Nýjustu útreikningar eðlis- og stjörnufræðinga sýna að alheimurinn hafi myndast fyrir um 13,8 milljörðum ára.
Sá fjöldi stjarna sem síðan hefur myndast í alheiminum er beinlínis óskiljanlegur.
Bara í Vetrarbrautinni er álitið að séu einhvers staðar á bilinu 100 til 400 milljarðar stjarna. Plánetur gætu svo verið miklu fleiri.
Nú telja vísindamenn hjá MIT (Massachusetts Institute of Technology) sig hafa uppgötvað nokkrar af elstu stjörnum alheimsins – og m.a.s. einmitt í Vetrarbrautinni.
Vísindamennirnir greindu þrjár afar gamlar stjörnur, sem reyndar voru áður þekktar og niðurstöður voru birtar í Monthly Notices.
Milli 12 og 13 milljarða ára gamlar
Greiningar á efnasamsetningu þeirra sýna að þær gætu verið 12-13 milljarða ára gamlar, eða tiltölulega litlu yngri en alheimurinn sjálfur. Þetta kemur fram í miðlinum Live Science.
Þessar ævafornu stjörnur er að finna í ljósbaug Vetrarbrautarinnar, sem sagt því stjörnuskýi sem umlykur Vetrarbrautina, segja vísindamennirnir í fréttatilkynningu.
Reyndar telja þeir að þar megi finna fleiri stjörnur á sama aldri.
„Þær eru hluti af ættartré okkar í geimnum og við ráðum nú yfir nýrri aðferð til að finna þær,“ segir Anna Frebel eðlisfræðingur hjá MIT.
Vísindamennirnir rannsökuðu upplýsingagögn frá stjörnunum og á þeim grundvelli hefur þeim tekist að opna dyr að mögulegum rannsóknum á fleiri öldruðum stjörnum.
Milljarðar stjarna og líklega gríðarfjöldi pláneta. Vetrarbrautin er gríðarlega stór og þung. Hér er skemmtilegur fróðleikur um stjörnuþokuna okkar – Vetrarbrautina.
Uppruninn ekki í Vetrarbrautinni
Greiningarnar sýndu að í samanburði við sólina var í þessum stjörnum lítið magn af strontíum, baríum og járni.
Þetta er áhugavert vegna þess að í ungum alheimi var lítið til að fjölmörgum frumefnum, þar á meðal strontíum og baríum, segja vísindamennirnir í fréttatilkynningunni.
Vísindamennirnir setja líka fram mögulega skýringu á því að þessar stjörnur skyldu einmitt lenda í útjaðri Vetrarbrautarinnar.
Stjörnurnar gætu verið upprunnar í öðrum, litlum stjörnuþokum, sem Vetrarbrautin hefur gleypt í sig.
Þessar þrjár stjörnur snúast í kringum svarthol, en í öfuga stefnu við flestar aðrar stjörnur í grenndinni. Það segja vísindamennirnir benda til að þær hafi sogast inn í Vetrarbrautina á ferð hennar um geiminn einhvern tíma fyrir milljörðum ára.