Vísindamenn frá CREMER stofnuninni eru búnir mótorhjólum og sverðum og fara í mánaðarlegar skoðunarferðir djúpt inn í frumskóga Kamerún. Ástæðan er að veiða og kryfja leðurblökur og safna apaskít.
Eftir að hafa náð í sýnin setja vísindamennirnir upp staðbundna bækistöð, kryfja dýrin og skrásetja allt. Sýnin eru svo send til höfuðborgar Kamerún, Yaoundé, og greind enn frekar.
Þótt einkennin séu mismunandi eiga allir helstu heimsfaraldrarnir það sameiginlegt að vera tengdir dýrum, það er að segja smitsjúkdómar sem hafa borist frá dýrum til manna.
Markmiðið er augljóst: Rannsóknarteymið rannsakar útbreiðslu veira og finnur ný veiruafbrigði svo hægt sé að vara við nógu tímanlega til að koma í veg fyrir nýjan heimsfaraldur.
VÍSINDAMENN VEIÐA LEÐURBLÖKUR Í SKJÓLI NÆTUR
Vísindateymið CREMER hefur sérhæft sig í að taka blóðprufur eða saursýni úr dýrum til þess að átta sig á veiruafbrigðum. Þegar nótt fellur á spenna vísindamennirnir út langt net sem notað er til að veiða í leðurblökur og taka úr þeim sýni, áður en þeim svo er sleppt lausum á nýjan leik.
KÓRÓNUVEIRUR ÞRÍFAST Í LEÐURBLÖKUM
Allt frá árinu 2016 hafa vísindamenn greint rösklega 200 ólíkar gerðir af kórónuveirum, auk hinna ýmsu gerða af þráðveirum (ebóla og Marburg) í leðurblökum. Sjö þessara veirutegunda hafa þegar borist í menn og þrjár þeirra hafa sýkt menn verulega.
VÍSINDAMENN TAKA SÝNI ÚRBRÁÐ VEIÐIMANNA
Litlar antílópur, svokallaðar kjarrantílópur, eru einnig taldar geta borið þráðveirur. Veiðimenn aðstoða við veiðar á dýrunum og vísindamenn taka síðan sýni úr dýrunum. Vísindafólkið kennir heimamönnum jafnframt hvernig forðast megi smit.
NÆLONSTRENGIR TIL HÖFUÐS LEÐURBLÖKUM
Minnstu leðurblökurnar eiga sér engrar undankomu auðið. Gríðarstórt net sem minnir einna helst á hörpu gerða úr nælonstrengjum, grípur leðurblökurnar á flugi. Úr netinu renna þær niður í eins konar léreftspoka þar sem vísindamennirnir hafa lítið fyrir að ná þeim.
HVÍTKLÆDDIR FÍNKEMBA NETAVEIÐINA
Vísindamenn í hvítum búningum með skurðstofugrímur stunda veiðar á leðurblökum. Starf þeirra felst í að greina hvort leðurblökurnar bera með sér ebólu, inflúensuafbrigði, mers-veiru, Marburg-veiru, covid-19 eða aðra lífshættulega sjúkdóma.
DÝRASKÍTUR LEYSIR RÁÐGÁTUR
Vísindamenn njóta aðstoðar afrískra pygmía við að rekja spor apanna. Leitin nær yfir 2.600 km2 stórt náttúruverndarsvæði í Campo Ma’an-þjóðgarðinum og stærð svæðisins gerir það að verkum að tekið getur nokkrar vikur að safna saursýnum úr 15 dýrum.
ÓLÖGLEGAR VEIÐAR HLUTI AF VÍSINDUNUM
Hreisturdýr, nagdýr og slöngur eru mikilvægur hluti af reynslubanka vísindamanna, jafnvel þótt veiðar á slíkum dýrum séu bannaðar. Sú staðreynd er líka ástæða þess að vísindamenn þegja yfir því hvar sýnin finnast.
SÝNI ERU VARÐVEITT Í RÚM 15 ÁR
Sýnin eru varðveitt í rúm 15 ár í blóðbanka í Yaoundé, höfuðborg Kamerún. Með því móti geta vísindamenn fylgst með þróun veiranna yfir tiltekið tímabil og borið eldri veirutegundir saman við þær nýfundnu.
MENN SMITUÐU GÓRILLUR AF COVID-19
Átta górillur eru hafðar í haldi í Mefou-þjóðgarðinum, þar sem fylgst er grannt með dýrunum, sökum þess að þau hafa smitast af covid-19. Dýr þessi sýna svo ekki verður um villst að maðurinn getur einnig borið smit í dýr og ógnað heilsu þeirra.