Sú enska hefð að borða hjúpaða fiskbita steikta í olíu er trúlega upprunnin meðal spænskra gyðinga sem settust að í landinu á 16. öld.
Þeir tóku með sér fiskréttinn pescado frite frá Analúsíu og Englendingar urðu fljótt sólgnir í þennan hjúpsteikta fisk.
Salan tók þó ekki verulega við sér fyrr en um miðja 19. öld þegar farið var að nota troll til fiskveiða og framboð á fiski jókst verulega.
Árið 1848 fór vöruflutningalest í fyrsta sinn frá hafnarborginni Grimsby á Norðursjávarströndinni en eftir það var enginn hörgull á fiskflutningum til stórborganna.
Gríðarmiklum fiski var nú nánast mokað upp úr Norðursjó og verkafólk fékk þar með miklu ódýrari mat en áður.
Létti andrúmsloftið í stríðinu
Fyrsti þekkti „Fish‘n‘Chips“-matsölustaðurinn opnaði í London 1860 og seldi djúpsteikta fiskbita ásamt frönskum kartöflum – alveg nýju lostæti frá Frakklandi.
Þessi matur var ódýr og framreiðslutíminn afar skammur. Oft var honum pakkað inn í gömul dagblöð.
Aðgangur að „fish‘n‘chips“ taldist svo mikilvægur til að halda baráttuandanum við í fyrri heimsstyrjöldinni að breska ríkisstjórnin sá til að ríkulegar birgðir væru alltaf til í landinu þrátt fyrir kafbátaárásir Þjóðverja.