Núverandi orkukreppa í Evrópu stafar af miklum skorti á olíu og gasi frá Rússlandi. Kreppuna er ekki hægt að leysa með kjarnorku.
Þrátt fyrir að kjarnorka sé fræðilega séð nokkuð einföld, er smíði kjarnaofns gríðarlega flókin og það tekur að meðaltali sjö ár að byggja nýtt kjarnorkuver. Væri ákvörðun tekin í dag um slíka smíði yrði rafmagn ekki farið að streyma um leiðslurnar fyrr en árið 2029.
Til lengri tíma litið gæti kjarnorka vissulega fullnægt allri rafmagnsþörf Evrópu en það yrði óheyrilega kostnaðarsamt. Árið 2021 framleiddu um 180 evrópsk kjarnorkuver samanlagt 883 teravatt-stundir af rafmagni. Samanlögð notkun álfunnar var hins vegar 4.032 teravatt-stundir.
Kjarnaofnar þyrftu að spretta upp út um allt
Eigi kjarnorka að anna allri eftirspurn Evrópubúa eftir rafmagni, þyrfti að fjór-eða fimmfalda framleiðsluna – þrátt fyrir að hún haldist óbreytt. Evrópa myndi þannig enda með minnst 800 kjarnorkuver.
Ef við höldum í núverandi vindmyllur, sólarsellur og vatnsorkuver og bætum upp skort á 1.478 teravatt-stundum með kolum, olíu og gasi, gætu um 300 ný kjarnorkuver dugað fyrir Evrópu.
En líklega myndi það aldrei borga sig.
Útreikningar á svonefndu Levelized cost of electricity, þar sem tekið er mið af öllum útgjöldum við smíði orkuvera, þá kemur í ljós að vindorka hefur verið ódýrari en kjarnorka frá árinu 2011 og sólarorka frá árinu 2014.