Þú kannast kannski við tilfinninguna sem fylgir því að fletta gegnum gömul myndaalbúm og sjá þar mynd af einhverjum sem þú hefur ekki séð áratugum saman. Nafnið er kannski gleymt en þú manst að þið voruð nágrannar og lékuð ykkur saman.
Nú hefur ný rannsókn vísindamanna hjá John Hopkins-háskóla og Kaliforníuháskóla sýnt fram á að simpansar og bonoboapar geta þekkt ættingja og vini sem þeir hafa ekki séð í aldarfjórðung.
Viðurkenndir fjölskyldumeðlimir eftir 26 ár
Rannsóknin var gerð á simpönsum og bonoboöpum í dýragörðunum í Edinborg í Skotlandi, Planckendael í Belgíu og Kumamoto í Japan. Notaðar voru myndir af öpum sem ýmist voru dauðir eða fluttir úr dýragörðunum og rannsóknaraparnir höfðu ekki séð í a.m.k. níu mánuði.
Aparnir voru lokkaðir inn í sérstakt herbergi með því að bjóða þeim djús og meðan þeir sötruðu veitingarnar voru þeim sýndar myndir af tveimur öpum. Önnur var af gömlum kunningja en hin af alveg óþekktum apa.
Með hjálp innrauðra augnamyndavéla gátu rannsakendur séð hvaða myndir aparnir stöldruðu lengst við.
Innrauðar myndavélar fylgdust með augnhreyfingum apanna og þar með var hægt að mæla hvert aparnir horfðu og hve lengi þeir skoðuðu hvora mynd.
Og aparnir reyndust horfa miklu lengur á vini eða ættingja sem þeir þekktu, alveg án tillits til þess hve lengi aðskilnaðurinn hafði varað. Lengstum tíma vörðu þeir til að skoða myndir af öpum sem þeir höfðu haft náin og góð tengsl við.
Þegar fremur loðinn franskan hermann rak á land í grennd við enska bæinn Hartlepool á meðan Napóleonsstríðin geisuðu, féll þeim innfæddu allur ketill í eld.
Merkilegast þótti að bonoboapynjan Louise skyldi þekkja systur sína Lorettu og Erin frænku sína en þær hafði hún ekki séð í meira en 26 ár.
Niðurstöðurnar sýna að félagslegt minni mannapa nær a.m.k. 26 ár aftur í tímann og þeir virðast því langminnugastir allra dýra.