Við fyrstu sýn lítur hún út eins og gamall trébútur.
En í raun og veru segir hún sögu um langt og erfitt ferðalag sem farið var um Norður-Ameríku fyrir um 14.000 árum.
Ein skögultönn, fundin á sama svæði og elstu ummerki manna í Alaska, hefur gert kleift að rekja allt að 1.000 kílómetra langt ferðalag loðfýlskýr, áður en dýrið gaf upp öndina fyrir um 14.000 árum.
Það var fjölþjóðlegur hópur vísindamanna hjá McMasterháskóla, Alaskaháskóla í Fairbanks og Ottowaháskóla sem raðaði saman þessu púsluspili með DNA- og ísótópagreiningum á þessari fornu fílstönn.
Þriggja ára ferðalag
Hlutfall tiltekinna ísótópa í glerungi tanna mynda eins konar dagbók, þar sem hægt er að lesa í fæðu dýrsins og um leið tilflutning yfir tíma.
Í þessari rannsókn gátu vísindamennirnir m.a. greint að tönnin var úr kvenloðfíl, um 20 ára að aldri sem hóf æviskeiðið í norðvesturhluta Kanada.
Þar lifði þessi ullhærða stórskepna lengst af og m.a.s. á fremur litlu svæði en fór síðan í þriggja ára ferðalag, mörg hundruð kílómetra leið, þar til hún að endingu lét lífið á búsetusvæði manna þar sem nú er Alaska.
Barátta um plássið
Þar fundust líkamsleifar hennar ásamt leifum yngri loðfíls og loðfílskálfs sem vísindamennirnir telja mögulegt að hafi verið afkvæmi hennar.
Tímasetningin passar inn í nálægt því 1.000 ára tímaglugga þegar þessi forsögulegu dýr voru í nábýli við fyrstu kynslóðir manna sem komu á þessar slóðir.
Í fyrsta sinn hafa vísindamenn rakið nákvæmlega ferð mammúts allt æviskeiðið. Úr 400.000 sýnum úr annarri skögultönninni var leið dýrsins kortlögð.
Ásamt greiningum tannarinnar bendir sú vitneskja til þess að það hafi verið menn sem réðu niðurlögum loðfílskýrinnar.
„Hún fullvaxin, ung, raunar á besta aldri. Ísótópagreiningar sýna að hún var ekki vannærð og að hún lét lífið á þeim árstíma sem verið höfðu veiðibúðir við Swan Point (fornleifauppgröftur, aths. ritstj.) þar sem skögultönnin fannst,“ segir Matthew Wooller sem er aðalhöfundur niðurstöðugreinarinnar og prófessor við Alaskaháskóla í Fairbanks.
Rannsóknin birtist í Science Advances