Þótt við deyfum líkamslykt okkar með svitalyktareyði og tannkremi, er engin leið að fela það. Allt fólk gefur frá sér lykt.
En af hverju leysum við vind, fáum andremmu eða stöfum frá okkur táfýlu?
1. Hlaupbitar eru vindaukandi
Sumir reka oftar við en aðrir og lyktin ræðst af því hvað þú borðar. Gasið verður til sem aukaafurð af meltingunni í þörmunum þegar gerlar og bakteríur brjóta fæðuna niður.
Ef þú borðar of mikil sætindi veldur það offramleiðslu gerla í þörmum og gasmyndun verður meiri.
2. Mjólk og ostar valda andremmu
Andfýla stafar oftast af lélegri tannhirðu.
Ef illa er hirt um munninn safnast rotnunarbakteríur meðfram tannholdinu, milli tanna og í holum í tönnunum.
Bakeríurnar brjóta niður lífræn efni í mat og við það myndast illa lyktandi brennisteinsvetnissambönd.
Efst á listanum yfir matvörur sem valda verstri andfýlu trónir hvítlaukur – og kemur kannski ekki á óvart.
Hvítlaukur skilur eftir sig mikinn brennistein á tungunni – og reyndar um allan líkamann, þannig að lyktin þrengir sér líka út um svitaholurnar.
Mjólkurvörur eru önnur ástæða andfýlu.
Bakteríur sem einmitt eru okkur nauðsynlegar í munnholinu brjóta niður amínósýrur í mjólk og osti og skilja eftir sig efni sem valda fráhrindandi lykt.
3. Dökkt súkkulaði gefur sæta lykt
Skortur á steinefnum getur valdið slæmri líkamslykt og fæðubót með zínki og magnesíum getur bætt úr henni.
Við slíkar aðstæður getur verið heppilegt að borða dökkt súkkulaði sem í er mikið af magnesíum en það gildir líka um hveitiklíð, möndlur, kasjúhnetur og sesamkjarna.
4. Franskar kartöflur valda þráalykt
Allir sem hafa farið út að hlaupa, daginn eftir máltíð með miklum hvítlauk eða karrý, vita að þessi bragðefni setja mark sitt á líkamslyktina.
Ef þér finnst þránunarkeimur af lyktinni, getur það verið vegna þess að þú borðaðir franskar kartöflur með matnum.
Olían í steiktum og bökuðum matvörum veiklar meltinguna og það bitnar á líkamslyktinni sem getur orðið þrá.
5. Grænmeti veldur fúleggjalykt
Vond prumpulykt stafar af feitum sýrum og brennisteinssameindum sem verða til þegar prótín eru brotin niður.
Daglega fara 7-10 lítrar af gasi um þarmana en aðeins um hálfur lítri skilar sér út um afturendann.
En magn prumpsins og lykt ræðst af því hvað maður borðar.
Til dæmis prumpa grænmetisætur meira en aðrir og skapa verri lykt vegna þess að þau borða iðulega mikið kál og svipað grænmeti sem myndar hið illþefjandi efni brennisteinsvetni þegar það er brotið niður.
Og þegar brennisteinsvetni sleppur út um afturendann þefjar það eins og fúlegg.
6. Bakteríur valda svitalykt
Svitinn er líkamanum mikilvægur enda hjálpar hann til við að halda réttu hitastigi og losa líkamann við úrgangsefni. Og svitalyktin er ekki af svitanum sjálfum.
Lyktin myndast vegna þess að kringum svitakirtlana eru bakteríur.
Bakteríurnar brjóta niður svitann og lyktin stafar af aukaafurðum úr því ferli.
Þetta skýrir líka hvers vegna sviti sem myndast við íþróttaiðkun eða áreynslu lyktar ekki jafn illa og sviti sem safnast upp vegna lélegs þrifnaðar.
7. Smjörsýra veldur táfýlu
Táfýlan minnir á lykt af sterkum osti og gýs upp þegar heitar og sveittar tær losna úr skónum.
Lyktin stafar af óheppilegu samspili milli svita og baktería.
Svitinn sjálfur gefur ekki frá sér lykt en á fótunum eru bakteríur sem brjóta niður fótsvitann og það losar smjörsýru sem gefur þessa óþægilegu lykt sem minnir marga á gamlan, skemmdan ost.
Sé maður með fótsvepp á milli tánna bætir það síður en svo úr skák.
8. Ropi er illa lyktandi loft úr maganum
Segja má að ropi sé eins konar prump sem kemst út um öfugan enda.
Prumploftið stafar þó af virkni baktería í þörmum en ropi stafar af því að loft kemst niður í maga með mat og drykk, svo sem þegar maður drekkur gosdrykk.
Þess vegna lyktar ropi líka allt öðruvísi en prump.
Það hefur svo að auki komið í ljós að 20% fólks sem ropar meira en eðilegt er, hefur hægðatregðu sem veldur því að innihald magans berst hægar áfram til þarmanna.