Herferð Napóleons til Egyptalands í lok 18. aldar hafði áhrif á tískuna í Evrópu.
Franskir vísindamenn komu heim með hluti og teikningar sem vakti áhuga evrópsku yfirstéttarinnar. Til dæmis urðu borð og rúm með egypskum ljónafótum eitt heitasta innréttingatrend þess tíma.
Eftir lok Napóleonsstyrjaldanna árið 1815 var friður í Evrópu og ríkir Evrópubúar fóru að ferðast til Egyptalands sem var hernumið af Englendingum.
Á egypskum mörkuðum var hægt að kaupa ýmsa framandi hluti – þar á meðal múmíur.
Upp úr 1830 varð til nýr veisluleikur meðal yfirstéttar Evrópu: Múmíuopnun. Það fór hrollur um bæði gestgjafa og gesti, því enginn vissi hvað gæti leynst undir hinum fornu umbúðum.
Elítan bauð í múmíuopnun
Grafarræningjar fundu múmíurnar og fluttu þær til höfuðborgar Egyptalands, Kaíró, þar sem Evrópumenn keyptu þær. Verðið sem ferðamennirnir þurftu að greiða fór eftir gæðum og stærð múmíunnar.
Árið 1833 skrifaði franski aðalsmaðurinn Ferdinand de Géramb í bréfi:
„Það væri varla virðingarvert ef þú kæmir heim frá Egyptalandi án múmíu“.
Múmíuopnanir voru skemmtiatriði í samkomum breska aðalsins á 19. öld.
Múmíuopnanir urðu vinsælar og fóru fram skömmu eftir heimkomuna, því annars fóru múmíurnar að lykta illa.
„Múmía frá Þebu verður opnuð klukkan hálf þrjú“, stóð til dæmis í boðskorti enska aðalsmannsins Londesborough lávarðar árið 1850.
Von um frama á sviði hernaðar knúði hinn unga prins, Louis Napoléon, til að halda til Afríku og elta uppi Súlúmenn en prinsinn átti aldrei afturkvæmt til Frakklands.
„Tvö hvít augu með stórum, svörtum sjáöldrum ljómuðu af ímynduðu lífi á milli brúnna augnlokanna. Það voru glerungsaugu. Hið skýra, starandi augnaráð sem starði út úr dauðu andlitinu hafði ógnvekjandi áhrif,“ sagði franski rithöfundurinn Pierre Jules Théophile Gautier um múmíu sem hann var viðstaddur opnunina á.
Í lok 19. aldar dó þessi skemmtun út. Vísindamenn í Evrópu kröfðust þess nú að hinum fornu líkum yrði sýnd virðing og þau varðveitt á söfnum.