Við vinnu sína nota fornleifafræðingar nú gjarnan háþróaðan radarbúnað og loftmyndir til að finna fornminjar neðanjarðar eða í bergveggjum.
En nú gæti ævaforn steinplata með dularfullum ristum boðið evrópskum fornleifafræðingum upp á nýja en um leið hefðbundna aðferð.
Fornleifafræðingar hjá franska UBO-háskólanum (Université de Bretagne Occidentale) telja að hin 4.000 ára gamla Saint-Bélec-hella sé í rauninni fjársjóðskort frá bronsöld og gæti vísað á aðra hulda muni frá þessum tíma.
Hellan er 2,5 metra löng og 1,5 metrar á breidd og þykir sérstök vegna þess að hana má nota sem landakort til að finna forna þéttbýlisstaði – afar sjaldséð aðferð í fornleifafræði.
Sýnir ár og fjöll
Saint-Bélec-hellan fannst árið 2014 og er þéttrist með alls kyns línum sem taldar eru mynda kort yfir gamalt furstadæmi. Steinhellan er þannig elsta landakort sem þekkt er í Evrópu og það liðu rúm átta ár þar til vísindamenn fóru fyrir alvöru að reyna að ráða í hana.
Úr ójöfnum og línum á hellunni töldu vísindamenn hjá UBO sig geta greint fljót og fjöll í Roudouallec á Bretagne-svæðinu um 500 km vestur af París. Þegar þeir mynduðu helluna og báru saman við núgildandi landakort reyndist þetta tvennt falla saman nálægt 80%.
Uppgötvunin gæti leitt af sér fund fornra bæja og þorpa og um leið til þess að merkar fornminjar finnist.
Jörðin myndaðist fyrir á að giska 4,54 milljörðum ára en hver er eiginlega elsti þekkti steinn jarðar og á hann rætur að rekja til sjálfrar jarðarinnar?
Svo virðist sem meitlaðar hafi verið fíngerðar misfellur í helluna og vísindamennirnir telja að þannig séu sýndir grafarhaugar, byggð svæði og setlög í Roudouallec.
Kortið nær yfir um 630 ferkílómetra svæði á þessum hluta Bretagne.
Vísindamennirnir hyggjast nú mæla allt svæðið upp og bera saman við risturnar á hellunni og áætla að sú vinna geti tekið 15 ár.
Nýr uppgröftur hefur þegar leitt í ljós brot úr munum og þannig sýnt að Saint-Bélec-hellan hefur a.m.k. yfirbragð fjársjóðskorts.