Heilabilun er sívaxandi heilbrigðisvandamál sem talið er að hrjái minnst 55 milljón manns víðs vegar um heiminn í dag og sem gert er ráð fyrir að alls 153 milljónir muni þjást af árið 2050.
Vísindamenn um allan heim leggja fyrir bragðið ríka áherslu á að finna lausnir til að hefta þróun heilabilunarsjúkdóma áður en sjúkdómarnir fara að hefta heilastarfsemina og draga úr andlegri færni okkar.
Áður hefur verið bent á ofþyngd sem sökudólg hvað þróun alsheimers snertir. Nýverið birtist í vísindatímaritinu Alzheimer’s Association rannsókn sem leiddi í ljós að sérlegar breytingar á líkamsþyngd okkar geti haft áhrif á þróun elliglapa síðar á lífsleiðinni og að of léttu fólki geti einnig stafað hætta af.
Hvað er líkamsþyngdarstuðull?
Líkamsþyngdarstuðull, BMI (ens: Body Mass Index), er reiknaður sem þyngd mæld í kg/hæð2. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin notar eftirfarandi BMI-viðmið:
- <18,5 undirþyngd
- 18,5 til 24,99 eðlileg þyngd
- ≥25 ofþyngd
- ≥30 offita
Sérlegt mynstur kom í ljós
Í rannsókninni skoðuðu vísindamenn niður í kjölinn gögn úr langtímarannsókn sem gerð var á íbúum bæjarins Framingham í Massachusetts. Rannsóknin fylgdi þátttakendunum eftir í 39 ár og var líkamsþyngd allra skráð annað til fjórða hvert ár.
Rannsakendurnir völdu 2.405 einstaklinga á bilinu 30 til 50 ára sem ekki voru með elliglöp, úr hópi allra 14.000 þátttakenda og könnuðu þróun líkamsþungans, bæði meðal þeirra sem áttu eftir að veikjast að heilabilun og þeirra sem ekki áttu eftir að veikjast.
Niðurstöðurnar leiddu í ljós að þeim þátttakendum sem höfðu fitnað snemma á lífsleiðinni og svo grennst aftur á miðri ævi hætti meira til að þróa með sér elliglöp en þeim þátttakendum sem þyngdin hafði ekki sveiflast hjá.
Ofþyngd getur verið skaðleg fyrir heilann
Niðurstöðurnar komu Kasper Jørgensen ekki á óvart. Kasper er taugasálfræðingur við Þekkingarmiðstöð heilabilunar í Danmörku og fylgist grannt með öllum rannsóknum á sínu sviði.
Kasper segir að vitað sé að yfirþyngd og offita snemma á lífsleiðinni geti aukið hættu á elliglöpum sem skýrist af því að yfirþyngd geti leitt af sér of mikið insúlín í blóði og það geti reynst heilanum skaðlegt. Þá gefa aðrar rannsóknir jafnframt til kynna að undirþyngd, einkum seint á lífsleiðinni, geti aukið hættu á heilabilun.
Það sem er nýtt í þessu máli er að vísindamenn einblína nú á breytingar á líkamsþyngdarstuðli sem hluta af ferlinu og hafa bent á þá sem fyrst þyngjast og síðan grenna sig sem sérstakan áhættuhóp. Hann hvetur fólk til að hafa auga með aukatölunum á baðvoginni, einkum þegar miðjum aldri er náð.
„Við höfum greint sérlega mikla aukningu hvað snertir þróun heilabilunar síðar á lífsleiðinni meðal þeirra sem eru haldnir offitu eða ofþyngd á árunum milli 45 og 65 ára og fyrir vikið er brýnt að gæta þess að halda grönnu línunni á miðjum aldri, því hér er mikið í húfi“, segir hann.