Fæstra listmálara bíða þau örlög að verða frægir og viðurkenndir listamenn. Þeir sem ganga með listamannsdrauma og hafa enn ekki slegið í gegn, skyldu þó alls ekki örvænta.
Margir af fremstu listmálurum sögunnar nutu ekki sérlegra vinsælda í lifanda lífi og sumir þeirra voru jafnvel fyrirlitnir. Slæm útreiðin stafaði iðulega af því að sömu listamenn ögruðu viðurkenndum gildum samtímans.
Ef einhvern dreymir um að hljóta viðurkenningu fyrir verk sín, jafnvel löngu eftir sína daga, væri þeim hinum sama ráðlegt að þiggja eftirtalin ráð: Fetið ykkar eigin stigu og kærið ykkur kollótt um álit gagnrýnenda. Hver veit nema einhver ykkar eigi eftir að verða hinn næsti van Gogh!
Og láti innblásturinn standa á sér þá gefur hér að líta söguna á bak við þau málverk sem selst hafa fyrir hærra verð en nokkur önnur listaverk.
170,4 milljónir dollara
„Nu couché“ (Liggjandi nakin), var seld árið 2015: Á árunum milli 1916 og 1919 málaði ítalski listmálarinn Amedeo Modigliani röð nektarmynda sem í dag eru talin hans bestu verk.
Berar konur í háum verðflokki
Amedeo Modigliani var nemi við listaskóla í Livorno. Eftirlætismyndefni hans voru naktir kvenlíkamar og hann gerði tilraun til að forfæra þjónustustúlku skólans.
Málverk Modiglianis eru afar eftirsótt í dag en vinsældirnar létu þó ekki á sér kræla fyrr en eftir hans dag. Hann lést af völdum heilahimnubólgu árið 1920, aðeins 35 ára að aldri.
179,4 milljónir dollara
„Les Femmes d’Alger“ (Konurnar í Algeirsborg) var seld árið 2015: Picasso málaði röð málverka af konum frá Algeirsborg í Norður-Afríku á árunum 1954-1955 undir áhrifum málverks eftir Delacroix (1798-1863).
Kynnti til sögunnar svívirðilega stíltegund
Pablo Picasso var einn frumkvöðlanna að baki kúbísma 20. aldarinnar, þar sem myndefnið er brotið niður og byggt upp á nýjan leik í afstrakt lögun með breytilegu sjónarhorni.
Helsti keppinautur Picassos, Henri Matisse, kom fyrstur fram með heiti stíltegundarinnar þegar hann hrópaði upp yfir sig: „Trop de cubes!“ (Of margir kassar, teningar).
183,8 milljónir dollara
„Wasserschlangen II“ (Vatnsslöngur II) var seld árið 2013: Myndefni málverksins eru fjórar gyðjur en sérfræðingar á sviði listaverka segja hinar goðfræðilegu verur sýna lesbískt kynlíf, umdeilt myndefni á dögum Klimts.
Nasistar lögðu hald á gyðjur
Gustav Klimt seldi hinni austurrísku Jenny Steiger málverkið árið 1907 en Jenny þessi var af gyðingaættum. Skömmu áður en síðari heimsstyrjöld braust út þurfti konan að flýja til Portúgals og nasistar lögðu hald á málverkið.
Málverkið var álitið hafa glatast allt þar til það reyndist vera til sölu árið 2012. Erfingjum Jennýjar var greiddur helmingur söluverðsins.
186 milljónir dollara
„Nr. 6 (Fjólublátt, grænt og rautt)“ var selt árið 2014: Hinn lettnesk-bandaríski Mark Rothko (1903-1970) er þekktur fyrir mislita ferhyrninga sína.
Listaverkasali svindlar á rússneskum auðmanni
Málverk Marks Rothkos átti þátt í hneykslismáli árið 2014. Það ár keypti svissneski listaverkasalinn Yves Bouvier málverkið á 80 milljón evrur fyrir hönd rússneska auðjöfursins Dmitrij Rybolovlev.
Bouvier sagði Rússanum hins vegar ósatt um kaupverðið og lét Rybolovlev greiða sér 140 milljón evrur (186 milljónir Bandaríkjadala) fyrir verkið.
195 milljónir dollara
„Shot Sage Blue Marilyn“ var selt árið 2022: Silkiþrykk Warhols af Marilyn Monroe byggir á fréttaljósmynd sem tekin var í tengslum við kvikmyndina „Niagara“ frá árinu 1953.
Marilyn Monroe var skotin
Andy Warhol var að gera tilraunir með silkiþrykk þegar hann frétti af andláti Marilyn Monroe árið 1962. Sorgarfréttin af dauða hennar varð honum hvatning til að gera silkiþrykk eftir ljósmynd af stjörnunni látnu.
Gjörningalistakonan Dorothy Podber kom skömmu síðar í vinnustofu Warhols og skaut skotum úr skammbyssu gegnum fjórar myndanna.
198 milljónir dollara
„De Vaandeldrager“ (Fánaberinn) var selt árið 2022: Hollenska ríkið og ríkissafnið í Amsterdam keyptu málverkið í sameiningu. Það hafði verið í eigu Rothschild-fjölskyldunnar frá árinu 1844.
Mikill meistari þolir engan samanburð
Rembrandt var mikill meistari og á 17. öld rak hann eigin vinnustofu þar sem hann kenndi hæfileikaríkum ungum málurum listina.
Viðurkenning á list Rembrandts sést hugsanlega allra best í ummælum franska listamannsins Augustes Rodins (1840-1917): „Við ættum að leggjast að fótum Rembrandts og líkja aldrei nokkrum við hann!“
200 milljónir dollara
„Númer 17A“ var selt árið 2015: Pollock lauk við þetta olíumálverk árið 1948 en myndin er máluð á spónaplötu.
Ölvunarakstur með lífið að veði
Jackson Pollock er þekktur fyrir málverk sem ekki fela í sér nein hlutbundin atriði en málverkin urðu til á þann hátt að hann kastaði, úðaði og dýfði málningu á m.a. spónaplötur.
Í einkalífinu háði Pollock baráttu við Bakkus og hinn 11. ágúst árið 1956 missti hann vald á Oldsmobile-bifreið sinni og lést.
Hver málaði fyrsta abstrakt málverkið?
Hefðbundin portrett- og landslagsmálverk komu hvergi nærri þegar rússneskur listmálari hóf um árið 1900 að mála myndir sem sýndu að list þarf ekki að fyrirstilla eitthvað sem við erum kunnug.
210 milljónir dollara
„Nafea Faa Ipoipo?“ (Hvenær átt þú að giftast?) var selt árið 2014: Gauguin kvæntist 13 ára gamalli innfæddri stúlku í fyrstu ferð sinni til Tahíti (1891-1893).
Hinir tignu villimenn eru á braut
Paul Gauguin lét sig dreyma um að mála frumstætt fólk og í því skyni ferðaðist hann til Tahíti árið 1891. Þar komst hann svo að raun um að nýlenduvæðingin hefði eyðilagt upprunalega menningu eyjarinnar.
Vonbrigðin komu þó ekki í veg fyrir að Gauguin tækist að mála myndir af hinum innfæddu með framandlegu ívafi sem hann svo seldi heima í París.
250 milljónir dollara
Málverkið „Les Joueurs de cartes“ (Spilamennirnir) var selt árið 2011: Þegar Cézanne sótti um inngöngu í ríkisrekna franska listaháskólann í París, École des beaux-arts, skömmu eftir árið 1850, var honum hafnað.
Gagnrýnendur sýndu enga náð
Paul Cézanne hafði löngun til að þróa áfram impressjóníska list þess tíma. „Ég hef í hyggju að breyta impressjónisma í eitthvað áþreifanlegt og varanlegt, líkt og list á söfnum“, sagði hann.
Listgagnrýnendur þess tíma álitu stíltegund hans sem í dag er þekkt undir heitinu síðimpressjónismi, vera hlægilega en í dag er Cézanne viðurkenndur sem einn fremsti listmálari 19. aldarinnar.
300 milljónir dollara
„Interchange“ var selt árið 2015: Ungur að árum hafði de Kooning lært að mála í listaháskólanum í Rotterdam.
Hollenskur húsamálari málar afstrakt
Willem de Kooning komst sem laumufarþegi í bresku flutningaskipi frá Hollandi til Bandaríkjanna árið 1926.
Hann starfaði fyrst í stað sem húsamálari í Hoboken í New Jersey en brátt hafði hann efni á að leigja litla vinnustofu á Manhattan. Hann þróaði stíltegund í anda afstraktstefnunnar á árunum milli 1950 og 1960 sem sýndi engin greinileg myndefni.
450,3 milljónir dollara
Málverkið „Salvator Mundi“ (Frelsari heimsins) var selt árið 2017: Til eru um 30 útgáfur myndarinnar í heiminum öllum sem unnin eru af nemendum Leonardós da Vinci.
Sérfræðingar efast um upprunann
Leonardó da Vinci var einn af þekktustu listamönnum og uppfinningamönnum gjörvallrar mannkynssögunnar. Málverk þetta var illa farið þegar það seldist á uppboði árið 2005.
Eftir umfangsmikla viðgerð staðfesti forvörðurinn, Dianne Modestini prófessor, að verkið væri sannarlega eftir Leonardó sjálfan. Aðrir sérfræðingar eru henni ósammála og álíta gæði málverksins vera of lök til að myndin gæti hafa verið máluð af Leonardó.
Sérfræðingar á sviði myndlistar skiptast enn í tvo hópa hvað ágreining þennan snertir.