Sú hugmynd að blátt blóð renni í æðum konungborinna manna er upprunnin frá miðöldum á Spáni.
Á tímabilinu frá árinu 711 til 1497 réðu múslimskir Márar ríkjum á stórum hluta Íberíuskaga, þar sem ólíkir þjóðflokkar lifðu saman í sátt og samlyndi.
Blönduð hjónabönd voru harla algeng en ekki voru allir sáttir með slíkan ráðahag. Það voru spænskir aristókratar – einkum fornar og æruverðugar aðalsfjölskyldur í Kastilíu – sem neituðu að blandast framandi kynþáttum og lýstu því yfir að í æðum þeirra rynni ‘sangre azul’ – blátt blóð.
Aristókratarnir fullyrtu að þeir gætu rakið ættir sínar til tiginborinna kristinna aðalsmanna sem réðu ríkjum áður en Márar hertóku Spán.
Aðallinn var jafnan með mun ljósari húð en norður-afrískir Márar, spænskir Gyðingar og alþýðan sem þurfti að strita daglangt í sterku sólskini.
Undir fölri húðinni voru æðarnar áberandi og ætla mátti að blátt blóð rynni um æðarnar.
Spænskir aristókratar giftust einvörðungu innbyrðis. Fyrirkomulagið varðveitti hvítan húðlit þeirra og skapaði mýtuna um blátt blóð.
Bláa blóðið dreifðist um alla Evrópu
„Blátt blóð“ varð þannig samheiti yfir konunglegan uppruna og hreint blóð sem ekki var blandað framandi kynþáttum eða lágstéttinni.
Frá Spáni barst þessi túlkun síðan um alla Evrópu, þar sem líkingin var notuð til að styrkja sérstöðu aðalborinna manna og kóngafólks, til að greina það rækilega frá almennum borgurum.
Flestir hafa orðið dauðþreyttir á tilteknum fjölskyldumeðlimi en fæstir hafa þó gengið eins langt og frú Brinvilliers gerði á 17. öld.
Hugtakið náði miklum vinsældum með bókmennta- og listaverkum á Endurreisnartímanum og er enn þann dag í dag oft notað um kóngafólk.