Það er áliðið dags í bandarísku borginni Atlanta í apríl árið 2010. Einstæða móðirin Raquel Nelson er með fangið fullt af matvöru þegar hún stígur út úr strætisvagninum með börnin sín þrjú. Börnin horfa yfir að útidyrunum heima hjá sér rétt hinu megin við götuna og hlakkar til að koma heim.
Þar sem litla fjölskyldan stendur á umferðareyjunni sleppir yngsti drengurinn hendinni á móður sinni. Eldri systir hans hefur séð bil í umferðinni og nú fylgir þriggja ára drengurinn í kjölfarið. Áður en Raquel nær að bregðast við verður sonurinn fyrir bíl. Hann deyr á staðnum.
Í kjölfarið þarf ökumaðurinn að afplána sex mánaða fangelsi fyrir ölvunarakstur og að flýja af vettvangi en Raquel á yfir höfði sér þriggja ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi – og vegna þess að fjölskyldan notaði ekki gangbrautina 500 metrum neðar á götunni.
Harður refsirammi er afleiðing af lögum sem voru sett á 2. áratugnum í Bandaríkjunum og beinast að gangandi vegfarendum. Komdu með okkur til þess tíma þegar gangandi vegfarendur voru hraktir af götunum og stimplaðir sem ráfandi flækingar.
Færibandið skóp öld bílsins
Þó að bifreiðin væri löngu komin fram á sjónarsviðið í upphafi 20. aldarinnar gátu aðeins fáir Bandaríkjamenn leyft sér að aka um í vélknúnum farartækjum.
En nú gátu margir skipt hestinum út fyrir Ford. Í stórborgunum fækkaði hestum um helming og þegar kom fram yfir 1920 voru aðeins þrjú til fimm prósent af flutningatækjum dregin af hestum.
Í St. Louis voru sem dæmi skráð 16.000 vélknúin ökutæki árið 1916 en aðeins sjö árum síðar voru þau yfir 100.000. Í Chicago tífaldaðist fjöldi vélknúinna ökutækja frá 1911 til 1921.
Þessa fjölgun má eigna kaupsýslumanninum Henry Ford sem breytti bílaframleiðslu þegar hann hóf að nota færibönd í bílaverksmiðju sinni í Detroit árið 1913.
Nýja framleiðsluaðferðin stytti framleiðslutíma Ford módel T úr 12 klukkustundum í 90 mínútur og kostnaður – og þar með söluverð – lækkaði töluvert.
Í upphafi 20. aldar voru götur Bandaríkjanna hrærigrautur af gangandi vegfarendum, söluvögnum, hestakerrum og börnum að leik.
Sprenging í fjölda látinna á götunum
Í upphafi 20. aldar var götumyndin full af hestvögnum, sporvögnum, götusölum og hjólreiðamönnum. Í íbúðahverfunum var ekki óalgengt að sjá börnin leika sér á götunni en tilkoma bílsins gerði götuleikina hættulega.
Kemur barnið mitt heim úr skólanum í dag – á lífi?” skrifaði áhyggjufull móðir í dagblaðið The Outlook um hið breytta ástand.
Einn vordag árið 1920 voru hinn 9 ára gamli Leon Wartell og félagar hans að leika sér með bolta á gangstéttinni í íbúðahverfi í Fíladelfíu þegar bíll kom fyrir hornið á miklum hraða. Ökumaðurinn missti stjórn á bílnum og hann lenti á kantsteini og valt. Leon varð undir bílnum.
Þótt drengurinn væri sóttur af sjúkrabíl var ekki hægt að bjarga lífi hans – Leon lést af sárum sínum á leið á sjúkrahús.
Árið 1900 létust aðeins 36 Bandaríkjamenn í bílslysum en þeim fjölgaði hratt. 25 árum síðar lést 20.771 Bandaríkjamaður í bílslysum. Oft voru það gangandi vegfarendur og börn eins og Leon sem greiddu hæsta verðið fyrir ferðafrelsi bíleigenda.
Í árdaga bifreiðarinnar í byrjun 20. aldar voru menn langt frá því sammála hvaða efni átti að knýja bifreiðar.
Í borgum með yfir 25.000 íbúa voru gangandi vegfarendur árið 1925 meira en tveir þriðju hlutar þeirra sem fórust í umferðinni. Þremur árum síðar urðu 8.246 gangandi vegfarendur fyrir bílum í Fíladelfíu einni saman – helmingurinn var börn undir 16 ára aldri.
Það, hve margir fórust í umferðinni olli gremju meðal bæjarbúa og beindist reiði þeirra fyrst og fremst að bílnum sem margir litu á sem óboðinn gest á götunum.
„Hinn gangandi vegfarandi hefur neyðst til að lúta harðstjórn ökumannsins“, segir í lesendabréfi dagblaðsins St. Louis Star.
Annar lesandi taldi að gangandi vegfarendur yrðu að standa saman gegn „ökuníðingunum“ og krefjast réttar síns á götunum.
Samfélagið hóf baráttu gegn hraðanum
Ökumenn og gangandi vegfarendur stóðu hvor í sínu horni. Nokkrar öryggisherferðir reyndu að sameina þá með því að höfða til beggja aðila en erfitt var að finna sameiginlegan farveg: börn notuðu götuna sem leikvöll á meðan ökumenn vildu keyra hratt.
„Þeir sikksakka yfir götur borgarinnar og neita að halda sig við gatnamótin og hunsa eigið öryggi“.
Skilgreining á göturáfurum (Jaywalkers) frá 1913.
Ökumenn sökuðu gangandi vegfarendur um að vera gamaldags og skilja ekki nýja tíma.
Þrátt fyrir að gangbrautir, umferðarljós og fleiri öryggisráðstafanir hafi verið teknar upp í upphafi 3. áratugarins hélt dauðsföllum í umferðinni áfram að fjölga.
Samt stóðu lögregla, dómstólar og almenningsálitið með gangandi vegfarendum:
„Það verður að stjórna hinni geðveiku löngun til að keyra hratt og ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að stöðva hana,“ lofaði dómari í Fíladelfíu.
Kollegi hans í Atlanta tók þátt í mótmælakórnum og sagði að mikilvægast til að auka öryggi væri „að hægja á ökumönnum sem eru að myrða karla, konur og börn“.
Árið 1923 skrifuðu 42.000 manns í Cincinnati undir áskorun um að lækka ætti hraða bíla í 40 km/klst.
Bílasalar fylltust skelfingu, því hraðatakmörkun myndi spilla akstursgleðinni – og draga úr bílasölu. Þess vegna völdu þeir að snúa gagnrýninni að gangandi vegfarendum.
Gangandi vegfarendum var kennt um
Tungumálið fékk afgerandi vægi í baráttu bíleigenda gegn gangandi vegfarendum og hugtakið „jaywalker“ (sem mætti þýða sem „göturáfari“) var fundið upp um gangandi vegfarendur og lýsti þeim sem hópi vandræðamanna.
Leikarar klæddir sem trúðar hlupu um götur New York borgar þar sem þeir urðu fyrir Ford módel T á lágum hraða. Sýningin átti að sýna hversu heimskulegt göturáf var.
Í einni skilgreiningu orðsins var sagt að „jaywalker“ væri „fólk sem er svo vant að fara yfir tún og heimreiðar að það sikksakkar yfir götur borgarinnar og neitar að halda sig við gatnamót og gönguleiðir og hunsar eigið öryggi“.
Bílasalar fengu skátana til að útdeila bæklingum með óhróðri um þetta háttalag. Börnin stóðu tilbúin að stinga blaði í hönd sérhvers sem fór yfir á rauðu.
Á götum New York borgar hlupu leikarar, klæddir sem trúðar um göturnar til að sýna hversu heimskulega gangandi vegfarendur hegðuðu sér.
Á hverjum degi urðu einhverjir trúðanna fyrir bílum sem var hluti af sýningunni. Götuleikhúsið átti að sýna hinn almenna gangandi vegfaranda sem fáfróðan vitleysing.
Bílaiðnaðurinn sneri viðhorfunum
„Gangandi vegfarendur verður að fræða, svo þeir skilja að bíllinn hefur réttindi“, lét bílaframleiðandinn George M. Graham hafa eftir sér árið 1924 en hann var formaður öryggisnefndar iðnaðarsamtakanna National Automobile Chamber of Commerce (NACC).
Notkun á hugtakinu „jaywalker“ féll víða í grýttan jarðveg.
Dagblaðið New York Times brást hart við þessari „ástæðulausu“ árás á gangandi vegfarendur og fannst orðið „viðbjóðslegt“.
Almennt fjölluðu dagblöð landsins um gangandi vegfarendur sem saklausa aðilann og vörðu rétt þeirra til að ganga á götunum. Því varð bílaiðnaðurinn að grípa til harðari aðgerða og kaus að beina kröftum sínum gegn hinum öflugu dagblöðum.
Heimsins stærsti mótor er hápunkturinn á 200 ára afreksstarfi verkfræðinga sem umbylti öllum gerðum flutninga. Og þrátt fyrir að ný, rafknúin farartæki ryðji sér til rúms, státar brunahreyfillinn enn af stórkostlegum sigrum.
Bílaiðnaðurinn hafði áður náð góðum árangri í að hafa áhrif á fjölmiðla. Árið 1910 vildi Chicago Tribune – til mikillar óánægju iðnaðarins – ekki eyða dálkaplássi í að skrifa um byltingarkennd vélknúin farartæki. Söluaðilar hættu því að auglýsa í blaðinu og við það breytti aðalritstjórinn strax afstöðu sinni til bílabransans.
13 árum síðar sá forseti Chicago Motor Club, Charles Hayes tækifæri til að kenna gangandi vegfarendum sjálfum um öll slys sem þeir lentu í og hann keypti auglýsingapláss í The Chicago Tribune.
Chicago Motor Club safnaði slysatölum og birti þær í auglýsingum í blaðinu undir yfirskriftinni „Umferðarumræða“.
Í auglýsingunum mátti lesa að „hinn kærulausi, gangandi vegfarandi“ bæri ábyrgð á „tæpum 90 prósentum“ árekstra bíla og fólks. Auglýsingunum fylgdi slagorðið „hættið göturáfinu“.
Á grínteiknimyndum gerði bílaiðnaðurinn grín að „höggdeyfandi búningum göturáfara“ og kölluðu sjúkrahúsin „klúbbhús göturáfara“.
Göturáf afglæpavætt í fleiri ríkjum
Virginía var fyrsta bandaríska ríkið til að slaka á refsingum fyrir göturáf, 1. mars 2021. Síðan þá hafa Nevada og Kalifornía fylgt í kjölfarið.
VIRGINÍA: Göturáfarar látnir lausir
Síðan í mars árið 2021 er göturáf (jaywalking) ekki lögbrot. Lögreglan getur ekki lengur refsað gangandi vegfarendum ef eina brot þeirra er að fara yfir á rauðu ljósi.
NEVADA: Eyðimerkurríki afléttir banni
Fram til ársins 2021 áttu göturáfarar á hættu allt að sex mánaða fangelsi og sekt upp á 1.000 dollara í Nevada en síðan 2021 er hámarksrefsingin 100 dollara sekt.
KALIFORNÍA: Fleiri verða að velja að ganga
Ekki er lengur hægt að sekta gangandi vegfarendur í Kaliforníu fyrir að fara yfir götu, jafnvel þótt engin gangbraut sé. Stjórnmálamenn vona að þetta verði til þess að fleiri kjósi að ganga frekar en að keyra.
NEW YORK: Umdeild lög gagnrýnd
Í New York er sektin fyrir göturáf 250 dollarar. Sumir demókratar í borgarstjórn vilja afnema refsinguna vegna þess að minnihlutahópar fá frekar en aðrir refsingu fyrir að brjóta lögin sem nánast allir brjóta.
TEXAS: Þú gætir lent í samfélagsþjónustu
Ef þú ferð yfir götu í Texas þegar ljósið er rautt er refsingin allt að 200 dollara sekt. Ef þú ferð hins vegar yfir þjóðveg getur dómari dæmt þig til samfélagsþjónustu.
HAWAII: Umræða um umferðaröryggi
„Það eru engin skýr tengsl á milli löggjafar um göturáf og umferðaröryggis,“ segja félagasamtökin Hawaii Appleseed. Samtökin berjast fyrir afglæpavæðingu göturáfs.
Til að ná til enn fleiri kom bílaframleiðandinn Graham frá NACC með aðra hugmynd.
Í stað þess að eyða stórfé í blaðaauglýsingar stofnaði hann sína eigin fréttastofu sem sagði frá slysum.
Jafnvel áður en fyrstu greinarnar frá fréttastofu Grahams birtust í blöðunum var afstaða hans skýr:
„Flest bílslys eru gangandi vegfaranda að kenna, ekki ökumanni“.
Átak bílaiðnaðarins bar árangur eftir nokkra mánuði. Frá 1924 lögðu dagblöðin í langflestum tilfellum sök á umferðarslysum á gangandi vegfarendur.
Gangandi vegfarendur urðu að borga
Viðhorfsbreyting blaðanna voru góðar fréttir fyrir Paul G. Hoffmann – öflugan sölumann Studebaker bifreiða – en alls ekki nóg til að hann yrði fullkomlega ánægður.
Gangandi vegfarendur höfðu enn aðgang að akbrautinni – með slysum og umferðarteppum í kjölfarið sem setti strik í reikninginn fyrir bílasöluna. Hoffmann tók því frumkvæði að setningu nýrrar tegundar laga.
Ásamt fjölda hagsmunasamtaka tókst honum að fá sett á fyrstu lögin sem refsuðu gangandi vegfarendum. Það gerðist 24. janúar 1925 í Los Angeles – borginni með flesta bíla í heiminum.
Nú máttu íbúar aðeins ganga yfir götur á gangbrautum og aðeins í beinni línu.
Refsingin fyrir brot á lögunum var fimm dollara sekt. Fyrsta sektin var gefin út kl. tvö að morgni 25. janúar – tveimur tímum eftir að lögin tóku gildi.
Lobbyistar bílaiðnaðarins börðust fyrir því að löggjöf Los Angeles yrði látin ná til alls landsins.
Og árið 1928 fékk bílaiðnaðurinn sínu framgengt. Þaðan í frá voru borgirnar skipulagðar eftir þörfum og óskum bíleigenda – margar götur voru alls ekki með gangstéttum svo að göturáfararnir urðu að kaupa sér bíla eða fara í strætó.
Fyrst núna – næstum 100 árum síðar – er verið að afnema þessi lög og þar til nýlega áttu gangandi vegfarendur um öll Bandaríkin á hættu að verða sektaðir ef þeir voguðu sér út á götur.
Þar á meðal var hin 30 ára Raquel Nelson sem árið 2010 missti þriggja ára son sinn í umferðinni í Atlanta. Hótuninni um þriggja ára fangelsi var hins vegar breytt í samfélagsþjónustu og sekt.