Indíánarnir voru með fjaðrir í hárinu, sögðu „how“ og börðust við landnema með því að ríða á hestum sínum í hringi í kringum vagnalestir þeirra. Sérhvert barn lærir um frumbyggja Bandaríkjanna en venjulega er sá lærdómur byggður á kvikmyndum um kúreka og gömlum sögum. En á bak við glansímyndir og hetjusögur getur sannleikurinn komið þér á óvart.
Hér verður nokkrum algengum spurningum um frumbyggja Ameríku svarað.
1. Hvaðan komu Indíánar?
Þriðjungur erfðaefnis indíána kemur frá Evrópu. Þetta er niðurstaðan eftir nýjustu DNA rannsóknir. Fyrri kenningum um uppruna indíána var kollvarpað árið 2014 af rannsóknarteymi undir stjórn danska erfðafræðingsins Eske Willerslev.
Vesturströndin var fólki byggð: Fyrstu íbúar Ameríku dreifðu sér líklega meðfram vesturströndinni. En fyrir 14.000-17.000 árum huldu ísmassar og jöklar restina af Norður-Ameríku.
DNA greiningar sýndu fram á að fólk sem byggði Ameríku fyrir 14.000 til 17.000 árum hafði ekki, eins og áður var talið, 100 prósent asísk gen. Þriðjungur erfðaefnisins kom í raun frá Evrópu.
Vísindamenn vita ekki hvort forfeðrahóparnir tveir runnu saman fyrir eða eftir komuna til Ameríku. Frekari DNA rannsóknir þarf að framkvæma til að geta svarað þessari spurningu.
2. Hver gerði indíánana rauða?
Málfræðingar telja að frumbyggjarnir hafi sjálfir komið með hugtakið rauðskinni. Eftir að landnám Evrópubúa hófst þurftu ættbálkarnir í fyrsta skipti orð yfir alla frumbyggja Ameríku.
Elsta dæmið sem vitað er um er frá 1769 þegar höfðingi vísaði til „rauðskinns“ í bréfi til bresks liðsforingja. Í huga „hvítra“ manna fékk hugtakið þó neikvæða meiningu á 19. öld.
LESTU EINNIG
3. Hvernig fengu höfðingjarnir nöfn sín meðal ættbálkanna?
Frumbyggjarnir skiptu oft um nöfn þegar þeir uxu úr grasi. Og fleiri nafnabreytingar fylgdu í kjölfarið ef þeir sköruðu fram úr eða einhver sérstakur atburður veitti þeim nýja stöðu í ættbálknum.
Verðandi Sioux höfðinginn Sitting Bull var kallaður sem barn „Leaping Badger“. Þegar hann var 14 ára sýndi hann svo mikið hugrekki í bardaga gegn Crow indíánunum að faðir hans gaf drengnum sitt eigið nafn, „Sitting Bull“. Faðirinn kallaði sig þá í staðinn „Jumping Bull“.
Apache-indíáninn Geronimo var kallaður „Sá sem geispar“ af foreldrum sínum. Nafnið Geronimo varð til í bardaga einum við mexíkóska hermenn. Samkvæmt einni túlkun báðu mexíkósku hermennirnir dýrlinginn St. Jerome að bjarga þeim. En kannski var Geronimo bara tilraun þeirra til að bera fram Apache nafnið hans.
Æskunafn Crazy Horse var „Among the Trees“. Líkt og Sitjandi naut tók Sioux-drengurinn nafn föður síns eftir að hafa sannað hugrekki sitt og hann var að sögn sá þriðji í röðinni til að hljóta nafnið „Hestur hans er brjálaður“. Á ensku var nafninu ranglega breytt í Crazy Horse.
4. Gátu indíánar átt margar eiginkonur?
Fjölkvæni meðal indíána lauk ekki fyrr en upp úr árunum um 1900.
Kjarnafjölskyldan með föður, móður og börnum var aðeins ein tegund fjölskyldugerðar frumbyggja. Þau önnuðust hvort annað þannig að ef kona varð ekkja var ekki óalgengt að hún giftist eiginmanni systur sinnar.
Á sama hátt gátu tveir bræður deilt einni konu. Í sumum ættbálkum – t.d. Iroquois – gátu bæði karlar og/eða konur leyst upp hjónabandið ef þau væru óánægð.
5. Úr hverju voru kanóar búnir til?
Upprunalegi kanóinn var smíðaður úr birkiberki á þunnri og smágerðri viðargrind. Steinar í árfarvegi og vötnum gátu auðveldlega rifið gat á þunnan botninn en aftur á móti var auðvelt og tók aðeins stuttan tíma að gera við slíkar skemmdir. Berkinum var svo loks skipt út fyrir striga á 19. öld.
6. Veiddu allir frumbyggjar vísunda?
Hinn stóri vísundur var sjálf undirstaða lífs allra indíána á sléttunni. En dýrið fannst aðeins á víðlendum sléttum og ættbálkar í skógum og fjöllum strandhéraðanna urðu því að finna annars konar fæðu til að seðja hungrið.
Sumir settust að til að rækta landið en aðrir voru stöðugt á ferðinni í leit að bráð sinni.
Norðurslóðirnar
Ættir: Chipewyan, Cree, Naskapi
Frumbyggjar á heimskautasvæðum fylgdu hreindýrum eftir sem sáu þeim fyrir fæðu og loðfeldum til að geta lifað af ískalda veturna.
Oregon
Ættir: Chinook, Cayuse, Salish
Chinook indíánarnir bjuggu til frambúðar í stórum langhúsum en Cayuse voru hirðingjar og riðu árlega út á slétturnar miklu til að veiða vísunda.
Sléttan
Ættir: Sioux, Cheyenne, Blackfeet
Vísundar voru matarbúr sléttuindíána. Pemmican, blanda af þurrkuðu kjöti, fitu og berjum, var sett í geymslu eftir kúnstarinnar reglum sem matarforði fyrir veturinn.
Kalifornía og Klettafjöllin
Ættir: Pomo, Nez Percé, Shoshone
Fuglar, villibráð og aðallega fiskur voru helstu fæðutegundirnar. Nez Percé indíánarnir voru þekktir fyrir hæfileika sína með net og háþróaðar fiskibeitur.
Arizona og Nýja Mexíkó
Ættir: Apache, Navajo, Pueblo
Á meðan Pueblo-indíánar ræktuðu korn á skraufþurru landinu var stríðsherfang mikilvægur hluti af lífsviðurværi hirðingjanna í Navajoættbálknum.
Austurströndin og vötnin miklu
Ættir: Iroquois, Huron, Powhatan
Maís var aðalfæða ættkvíslanna sem bjuggu í víggirtum þorpum umkringdum ökrum.
Mexíkóflói
Ættir: Creek, Cherokee, Seminole
Hlýtt loftslag gaf þeim forskot, ríka uppskeru af maís, melónum, squash graskerum og mjölrót, ásamt því að stunda bæði dýra- og fiskveiðar.
6. Veiddu allir frumbyggjar vísunda?
Hinn stóri vísundur var sjálf undirstaða lífs allra indíána á sléttunni. En dýrið fannst aðeins á víðlendum sléttum og ættbálkar í skógum og fjöllum strandhéraðanna urðu því að finna annars konar fæðu til að seðja hungrið.
Sumir settust að til að rækta landið en aðrir voru stöðugt á ferðinni í leit að bráð sinni.
Norðurslóðirnar
Ættir: Chipewyan, Cree, Naskapi
Frumbyggjar á heimskautasvæðum fylgdu hreindýrum eftir sem sáu þeim fyrir fæðu og loðfeldum til að geta lifað af ískalda veturna.
Oregon
Ættir: Chinook, Cayuse, Salish
Chinook indíánarnir bjuggu til frambúðar í stórum langhúsum en Cayuse voru hirðingjar og riðu árlega út á slétturnar miklu til að veiða vísunda.
Sléttan
Ættir: Sioux, Cheyenne, Blackfeet
Vísundar voru matarbúr sléttuindíána. Pemmican, blanda af þurrkuðu kjöti, fitu og berjum, var sett í geymslu eftir kúnstarinnar reglum sem matarforði fyrir veturinn.
Kalifornía og Klettafjöllin
Ættir: Pomo, Nez Percé, Shoshone
Fuglar, villibráð og aðallega fiskur voru helstu fæðutegundirnar. Nez Percé indíánarnir voru þekktir fyrir hæfileika sína með net og háþróaðar fiskibeitur.
Arizona og Nýja Mexíkó
Ættir: Apache, Navajo, Pueblo
Á meðan Pueblo-indíánar ræktuðu korn á skraufþurru landinu var stríðsherfang mikilvægur hluti af lífsviðurværi hirðingjanna í Navajoættbálknum.
Austurströndin og vötnin miklu
Ættir: Iroquois, Huron, Powhatan
Maís var aðalfæða ættkvíslanna sem bjuggu í víggirtum þorpum umkringdum ökrum.
Mexíkóflói
Ættir: Creek, Cherokee, Seminole
Hlýtt loftslag gaf þeim forskot, ríka uppskeru af maís, melónum, squash graskerum og mjölrót, ásamt því að stunda bæði dýra- og fiskveiðar.
7. Hvaðan kom villihesturinn (mustang)?
Hestur indíána, mustanginn, er afkomandi hesta sem spænskir landvinningamenn fluttu til Ameríku á 16. öld. Forsögulegt hrossakyn var til í Ameríku fyrir u.þ.b. 3,5 milljónum ára en það dó út um 8.000-10.000 f.Kr. – annað hvort vegna loftslagsbreytinga eða vegna þess að dýrið var ofveitt af fyrstu mönnum.
Nafnið kemur frá spænska orðinu „mestengo“ – lausagöngudýr.
Spænskir hestar sluppu frá mannabyggðum í Mexíkó og voru ýmist teknir af indíánum eða gerð voru vöruskipti með þá. Þeir breiddust hratt út og einkum meðal ættbálkanna á sléttunni, þar sem þeir komu af stað miklum breytingum á lífsstíl frumbyggja.
Á hestbaki var hægt að stunda veiðar langt í burtu frá heimabyggðinni og hirðingjaættbálkar áttu auðveldara með að fylgja eftir sinni bráð þegar árstíðirnar breyttust og bráðin fluttist til.
8. Hvað var sólardansinn?
Sólardansinn var andlegur helgisiður sem átti að styrkja tengsl náttúru, dýra og fólks. Ættbálkurinn dansaði m.a. fyrir farsælli vísundaveiði, sigri í stríði, farsælum hjónaböndum og lækningu hinna sjúku.
Á tungumáli Sioux var helgisiðurinn kallaður Wiwanke Wachipi sem þýða mætti sem „dans þess sem horfir á sólina“. Ættbálkurinn, ásamt nágrannaættbálkum eins og Cheyenne og Blackfeet, voru fyrstir til að stunda þennan dans sem svo breiddist út meðal frumbyggjanna. Sólardansinn sem gat varað yfir í nokkra daga og nætur, innihélt iðrun, sársauka og andlegan trans sem einn stærsta tilganginn.
Dansarinn hékk á húð sinni í marga daga þar til hún rofnaði undan þunga líkama hans. En þessir blóðugu helgisiðir voru ekki fyrir alla. Margir létu sér nægja að fasta og dansa af krafti í mjög langan tíma.
Dansinn fór fram í helgum hring í kringum háa stöng. Þátttakendur létu stinga stuttum oddhvössum trébútum í gegnum brjóstvöðvana og endar þeirra voru svo bundnir efst á stöngina háu með löngum leðursnúrum. Í dansinum gengu þátttakendur svo hringinn í kringum stöngina á meðan þeir hölluðu sér aftur á bak þannig að húðin á bringunni teygðist út og loks gaf hún sig og rifnaði eftir margra klukkutíma eða margra daga gríðarlegan sársauka.
Yfirvöldum í Bandaríkjunum fannst þessi helgisiður villimannslegur og sólardansinn var bannaður frá 1905 til 1978.
9. Til hvers notuðu frumbyggjar ættarsúlur?
Hin útskornu tákn höfðu hvert sína merkingu og stöngin sagði söguna um forfeður fjölskyldunnar.
Hrafninn táknar galdra og sjálfsþekkingu. Úlfurinn er tákn um styrk og tryggð. Snákurinn endurspeglar breytingar, hvatvísi og endurfæðingu.
Aðeins örfáir ættbálkar á vesturströnd Bandaríkjanna gerðu ættarsúlur, t.d. í tilefni af hjónabandi eða dauðsföllum. Ólíkt því sem margir halda þá bundu frumbyggjar ekki fanga við þessar ættarsúlur.
10. Hvað skilaboð gátu frumbyggjarnir sent með reykmerkjum?
Hver ættkvísl notaði reykmerki sem endurspeglaði lífshætti hennar. Apache notuðu þau mikið í hernaði.
Reykmerki voru algeng aðferð til að senda einföld skilaboð um langar vegalengdir. Oft voru þau notuð af njósnurum sem vöruðu við óvinum eða gáfu ættbálknum upp stöðu þeirrar bráðar sem leitað var að. Gallinn við þessa aðferð var að sendandinn kom upp um staðsetningu sína.
Svona gerðu indíánarnir reykmerki
1. Veldu hentugan sendingarstað: Finndu hæsta punktinn í nágrenninu. Reykurinn verður að sjást úr mikilli fjarlægð.
2. Kveiktu eld með fersku grasi: Haltu áfram að bæta við röku eldsneyti, blautum við eða grasi svo eldurinn gefi frá sér mikinn reyk.
3. Myndaðu reykmekki með teppi: Notaðu rakt teppi sem einskonar poka, þar sem reykur safnast saman í og myndar svo þétta reykmekki.
Reykstafrófið
Einn reykmökkur
Eitthvað óvenjulegt er að gerast. Vertu vakandi og leitaðu að fleiri merkjum.
Tveir reykmekkir
Allt er rólegt. Tjaldbúðirnar eru öruggar. Við höldum okkur þar sem við erum.
Þrír reykmekkir
Viðvörun! Óvinur er nálægt og bardagi getur hafist hvenær sem er. Ef merkið er endurtekið nokkrum sinnum þýðir það að sendandinn þarfnast skjótrar aðstoðar.
11. Grófu frumbyggjar stríðsöxina?
Stríðsöxin var mikilvægt tákn fyrir frumbyggja Ameríku og var oftar notuð til að innsigla samninga en til að mylja hauskúpur óvina. Öxin var svo oft hol að innan þannig að hægt var að nota hana sem pípu.
Setningin „að grafa stríðsöxina“ gæti hafa átt upptök sín einhvern tíma fyrir árið 1600, þegar höfðingjarnir Deganawida og Hiawatha sameinuðu Iroquois ættbálkana. Sem tákn um bandalagið grófu þeir öxi við rætur grenitrés sem málað var hvítt til merkis um frið.
Samkvæmt annarri sögu lauk stríði Apache-indíána við Spánverja árið 1749 með því að grafin var stríðsöxi.
12. Indíánar og stríðsmálningin
Rauður, hvítur, svartur, blár – stríðsmálning var persónulegt mál. Frumbyggjar kölluðu það „andamálningu“ og litirnir og mynstrin gátu verndað gegn illum öndum, sýnt hver hann var og gefið til kynna hvaða ættflokki hann tilheyrði.
13. Sömdu indíánar um frið með því að reykja?
Frumbyggjar reyktu pípur við alls kyns tækifæri. Það var stundum gert þegar stríði lauk en einnig gert með stríðsyfirlýsingu. Fyrir indíána táknuðu pípureykingar tenginguna milli jarðar, himins og orku alheimsins. Þess vegna reyktu þeir oft við bæn og hugleiðslu.
Reykur friðarpípunnar leiddi bænina upp til guðanna.
Margir ættbálkar áttu sitt uppáhaldstóbak og sumar tegundir tóbaks voru áhrifaríkari en aðrar. Til að komast í rétta andlega ástandið bættu sumir frumbyggjar til dæmis við tóbakið klípu af þurrkuðum og muldum fílakaktus sem hefur þá eiginleika að valda mikilli vellíðan.
Útlit pípunnar var einnig mismunandi. Indíánar sléttunnar meitluðu pípur úr mjúkum steinum, eins og alabaster eða leirsteini (argillít) en ættbálkar í suðaustrinu eins og Cherokee og Chickasaw bjuggu til pípur sínar úr leir.
14. Hvaða þýðingu höfðu fjaðrir fyrir frumbyggja?
Samkvæmt sléttuindíánum hafði hver fuglategund sín eigin einkenni og þau einkenni gætu borist til manna með fjöðrum. Meðal stríðsmanna og veiðimanna voru arnarfjaðrir eftirsóttastar, því að sá fugl var persónugevingur styrks og var hann næst yfirnáttúrulegum öndum vegna mikillar flughæðar arnarins.
Ungur indíáni gat ekki einfaldlega tekið fjaðrirnar af jörðinni og sett þær í hárið á sér. Eins og verðlaunapeningar Evrópubúa voru fjaðrir veittar af öðrum sem verðlaun fyrir sérstök afrek og fyrst þurfti sá, er fjaðrirnar vildi hljóta, að rifja upp afrek sín á dramatískan hátt.
Fjaðrir kólibrífuglsins voru tengdar ást og gáfum.
Sá er fjöður hlaut var skylt að bera hana á sýnilegan hátt og indíáni með sterkan persónuleika gat með tímanum byggt upp glæsilegt og stórt höfuðfat skreytt ýmiss konar fjöðrum. Hins vegar voru fjaðrirnar ekki tignarmerki eins og margir hvítir töldu.
Fuglafjaðrirnar segja söguna
- Kráka: Jafnvægi, leikni, framsýni.
- Örn: Styrkur, hugrekki, heiður.
- Kalkúnn: Frjósemi.
- Kólibrífugl: Ást, fegurð, greind.
- Fálki: Sálulækning, hraði, hreyfing.
- Bláþröstur: Gleði, ánægja.
- Hrafn: Sköpun, þekking.
15. Létu Apache-indíánar maura éta fanga sína?
Engar vísbendingar eru um að Apache hafi smurt fanga sína hunangi og látið maura éta þá. En pyntingar í öðrum myndum voru þó útbreiddar – sérstaklega austur af Mississippi ánni.
Hurons og Iroquois indíánar fóru oft í miklar herferðir til þess að taka menn til fanga.
Sumir fanganna voru drepnir með grimmilegum pyntingum – en maurar voru þó ekki morðvopnið.
Konur fanganna mátti nota sem eiginkonur og karlfangar unnu sem þrælar en stundum voru fangaðir hermenn valdir til að deyja. Pyntingarnar hófust með barsmíðum með kylfum á leiðinni til búðanna og enduðu loks með limlestingum.
Konur og börn tóku einnig þátt í því að skera af fingur, skera af höfuðleður fórnarlambsins og stinga með brennandi trjágreinum áður en hinn dæmdi var loks skorinn á háls. Fanginn hlaut virðingu fangara sinna ef hann söng dauðasöngva í stað þess að öskra.
16. Var Pocahontas söguleg manneskja?
Pocahontas fæddist um 1595 og kynntist Englendingnum John Smith. En þá var hún aðeins um 12 ára gömul og heimildir segja ekkert um rómantískt samband þeirra eins og lýst er í Disney-myndinni „Pocahontas“ frá árinu 1995.
Hin raunverulega Pocahontas var hins vegar tekin í gíslingu af Englendingum 18 ára að aldri. Þeir neyddu föður hennar til að sleppa handteknum nýlendubúum en í stað þess að sleppa henni, létu þeir ekkil að nafni John Rolfe giftast henni árið 1614. Hún tók sér nafnið Rebecca Rolfe og eignaðist son.
Samtímamálverk sýna Pocahontas í evrópskum klæðnaði sem sæmdi eiginkonu Englendings.
Árið 1616 sigldi litla fjölskyldan til London, þar sem Pocahontas var miðpunktur athyglinnar í herferð til að safna peningum fyrir landnám í Norður-Ameríku. En skömmu áður en hún sneri aftur til Ameríku árið 1617 veiktist hún og lést.
Mikill skortur var á vinnuafli í nýlendunum í Norður-Ameríku á 17. öld. Vandinn var m.a. leystur með því að ræna og gabba fátæka Breta og flytja þá yfir Atlantsála þar sem fyrir þeim átti eftir að liggja að gerast hvítir þrælar. Ef þeir reyndu að flýja, gátu þeir misst eyra.
17. Sögðu indíánar „úgg“?
Bandarískir vestrar hafa kennt kynslóðum barna að indíánar heilsuðu ókunnugum með „úgg“ eða „há“. Í raun og veru voru þetta sömu orðin og alls ekki kveðja.
„Úgg“ og „há“ urðu til sem tvær mismunandi tilraunir til að skrifa niður orðatiltæki á tungumáli Creek indíána. Orðið var notað sem mjúkur inngangur að setningum í töluðu máli – alveg eins og „allt í góðu“ eða „allt í lagi“ á íslensku. Orðið var aðeins til í Suðurríkjunum en ekki á amerísku sléttunni.
18. Hvað var „slóð táranna“?
Ríkin Georgia, Tennessee, Alabama, Norður-Karólína og Flórída voru með fullkomið loftslag til að rækta t.d. bómull. En þeir u.þ.b. 125.000 frumbyggjar sem árið 1830 bjuggu á svæðinu þóttu standa í vegi.
Þegar, við þessi góðu vaxtarskilyrði, bættist uppgötvun á gulli í Georgíu ákvað Andrew Jackson forseti að bregðast við. Hann undirritaði „Indian Removal Act“ sem kom af stað margra ára stórum og alræmdum þvinguðum brottflutningi indíána sem sameiginlega er minnst sem slóð táranna eða „Trail of Tears“.
Brottvísun var frá 1831 orðið mjög algeng aðferð til að flytja indíána á brott og koma þeim þannig úr vegi.
Cherokee-ættbálkurinn veitti lagalega mótspyrnu í gegnum dómstóla og Cherokee-höfðinginn John Ross kom málinu fyrir Hæstarétt – og vann. En hvorki dómsúrskurðir né mótmæli frá þekktum Bandaríkjamönnum hjálpuðu málstaðnum. Árið 1838 smöluðu hermenn Cherokee indíánum eins og nautgripum og leiddu þá u.þ.b. 1.300 km vegalengd að verndarsvæði indíána vestur af Mississippi.
Margir létust við hinar ömurlegu aðstæður þessara nauðungarflutninga og um 25 prósent af öllum meðlimum Cherokee ættbálksins týndu lífi.
19. Riðu indíánar hestum sínum í hringi í árás?
Að ríða hestum sínum hringinn í kringum óvin var aðferð sem indíánar notuðu oft – og hún virkaði. Hermenn Custer hershöfðingja urðu fyrir barðinu á þessari aðferð árið 1876 í orrustunni við Little Bighorn, þar sem þeim var slátrað af stríðsmönnum sem að sögn nokkurra sjónarvotta, réðust á Custer og menn hans með ströngum aga og mikilli kunnáttu.
Góð reiðkunnátta gerði það að verkum að indíánarnir gátu skýlt sér á bak við hesta sína.
Aðferðin var notuð af sléttuindíánum eins og Sioux og Cheyenne og tilgangurinn var að grípa tækifærið og hrekja óvinina alla saman á lítið svæði. Hins vegar riðu kapparnir ekki ómeðvitað um í þröngum hring í kringum óvininn. Það hefði verið sjálfsmorð andspænis vel vopnuðum bandarískum hermönnum eða landnema.
Við Little Bighorn réðust ungir innfæddir indíánar sem sjálfsmorðsmenn beint á hermennina til að drepa eins marga og mögulegt var áður en þeir sjálfir féllu.
Knaparnir gerðu stöðugar smáar árásir, fóru til skiptis fram og þutu aftur til baka og gerðu sig svo tilbúna til að endurtaka leikinn til að þreyta og rugla óvininn.
1. Árásin hefst: Farið fram á stökki og dreifið ykkur þannig að erfitt er fyrir óvininn að ná höggi á ykkur.
2. Skjóttu á óvininn: Skjóttu með byssu og notaðu boga. Forðastu eigin missi með því að halda ákveðinni fjarlægð frá skotmarkinu.
3. Vertu utan skotfæris: Haltu þig frá umkringdum óvini og undirbúðu vopn þín fyrir aðra árás.
20. Hverjir voru fyrstir til að fletta höfuðleðri?
Frumbyggjar Ameríku skáru af höfuðleður óvina sinna jafnvel áður en Evrópubúar komu til Norður-Ameríku. Hins vegar tóku nýlendubúar fljótt upp þennan sið og endurbættu hann með að höggva höfuðið af föllnum óvinum.
Í Nýja Englandi á 18. öld var oft boðið hátt verðlaunafé fyrir höfuðleður af frumbyggja.
Yfirvöld í Boston sýndu enga linkind þegar þau lýstu allan Penobscot ættbálkinn sem útlægan þann 3. nóvember 1755 og fé var heitið fyrir lifandi fanga sem og höfuðleður. Til dæmis, hár innfæddrar amerískrar konu eða drengs undir 12 ára aldri var 20 punda virði.
21. Hvert fóru indíánarnir?
Indíánar misstu megnið af lendum sínu en þeim var ekki útrýmt.
- 5,2 milljónir eða tvö prósent af íbúum Bandaríkjanna í dag eru frumbyggjar.
- 325 verndarsvæði eru enn til á víð og dreif um Bandaríkin. Þau eru sjálfstjórnarsvæði þar sem ættbálkurinn getur sett sín eigin lög.
- 566 ættbálkar eru opinberlega viðurkenndir af bandaríska ríkinu og meðlimir njóta sérstakra réttinda sem minnihlutahópur í Bandaríkjunum. Aðeins 20 prósent frumbyggja Ameríku nútímans geta hins vegar talað upprunalegt tungumál ættbálks síns.
Lestu meira um frumbyggja Norður-Ameríku
- Carl Waldman: Encyclopedia of Native American Tribes, Checkmark Books, 2006.
- David Murdoch: North American Indian, Dorling Kindersley, 2005.
- Jake Page: In the Hands of the Great Spirit: The 20,000-Year History of American Indians, Simon & Schuster, 2004.