Morguninn er kaldur og dimmur þegar bóndi nokkur í suðausturhluta Englands heldur til vinnu þann 3. desember 1926 og gengur yfir jarðareign sína í Newlands Corner í Surrey.
Svefndrukkinn stoppar maðurinn þegar hann sér tvær öflugar ljóskeilur skína í gegnum myrkrið. Bíll með ljósin kveikt er þarna yfirgefinn í brekku og virðist sem að runni hafi stöðvað hann fáeinum metrum frá opinni kalknámu.
„Rithöfundurinn Agatha Christie hverfur með undarlegum hætti af heimili sínu í Englandi.“
„The New York Times“
Enga manneskju er að sjá, einungis bílinn sem er af tegundinni Morris Cowley.
Í bílnum er að finna kvenmannspels, handtösku með ökuskírteini sem tilheyrir nokkuð þekktum rithöfundi en sá hefur sérstakan hæfileika til að skrifa morðgátur. Á næstu dögum munu allir í Englandi vera með nafn hennar á vörunum: Agatha Christie.
Heimur rithöfundar hrynur saman
Hin 36 ára Agatha Christie hafði árið 1926 nýverið gefið út sína sjöttu bók, „Morðið á Roger Akroyd“ sem seldist afar vel. En í einkalífi hennar ríkti mikil óreiða. Hún var gift flughetju úr fyrri heimsstyrjöldinni, Archibald Christie sem fannst hann standa fullmikið í skugganum af hinni frægu og dáðu Agöthu Christie.
Hjónakornin höfðu flutt ári áður til þorpsins Sunningdale ásamt dótturinni Rosalind en staðurinn er um 40 km frá London. Á golfvellinum þar hafði Archie mætt aðlaðandi ungri konu, Nancy Neele og hóf ástarsamband með henni meðan Agatha einbeitti sér að morðgátunum.
Ekki bætti úr skák fyrir Agöthu þegar hjartkær móðir hennar lést sama ár og Archie játaði nokkru seinna að eiga í tygjum við Nancy Neele.
Agatha Christie hafði ung að árum afar gaman af bókum Arthur Conan Doyles um hinn snjalla Sherlock Holmes.
Leitin fer í gang
Með arf frá auðugri móður var Agatha fjárhagslega örugg en hjarta hennar var molað. Útgefandi hennar þrýsti á hana að koma fljótt með næstu bók meðan að Archie hótaði því að yfirgefa hana.
Í örvæntingu sinni bað Agatha eiginmann sinn um að fara með sér í helgarferð í byrjun desember en það vildi hann ekki. Þess í stað hélt Archibald fimmtudaginn 2. desember til nokkurra vina sinna og var þar yfir helgina ásamt Nancy.
Á föstudagskvöldi fékk hann símhringingu frá lögreglunni í Surrey: Agatha var horfin sporlaust.
Glæpadrottning skrifaði metsölubækur á færibandi
Henni var sex sinnum hafnað áður en hún fékk loks samning hjá bókaforlagi. Núna er búið að þýða bækur Agöthu Christie á meira en 100 tungumál og margar sögur hennar þykja klassískar.
„Morðið í austurlandahraðlestinni“
Lestarferð endar með drápi
Þegar þessi víðfræga lest festist í stórhríð í Júgóslavíu er einn farþeginn myrtur í lestarvagni þar sem Hercule Poirot sefur. Allir tólf aðrir farþegar reynast hafa gildar ástæður fyrir morðinu en Poirot ræður morðgátuna.
„Dauðinn á Níl“
Kona deyr í skemmtisiglingu
Á Nílargufuskipinu Karmak er nýgift milljónamæringur myrt. Vinkona er grunuð um ódæðið því hin látna hafði tælt kærasta hennar til sín. Mun fleiri um borð reynast hafa gildar ástæður fyrir ódæðinu og Poirot kannar málavöxtu.
„Morðið á Roger Akroyd“
Auðmaður drepinn á heimili sínu
Auðkýfingurinn Akroyd er myrtur með hnífstungu og margir fjölskyldumeðlimir liggja undir grund. Poirot er settur í málið en sögumaðurinn, dr. Shepard, er ekki með hreint mjöl í pokahorninu og sagan tekur óvænta stefnu.
Þegar Archie og einkaritari Agöthu komu til Newlands Corner á laugardagskvöldi til að gæta að bílnum voru fjölmiðlar þegar komnir á staðinn. Rannsóknarlögreglumenn sáu eftir samtal við Archie að brestir voru komnir í hjónaband þeirra og menn voru sendir til að rannsaka betur svæðið. Ef Agatha hefði fengið taugaáfall gæti hún hafa villst af leið.
Lýst var eftir henni á 50 nærliggjandi lögreglustöðvum.
Dagblað greinir frá sjálfsmorði
Á mánudegi höfðu fregnirnar borist alla leið yfir Atlantshafið þar sem dagblaðið „The New York Times“ skrifaði: „Rithöfundurinn Agatha Christie hverfur með undarlegum hætti af heimili sínu í Englandi.
Í heimalandi hennar gerðu breskir fjölmiðlar mikið úr þessu hvarfi: Af hverju skildi Agatha pelsinn eftir í bílnum í þessum mikla kulda? Og væri um sjálfsmorð að ræða hvers vegna keyrði hún 25 km burt frá heimili sínu?
Samkvæmt dagblaðinu „Daily Sketch“ hafði Agatha drukknað í nærliggjandi vatni. Önnur dagblöð birtu risafyrirsagnir um vitni sem hafði hjálpað dömu nokkurri að koma bíl í gang en sá bíll hafði keyrt í gagnstæða átt miðað við ferðir Agöthu.
Blaðamenn sátu einnig um heimili hjónanna í Sunningdale þar sem Archie dvaldist. Dagblöðin höfðu nefnilega fengið vísbendingu um framhjáhald hans og á forsíðu þeirra var eiginmaður Agöthu nú grunaður um morð.
Dagblöð í Stóra-Bretlandi og BNA skrifuðu oft um dularfullt hvarf þessa vinsæla höfundar.
Rannsóknin nær hámarki
Bíllinn fannst á mörkum milli Surrey og Berkshire og lögreglulið beggja héraðanna leituðu eftir hinum horfna rithöfundi. Í Berkshire létu menn gera stórt plakat með mynd af Agöthu en í Surrey fínkembdu 30 lögreglumenn landið nærri Newlands Corner.
Lögreglan birti auglýsingu í dagblöðum þar sem beðið var um aðstoð við að leita að rithöfundinum þann 12. desember og sjálfboðaliðar streymdu þangað í þúsunda tali. Sérstakar strætisvagnaferðir voru skipulagðar til að flytja mörg þúsund sjálfboðaliða og þekktur sporhundaræktandi mætti á staðinn með hunda sína.
Í London sendi skapari Sherlock Holmes, Sir Arthur Conan Doyle, jafnvel hanska Agöthu til frægs miðils í von um að hún myndi finnast. En ekkert af þessu dugði til. Leitin á sunnudeginum gaf engar vísbendingar um hvað hefði orðið af henni.
Með meira en tvo milljarða seldra bóka er Agatha Christie samkvæmt heimsmetabók Guinness söluhæsti rithöfundur sögunnar.
Tónlistarmenn á hóteli leysa ráðgátuna
Sama kvöld fékk lögreglan í Harrowgate – heilsuhæli fyrir hina efnuðu – ábendingu frá tveimur tónlistarmönnum sem unnu í Swan Hydropathic Hotel. Einn gestanna þar líktist afar mikið konunni á plakötunum sem lögreglan í Berkshire hafði látið útbúa.
Lögreglan rannsakaði strax málið og komst fljótlega að einfaldri niðurstöðu: Agatha hafði bersýnilega skráð sig inn á hótelið undir nafninu mrs. Neele. Þriðjudaginn þann 14. desember kom Archibald á staðinn til að bera kennsl á konuna – með fjölmiðla á hælunum.
Meðan að lögreglustjórinn hélt aftur af blaðamönnunum var Archibald stefnt inn í sófa í anddyrinu, þar sem hann leyndist á bak við dagblað. Þaðan gat hann grandskoðað konu sem kom niður tröppurnar og hann var ekki í nokkrum vafa: Konan var eiginkona hans.
Til þess að verja bæði sjálfa sig og eiginkonu sína kom Archie fram – með stuðningi heimilislæknisins – með yfirlýsingu: Agatha átti við tilfallandi minnisglöp að etja en var þó að ná sér. Hjónakornin skildu nokkru síðar og Agatha Christie gaf aldrei nokkra skýringu á þessu 11 daga hvarfi sínu.
Lesið meira um hvarf Agöthu Christie
- Jared Cage: Agatha Christie and the Eleven Missing Days, Peter Owen, 2006