Maðurinn

7 mýtur um hæð: „Hávöxnu fólki vegnar betur í lífinu“

Er hávaxið fólk með hærri laun? Er mannkynið stöðugt að hækka? Ræðst hæð okkar af erfðavísunum? Hér má lesa sér til um sannindi og ósannindi í tengslum við það sem einkennir okkur hvað allra mest, þ.e. hæð okkar.

BIRT: 25/11/2023

Um helmingur okkar dreymir um að vera hærri en við erum. Mörgum finnst hæðin hafa áhrif á möguleika þeirra á að laða að mögulegan maka eða ná almennum árangri í lífinu.

 

En er hæðin jafn mikilvæg og við teljum okkur trú um? Og eru algengustu fullyrðingarnar um hæð – og líffræðina á bak við hæð – réttar?

 

Skoðum hvað vísindin segja um hæð.

 

UNGLINGAR

 

Mýta 1: Við stækkum mest á unglingsárunum

Vaxtalínurit fyrir stelpur og stráka sýnir hvenær við hækkum mest (aldur er á lárétta ásnum og hæð í sentimetrum er á lóðréttum). Tölurnar eru frá Danmörku.

Bæði stúlkur og drengir geta lengst gífurlega mikið á örfáum mánuðum á unglingsárunum. Samt sem áður lengjumst við ekki hraðast á þessum árum. Vaxtarlínurit drengja og stúlkna frá fæðingu til tvítugs hafa leitt í ljós að við stækkum jafnt og þétt frá barnsaldri til fullorðinsára en engu að síður er vöxturinn örastur á fyrsta æviári okkar.

 

Nýfætt barn er á að giska 50 cm á hæð og einungis fjórum árum síðar hefur barnið lengst upp í rösklega það tvöfalt, þ.e. upp í u.þ.b. 105 sentímetra. Þegar vöxturinn er í hámarki geta börn hækkað sem nemur rúmum 20 cm á ári sem er allnokkuð meiri aukning en verður vart á unglingsárunum.

 

Vöxtur unglingsdrengja nær hámarki í kringum 14 ára aldurinn en á þessu æviskeiði lengjast þeir um á að giska tíu sentímetra á ári sem verður að teljast allverulegt en er þó einungis helmingurinn af því sem ungabarn vex á ári.

 

Stúlkur lengjast talsvert mikið í tengslum við kynþroska, líkt og við á um drengi en vöxtur þeirra nær yfirleitt hámarki áður en þær komast á gelgjuskeiðið en þess má geta að 12 ára gömul stúlkubörn hækka um átta til níu sentímetra á ári.

 

MÝTA 1 ER: ÓSÖNN

 

AÐLÖÐUN

 

MÝTA 2: Konur velja frekar hávaxna karla

Rannsóknir sýna að gagnkynhneigðar konur kjósa almennt karlmenn sem eru hærri en þær sjálfar.

Ýmsar rannsóknir hafa leitt í ljós að gagnkynhneigðar konur velja að öllu jöfnu hávaxna karlmenn. Í tilraun einni sem gerð var á 650 háskólanemum við hollenskan háskóla kom í ljós að konur völdu gjarnan karlmenn sem voru á að giska 21 cm hærri en þær sjálfar og sambærileg bandarísk tilraun sýndi fram á að næstum helmingur kvenna valdi karlmenn sem voru hærri en þær sjálfar.

 

Þegar bandarísku konurnar voru spurðar að því hvers vegna hæð karlmanna skipti máli, svöruðu þær því á þann veg að hávaxnir karlar fylltu þær meiri öryggiskennd og að þeim liði kjánalega í fylgd með sér lágvaxnari karlmönnum.

 

Einungis 13,5 prósent bandarískra karla gáfu til kynna að það skipti þá máli að konur væru lægri í loftinu en þeir sjálfir sem bendir til þess að karlar velti hæðinni ekki eins mikið fyrir sér og konur.

 

Þetta er enn fremur staðfest í hollensku tilrauninni þar sem í ljós kom að karlar kusu að vísu að vera með konum sem voru lágvaxnari en þeir sjálfir en þeim nægði þó að munurinn næmi aðeins átta sentímetrum sem er umtalsvert minni munur en konurnar kusu sér.

 
MÝTA 2 ER: SÖNN

 

VAXTAVERKIR

 

MÝTA 3: Það er sárt að stækka

U.þ.b. 10-20 prósent allra barna finna fyrir vaxtaverkjum og sársaukinn finnst sérstaklega í kálfavöðvum og framan á læri.

Börn á aldrinum þriggja til 12 ára finna stundum fyrir verkjum sem kallaðir hafa verið vaxtarverkir.

 

Slíkir verkir sem að jafnaði leggjast á fótleggina, gera gjarnan vart við sig á kvöldin eða nóttu til og hverfa af sjálfsdáðum á nokkrum klukkustundum.

 

Hversu sárir verkirnir eru er breytilegt frá einu barni til annars og mörg börn fá þá aldrei.

 

Heiti kvillans stafar af því að verkirnir voru áður taldir stafa af vexti beinanna. Fólk ímyndaði sér að ör vöxtur beinanna togaði í sinar og vöðva og orsakaði sársauka.

 

Vísindamenn í dag telja verkina ekki tengjast vexti á neinn hátt, m.a. sökum þess að verkirnir gera ekki vart við sig á þeim tímabilum sem líkaminn stækkar hvað örast.

 

Ekki er vitað fyrir víst af hverju verkirnir stafa en vísindamenn eru með ýmsar tilgátur.

 

Ein tilgátan er sú að barnið hafi verið sérlega mikið á hreyfingu þann daginn og því hafi myndast mikið álag á vöðva og sinar þennan tiltekna dag.

 

Önnur hugmynd gengur út á það að vaxtarverkir eigi rætur að rekja til lægri sársaukaþröskuldar. Þá má endanlega geta þess að sumir telja verkina tengjast kvilla sem kallast fótaóeirð (á ensku: restless legs syndrom).

 

MÝTA 3 ER: ÓSÖNN

 

ERFÐIR

 

MÝTA 4: Hæðin ákvarðast af erfðavísunum

Nýleg stór rannsókn hefur gefið vísindamönnum aukna þekkingu á hvernig gen hafa áhrif á hæð.

Alþjóðlegt teymi vísindamanna birti árð 2022 niðurstöður viðamestu rannsóknar sem um getur á sviði erfðafræðinnar hvað varðar hæð okkar.

 

Vísindamennirnir höfðu borið saman erfðaefni tæplega 5,5 milljóna manna yfir tuttugu ára tímabil í því skyni að kortleggja að hve miklu leyti hæð okkar ræðst af erfðavísunum.

 

Þegar á heildina var litið komust þeir að raun um að um 80 hundraðshlutar af hæð okkar ráðast af erfðavísum en síðustu 20 prósentin hins vegar af umhverfisþáttum.

 

Ef tvö börn alast upp við mjög sambærilegar aðstæður eru það því mestmegnis arfberarnir sem ráða því hvort þeirra hefur vinninginn hvað hæðina snertir.

 

Ef hins vegar annað barnið elst upp án þess að hafa aðgang að nægri fæðu en hitt hefur ofgnótt af heilsusamlegum, næringarríkum mat, eru það ekki lengur einungis erfðavísarnir sem ráða því hvort barnið verður hávaxnara.

Vöxtur barna ræðst af þremur þáttum

Erfðavísarnir skipta sköpum fyrir vöxt beinanna en réttir lifnaðarhættir geta jafnframt bætt nokkrum sentímetrum við hæðina.

Hreyfing togar í beinin

Ýmsar rannsóknir gefa til kynna að hreyfing sé mikilvæg fyrir vöxt barna. Ástæðan er sennilega sú að vöðvarnir hafi í raun áhrif á beinin með því að toga í þau eða þá að vöðvarnir sendi frá sér boðefni sem stuðli að auknum vexti beinanna.

Kalk og prótein styrkja vöxtinn

Bein hafa þörf fyrir næringarefni til að stækka, einkum kalk sem börn fá úr t.d. mjólk og grænu grænmeti á borð við kál. Þá eru prótein einnig mikilvæg fyrir vöxt beinanna en þau er m.a. að finna í kjöti, eggjum, hnetum og fræjum.

Svefn leysir úr læðingi vaxtarhormón

Svefn skiptir sköpum fyrir vöxt barna. Um 75% af náttúrulegu vaxtarhormóni líkamans losnar nefnilega úr læðingi á meðan við sofum. En þess má geta að hormónaframleiðslan er mest í létta svefninum fyrstu tvær klukkustundirnar, áður en draumsvefninn (REM-svefn) gerir vart við sig.

Jafnvel þótt tvö börn alist upp í sams konar umhverfi getur reynst vandkvæðum bundið að reikna út endanlega hæð með hliðsjón af erfðavísunum einum saman.

 

Hæðin ákvarðast nefnilega ekki af einu einstöku geni, heldur mörgum.

 

Í rannsókninni greindu vísindamennirnir alls 12.000 ólíka þætti í erfðaefni okkar sem hafa áhrif á hæðina. Ef marka má vísindamennina bíða þúsundir sambærilegra þátta í erfðaefninu þess enn að vísindamenn greini þá.

 

Fyrir vikið eru útreikningar á hæð út frá erfðaefni alls ekki öruggari enn sem komið er en gamla aðferðin sem byggir á því að reikna endanlega hæð barns út með hliðsjón af hæð foreldranna.

 

Á hinn bóginn má búast við að niðurstöður rannsóknanna eigi eftir að skýra betur hæðarmun á systkinum sem ekki hefur tekist að reikna út með einföldum útreikningi á hæð foreldranna.

 

MÝTA 4 ER: SUMPART SÖNN

 

VELGENGNI

 

MÝTA 5: Hávaxið fólk nýtur meiri velgengni

Ýmsar rannsóknir hafa sýnt fram á að hávaxið fólk fær almennt hærri laun en lágvaxið fólk.

Fjölmargar rannsóknir hafa leitt í ljós að hávaxið fólk er að jafnaði með betri menntun og hærri laun en við á um lágvaxið fólk.

 

Niðurstöður bandarískra og breskra kannana gefa sem dæmi til kynna að karlar og konur sem störfuðu á skrifstofu og voru fyrir vikið með tiltölulega mikla menntun, voru að meðaltali um þremur sentímetrum hávaxnari en karlar og konur sem unnu erfiðisvinnu. Hæðarmunurinn sem nam þremur sentímetrum tengdist enn fremur launamun sem var á bilinu 1,4 til 2,9 prósentustig, þeim hávöxnu í vil.

 

Nákvæmlega hver er orsökin að baki mismuninum er enn ekki ljós. Ein tilgátan er sú að velgengni hávaxinna eigi rætur að rekja til þess að hávaxnir hafi meira sjálfstraust. Aðrir telja launamuninn að hluta til stafa af því að lágvöxnum sé mismunað. Þá telja sumir vísindamenn hávaxið fólk einfaldlega vera greindara en þá lágvöxnu.

 

Síðastgreinda tilgátan er studd af ýmsum greiningum sem leitt hafa í ljós samhengi milli hæðar og greindar. Samhengið kann að skýrast af því að bæði hæð og greind tengist hollri fæðu í barnæsku.

 

MÝTA 5 ER: SÖNN

5 mýtur um greind: „Karlar eru betri í stærðfræði“

 

 

Eru karlar greindari en konur? Erfir maður greind sína frá móður og föður? Og er leti til marks um heimsku? Margar sögusagnir eru á kreiki um greind – sem betur fer geta vísindin greitt úr þeim.

 

 

 

Lestu einnig:

 

KYNSLÓÐIR

 

MÝTA 6: Við hækkum með hverri kynslóðinni

Á að giska 100.000 ára gömul bein frá Ísrael hafa leitt í ljós að fornir forfeður okkar voru tiltölulega hávaxnir. Karlar virðast hafa verið alls 185 cm á hæð en konur í kringum 170 cm. Fólk var með öðrum orðum álíka hávaxið og nú.

 

Það er því ekki rétt að halda því fram að maðurinn hafi hækkað jafnt og þétt gegnum alla þróunarsöguna, því vöxturinn hefur einkennst af áberandi sveiflum. Meðalhæð forfeðra okkar lækkaði nefnilega um tíma og var síðan árþúsundum saman á bilinu 160-170 sentímetrar, allt þar til iðnbyltingin hófst fyrir um 150 árum.

 

Ein könnunin sýnir t.d. að hollenskir karlmenn á herskyldualdri voru að meðaltali 163 cm á hæð árið 1858 en árið 1997 var meðalhæðin komin upp í 184 cm.

 

Ástæðu þessarar miklu vaxtaraukningar er að finna í vænlegri lífsskilyrðum, bættri heilsu og betri fæðu. Nú er hins vegar farið að hægja á hæðaraukningunni, einkum í hinum vestræna heimi.

 

Rannsókn sem gerð var í Hollandi leiðir t.d. í ljós að engar verulegar breytingar hafa orðið á meðalhæð fólks á bilinu 1997 til 2009.

 

MÝTA 6 ER: SUMART ÓSÖNN

 

HORMÓNAR

 

MÝTA 7: Vaxtarhormón auka vöxt lágvaxinna barna

Meðferð með tilbúnum vaxtarhormónum fer venjulega fram með því að foreldrar gefa barninu sínu daglega sprautur í nokkur ár.

Alls 2½ prósent allra barna eru það sem fagfólk kallar of „lágvaxin“ sem táknar að þau eru talsvert undir meðalhæð miðað við aldurshóp. Smár vöxtur er yfirleitt arfgengur en ástæðurnar kunna þó að vera margar.

 

Takmarkaður vöxtur kann að stafa af skorti á vaxtarhormóni. Þetta hormón er yfirleitt framleitt í heiladinglinum, beint undir heilanum, þaðan sem það berst út í blóðið og svo áfram til beinanna og lifrarinnar. Í lifrinni örva efnin myndun annarra vaxtarþátta sem skipta sköpum fyrir vöxt beinanna.

Hormónar hrinda af stað keðjuverkun

Vaxtarhormón, ásamt hormóninu IGF-1 frá lifrinni, hrinda af stað heilmikilli virkni í beinunum og útkomuna má sjá í nokkrum aukalegum hæðarsentímetrum.

1. Hormón skapa nýjar frumur

Á enda beinanna er að finna vaxtarplötur (rautt) sem innihalda svokallaðar brjóskfrumur (grænt). Vaxtarhormónin (blátt) og hormónið IGF-1 (gult) bindast frumunum og valda því að þær skipta sér, þannig að úr verði margar nýjar frumur.

2. Frumur þrútna út

Frumurnar þrútna því næst út með þeim afleiðingum að vaxtarplatan stækkar og beinið lengist. Jafnframt þessu losna úr læðingi boðefni sem laða að aðrar frumur sem eru mikilvægar fyrir myndun nýs beins. Að lokum líða brjóskfrumurnar undir lok.

3. Beinið fær á sig vinnupall

Aðrar frumur sem nefnast beinmyndunarfrumur (rauðar kúlur) komast inn í beinið og mynda traustan vinnupall gerðan úr kalkkristöllum. Jafnframt þessu vex net æða inn í holrými beinsins þannig að frumurnar fá greiðan aðgang að súrefni og næringu.

Þegar barn skortir hormónið velja foreldrar og læknir oft að meðhöndla barnið með tilbúnum vaxtarhormónum sem gefin eru í sprautuformi með reglulegu millibili.

 

Ýmsar rannsóknir, m.a. frá Svíþjóð, hafa leitt í ljós að börn sem meðhöndluð eru á þennan hátt enda yfirleitt í hæð sem er umtalsvert nær meðalhæð en sú hæð sem börnin höfðu náð og sem er í samræmi við hæð foreldranna. Börn þessi eru þó enn gjarnan fimm til tíu sentímetrum undir meðalhæð.

 

Sum lágvaxin börn skortir hins vegar ekki vaxtarhormón og í þeirra tilviki gefur vaxtarhormónameðferð einungis takmarkaða raun.

 

Þegar á heildina er litið er unnt að auka hæð barna með vaxtarhormónum en börnin eiga þó áfram eftir að vera þó nokkuð undir meðalhæð.

 

MÝTA 7 ER: SUMPART ÓSÖNN

HÖFUNDUR: LEA MILLING KORSHOLM

Shutterstock,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Læknisfræði

Ofvirkni í heilastöð veldur stami

Maðurinn

Rannsókn: Þetta er ástæðan fyrir því að börn læra hraðar en fullorðnir

Maðurinn

Heilinn kortlagður: Smásæ vefsýni sýna stórbrotin smáatriði

Náttúran

Af hverju er kalt í mikilli hæð?

Maðurinn

Hversu oft segjum við ósatt?

Lifandi Saga

Kjarnorkuógnin: Sovéskur kafbátur í skerjagarðinum

Alheimurinn

Lítið eitt um þyngdarkraftinn

Menning

Hverjir höfðu fasta búsetu í Machu Picchu?

Lifandi Saga

Hitler var á efnum alla seinni heimsstyrjöld

Jörðin

Af hverju virðist Grænland álíka stórt og Ástralía?

Lifandi Saga

Hversu góðir vinir eru Kína og Rússland? 

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.