á um 10 ára fresti, síðast 2007. Samkvæmt áhættumati er Lima sú borg á hnettinum þar sem hætta er á mestu fjárhagstjóni.
Viðvörun og öryggi: 10%
ISTANBUL
Borgin sem gæti hrunið til grunna
Að meginhluta stendur Tyrkland við tvö misgengi þar sem skorpuflekar mætast. Aðeins eru um 20 km frá Istanbúl að mörkum Evrasíuflekans.
Skjálfti sem átti upptök sín 70 km frá Istanbúl kostaði 17.000 mannslíf árið 1999. Þrátt fyrir þá viðvörun telja sérfræðingar að þriðjungur húsa í borginni sé svo ótraustur að þessi hús ætti að rífa þegar í stað.
Viðvörun og öryggi: 20%
KAÍRÓ
Egyptaland illa undirbúið
Kaíró er staðsett nálægt skilum Afríku- og Arabíuflekanna, en þar er ekki talin verið mikil hætta á mjög hörðum jarðskjálftum. Hins vegar geta smærri skjálftar gert mikinn óskunda eins og t.d. árið 1992 þegar minniháttar jarðskjálfti af stærðinni 5,8 varð í höfuðborg Egyptalands.
Skjálftin var ekki stór en þó létust 561 manns, 10.000 slösuðust og 3.000 fjölskyldur misstu heimili sín. Þrátt fyrir þetta hafa yfirvöld þó ekki aðhafst mikið. Árið 2017 líktu fjórir vísindamenn eftir afleiðingum annars svipaðs jarðskjálfta og áætluðu að tvöfalt til þrefalt fleiri myndu látast.
Viðvörun og öryggi: 10 prósent.
MANILA
Hamfaraskjálfti er nú yfirvofandi
Filippseyjar eru ofarlega á listanum yfir mikla flekavirkni. Jarðskjálftar upp á meira en 7 stig verða á fárra ára fresti en Manila hefur sloppið fram að þessu.
Sérfræðingar telja þó að hamfaraskjálfta sé að vænta í West Valley-misgenginu. Þar hefur verið að byggjast upp spenna síðan á 17. öld og þar verða stórir skjálftar á um 400 ára fresti.
Viðvörun og öryggi: 30%
Tókýó
Höfuðborg Japans er vel undirbúin
Skammt frá Tókýó sígur Kyrrahafsflekinn niður í möttul jarðar.
Þarna hafa orðið hamfaraskjálftar á borð við Kanto-skjálftann 1923. Sá mældist 7,9 og olli fimm metra lóðréttri hækkun. Eldar í kjölfar skjálftans eyddu um helmingi húsa í borginni og alls fórust um 143.000 manns.
En vegna skjálftaþolinna bygginga og aðvörunarkerfa er Tókýó nú ein best undirbúna borg heims.