Það kann að virðast einna einfaldast af öllu að svara þessari spurningu en vísindamenn hafa þó í rauninni lengi velt fyrir sér hvers vegna ís er svo háll.
Lengi var algengasta skýringin sú að í raun og veru rynnum við til í örþunnu vatnslagi ofan á ísnum.
Samkvæmt þessari kenningu átti vatnslagið að myndast vegna þrýstings og núnings frá skósólanum sem bræddi örlítið af ísnum.
En til að mynda nægan þrýsting til að bræða ís þyrfti eiginlega „fíl á háhælaskóm,“ eins og einhver vísindamaður komst að orði.
Ísinn er líka háll jafnvel þótt við stöndum alveg kyrr þannig að núningskenningin gengur heldur ekki upp.
Skýringin er nú talin fólgin í hárfínum hreyfingum vatnssameinda efst í ísnum. Allra efst eru vatnssameindirnar ekki jafn fastbundnar og neðar í ísnum og hafa því vissan hreyfanleika.
Mest hreyfast sameindirnar – og svellið því hálast – við nákvæmlega rétt hitastig, réttan þrýsting ofan frá og tiltekinn hraða þess sem rennur til.
Samkvæmt þessu er hálkan mest í 10 stiga frosti og hvorki má þrýstingur né hraði vera of mikill, því þá plægir t.d. bíldekk eða skór sig aðeins niður í ísinn og rennur ekki.
Svokallaður svartur ís eða ,,glæra” verður til þegar bráðið vatn úr snjósköflum við vegkantinn flýtur yfir veginn og frýs í spegilsléttan og ósýnilegan dúk yfir nóttu.
Dans sameindanna veldur hálku
Langt niðri í ísnum eru sameindirnar fastar í kristallamynstri en alveg í yfirborðinu eru þær frjálsari og ná lítils háttar hreyfingu sem skapar þá hálku sem við þekkjum svo vel.
1. Veik binding veldur hálku
Í yfirborðinu eru sameindirnar aðeins bundnar niður á við. Við tiltekið hitastig, þrýsting og hraða manns eða hlutar geta þær hreyfst ekki ósvipað og fljótandi vatn.
2. Sameindirnar hreyfast
Aðeins neðar er bindingin þéttari og sameindir ná ekki að hreyfast jafnmikið og í yfirborðinu en þær eru þó ekki alveg læstar í kristallamynstrinu.
3. Kristallagrind veitir styrk
Dýpra í ísnum eru sameindirnar alveg fastar í kristallamynstri og hreyfast alls ekki. Þessi trausta kristallabinding gerir ísinn sterkan.