Sjávarlíffræðingar höfðu lengi efast um það hvort háhyrningar væru færir um að veiða og drepa steypireyðar. En nú hafa vísindamenn við Cetacean Research Center séð með eigin augum þrjár slíkar árásir við Bremer Bay í suðvesturhluta Ástralíu.
Tvær þeirra sáu þeir árið 2019 og svo þá þriðju árið 2021. Stórir hópar háhyrninga eltu steypireyði miskunnarlaust í langan tíma og rákust svo að lokum harkalega á hvalinn til skiptis, drekktu honum og átu.
Tungan étin fyrst
Í fyrstu árásinni var það heilbrigð fullorðin steypireyður, tæplega 22 metrar löng, sem var drepin. Samkvæmt rannsókn sjávarlíffræðinga rifu allt að 50 háhyrningar í sig deyjandi steypireyðina í sex tíma blóðugri átveislu.
Háhyrningarnir syntu meðal annars að munni steypireyðarinnar til að fá sér bita af næringarríkri tungu hvalsins á meðan hann var enn á lífi.
Hinar tvær árásirnar voru gegn tveimur smærri steypireyðarkálfum, annar um tólf metra langur og hinn um 14 metrar. Þeir voru eltir allt að 24 kílómetra af um 25 háhyrningum.
Háhyrningar ná sér í bita af tungu lifandi hvalsins.
Háhyrningar eru stór og snögg rándýr
- Háhyrningur er tannhvalur sem tilheyrir höfrungaættinni. Hann er stærsta höfrungategund í heimi.
- Háhyrningar finnast í öllum heimshöfum, allt frá norðurskautssvæðum til hitabeltishafa, og eru – miðað við flatarmál – annað útbreiddasta spendýrið í heiminum á eftir manninum.
- Háhyrningar geta synt á allt að 56 km/klst.
- Tarfarnir verða allt að 10 metrar að lengd og geta vegið u.þ.b. 10.000 kg.
- Þeir lifa jafnan í fjölskylduhópum með um 10-50 dýrum og geta náð 90 ára aldri.
- Háhyrningurinn er á toppi fæðukeðjunnar – þ.e. rándýr efst í fæðukeðjunni sem étur önnur stór dýr.
Heimild: Whale and Dolphin Conservation
Örvæntingarfullar mæður stjórnuðu för
Áður höfðu vísindamenn gert ráð fyrir að aðeins stærstu og sterkustu tarfarnir gætu drepið risastóra steypireyði. Ef það væri á annað borð hægt.
En samkvæmt þessum nýju uppgötvunum voru það kýrnar sem voru sérlega árásargjarnar og voru í fararbroddi í árásunum því þær voru í örvæntingu sinni að finna æti handa afkvæmum sínum.
Vísindamenn hafa áður séð háyrninga drepa nánast allar aðrar helstu hvalategundir, en aldrei steypireyði – fyrr en nú. Þeir kalla árásirnar þrjár stærstu árekstra jarðar á milli rándýrs og bráðar.