Um áratugaskeið hafa stjörnufræðingar leitað að óþekktri plánetu í sólkerfinu, hinni svonefndu Plánetu 9. Samkvæmt kenningunni ætti þessi pláneta að vera 13-26 sinnum lengra frá sólinni en ystu plánetur sem þekktar eru.
Pláneta 9 hefur aldrei fundist en brautir sex minni himinhnatta í útjaðri sólkerfisins þykja benda til að þessir hnettir verði fyrir áhrifum óþekkts himinhnattar sem gæti verið um tífalt þyngri en jörðin.
Sex smáhnettir afhjúpa Plánetu 9
Kenningin um hina óþekktu Plánetu 9 byggist á athugunum á brautum sex smáhnatta úti í Kúíperbeltinu. Brautir þeirra (blátt) verða ekki skýrðar öðruvísi en að smáhnettirnir verði fyrir áhrifum frá þyngdarafli stærri himinhnattar í mikilli fjarlægð (rautt) og á mjög aflangri braut um sólu.
Ef Pláneta 9 er til má líklega lýsa henni svona:
Gerð: Gaspláneta.
Þvermál: 2-4 sinnum jörðin.
Massi: 10 sinnum jörðin eða 0,6 sinnum Neptúnus.
Fjarlægð til sólar: 400-800 sinnum lengra en jörðin.
Sporbraut: 10.000-20.000 ár.
Veikleiki kenningarinnar um Plánetu 9 er sá að stjörnufræðingum hefur fram að þessu þótt ólíklegt að svo stór pláneta geti hafnað á stöðugri braut í svo mikilli fjarlægð frá sólinni. En nú sýna rannsóknir á fjarplánetu í 336 ljósára fjarlægð frá jörðu að það gæti sem best staðist.
Fjarpláneta líkist Plánetu 9
Þessi fjarpláneta kallast HD 106906 b og snýst um tvístirni sem aðeins er um 15 milljón ára gamalt.
Vísindamenn hjá Kaliforníuháskóla í BNA hafa fylgst með plánetunni síðan 2004 og geta slegið því föstu að braut hennar sé aflöng og stöðug og hún sé að meðaltali í 25 sinnum meiri fjarlægð frá tvístirninu en sem nemur fjarlægð Neptúnusar frá sólu – sem sagt ámóta fjarlægð og gæti verið frá sólinni út til Plánetu 9 í okkar sólkerfi.
Of stór fyrir staðsetningu
HD 106906 b er 11 sinnum stærri en Júpíter. Svo stórar plánetur geta ekki myndast í svo mikilli fjarlægð frá móðurstjörnunni og vísindamenn hafa þess vegna reynt að reikna út hvernig þessi pláneta gæti hafa myndast.
Nýrri plánetu slöngvað burtu
Fjarplánetan HD 106906 b myndaðist að líkindum skammt frá móðurtvístirninu en þeyttist síðan út á miklu fjarlægari braut. Svipuð örlög gætu hafa beðið ungrar plánetu í sólkerfi okkar.
1. Nýja plánetan nálgast móðurtvístirni sitt
Fjarplánetan HD 1065906 b myndast í gas- og rykskífu sem snýst hratt um tvístirnið. Núningsmótstaða í skífunni dregur úr hraða plánetunnar sem þá tekur að færast innar og nær móðurtvístirninu (græn ör).
2. Þyngdarafl tvístirnisins þeytir plánetunni út
Stjörnurnar tvær innst í sólkerfinu snúast hvor um aðra og það veldur miklum þyngdaráhrifum í grennd við þær. Þegar plánetan er komin mjög nálægt þeyta þessir kraftar henni út á við, frá tvístirninu (rauð ör).
3. Stjarna á leið hjá stöðvar spíralinn
Spíralhreyfingin fleytir plánetunni æ utar í hverri hringferð en áður en hún nær að yfirgefa sólkerfið alveg verður hún fyrir þyngdaráhrifum stjörnu sem á leið hjá (gul ör). Þyngdarafl ókunnu stjörnunnar beinir plánetunni á stöðuga en mjög aflanga braut (blá ör).
Þeir telja hugsanlegt að þyngdaráhrif tvístirnisins hafi þeytt plánetunni út á við í spíralhreyfingu en þriðja stjarna sem átt hafi leið hjá, hafi svo læst braut plánetunnar fastri.
Vísindamennirnir telja hið sama geta hafa orðið örlög Plánetu 9 skömmu eftir að plánetur sólkerfisins mynduðust.