Lifandi Saga

Frá böðli til hirðfífls: Hér eru 15 störf sem hafa horfið.

Hirðfífl, burðarfólk og púðurgerðarmenn. Hér áður fyrr voru ýmis störf í boði sem við þekkjum bara af afspurn. Hér fjöllum við um 15 þekktar starfsgreinar sem hafa horfið.

BIRT: 19/06/2023

1. HIRÐFÍFL – Niðurlæging fylgdi starfinu

Í þúsundir ára hafa konungar og furstar haft í þjónustu sinni menn sem höfðu þann eina starfa að vera með glens.

 

Í Rómarveldi til forna voru hirðfíflin gjarnan dvergar. Starf þeirra fólst í að skemmta gestum höfðingjanna með bröndurum og öðru glensi.

 

Á 12. öld komst í tísku í furstahöllum í Evrópu að vera með hirðfífl. Þessa fyndnu náunga var yfirleitt auðvelt að bera kennsl á en þeir klæddust litríkum búningum, voru með hanakamb og bjöllur á sér.

Þegar líða tók á 18. öldina breyttist samfélagsvitundin víða og fólk fór að kenna í brjósti um vesalings hirðfíflin. Starf þetta var fyrir vikið lagt niður víðast hvar.

Starf þetta fengu yfirleitt dvergar, fáráðar eða krypplingar og að launum hlutu þeir fæði og húsnæði við hirðina.

 

Hversu ábatasamt starfið var réðst af duttlungum furstans. Nikolaus Ferry, dvergur og hirðfífl við pólsku hirðina á 18. öld, var eitt sinn beðinn um að standa uppi á köku sem líktist virki meðan á kvöldverðarboði stóð. Kvöldverðargestirnir köstuðu síðan í hann brjóstsykursmolum.

Ef marka má miðaldahandbækur sem varðveist hafa, samanstóð gott byssupúður af sex hlutum saltpéturs, einum hluta brennisteins og þó nokkru magni af linditréskolum.

2. PÚÐURGERÐARMAÐUR- Þvag bætti öryggið

Enginn veit fyrir víst hvenær byssupúðrið barst til Evrópu en árið 1267 lýsti enski heimspekingurinn Roger Bacon fyrstur Evrópubúa þessari kínversku uppfinningu sem gerði m.a. kleift að skjóta byssukúlum úr fallbyssum.

 

Starf púðurgerðarmanna var orðin viðurkennd starfsgrein á 14. öld. Starf þeirra fólst í að blanda saman saltpétri, brennisteini og viðarkolum þannig að úr yrði byssupúður.

 

Fyrst í stað voru innhaldsefnin mulin vandlega í mortéli en þegar frá leið og eftirspurnin jókst á 15. öld voru settar á laggirnar sérstakar púðurmyllur.

 

Þar unnu margir púðurgerðarmenn við það að blanda innihaldsefnunum í stórum trogum þar sem allt síðan var steytt saman með stórum þjöppum sem knúnar voru með mylluhjólum eða ösnum.

 

Til að komast hjá sjálfsíkveikju bleyttu púðurgerðarmennirnir púðrið í sífellu með vatni, víni eða þvagi. Að lokum var púðrið svo þurrkað í sérlegum þurrkhúsum.

 

Þegar líða tók á 19. öldina misstu púðurgerðarmennirnir þetta lífsviðurværi sitt jafnframt því sem afkastameiri sprengiefni komu á markaðinn, m.a. dýnamít árið 1867.

3. BÖÐULL- Glæpamenn gerðir höfðinu styttri

Illa þokkaðir og undirborgaðir – störfin erfðust frá föður til sonar.

Þegar borgararnir í Evrópu voru dæmdir til dauða á miðöldum voru það böðlar sem sáu um aftökurnar. Þeir hálshjuggu brotafólkið en beittu þó stundum öðrum gerðum refsingar, svo sem eins og beinbrotum, þar sem öll bein líkamans voru brotin.

 

Sagnfræðingar gera því skóna að starfsgreinin hafi fyrst orðið til í borgum Evrópu á 13. öld, þar sem valdhöfunum hafi fundist ósiðfágað að sinna aftökunum sjálfir. Böðlar og fjölskyldur þeirra lifðu í útjaðri samfélagsins og var m.a. oft meinað að sækja messur.

 

4. PLÖTUSMIÐUR – Riddarar höfðu þörf fyrir brynjur

Plötubrynjur samanstóðu af mörgum hlutum sem þurftu að passa saman þannig að riddarinn gæti hreyft sig meðan á bardaga stóð.

Starf plötusmiða á öldum áður fólst í að útbúa brynjur fyrir riddara.

 

Þegar byssupúður varð algengt á 13. öld nægðu hringabrynjurnar ekki lengur sem líkamsvörn og riddararnir höfðu þörf fyrir herklæði sem huldu þá alveg. Plötusmiðir urðu eftirspurð starfsstétt og með hamar og steðja að vopnum smíðuðu þeir líkamsvarnir fyrir efnaða viðskiptavini sína. Stálbrynjurnar voru festar saman með leðurólum og þegar það hafði verið gert sendu plötusmiðirnir brynjurnar áfram til þeirra sem fægðu þær og skreyttu jafnvel með gulli.

 

Eftir því sem skotvopn urðu öflugri á 17. öld þurftu flestir plötusmiðir hins vegar að leita fyrir sér á nýjum miðum.

Hinrik 8., Englandskonungur, var borinn um í burðarstól. Sagan segir að sá burður hafi ekki verið á hvers manns færi og þurft hafi fjóra nautsterka menn í verkið, því kóngurinn var orðinn svo feitur.

5. BURÐARFÓLK – Þjónustan bauðst fótgangandi fólki

Fyrir blómaskeið sendibíla og hjólasendla urðu kaupmenn og iðnaðarmenn að flytja varning sinn fótgangandi. Dugmiklir atvinnurekendur fundu að margir höfðu þörf fyrir þjónustu þeirra sem þeir sinntu fótgangandi.

 

– Koppaberar

Á 18. öld gengu sérlegir menn og konur um með fötur sem fólk gat gert þarfir sínar í gegn greiðslu. Meðan á athöfninni stóð skýldi koppaberinn viðskiptavinum sínum fyrir forvitnu fólki sem leið átti hjá.

 
– Luktarberar

Á 17. og 18. öld gengu luktarberar um göturnar í París og London og lýstu upp dimmar göturnar.

Greinilegur munur var á vinnusiðferðinu í borgunum tveimur, því í París voru luktarberarnir á bandi lögreglunnar og kjöftuðu frá minnstu yfirsjón sem þeir urðu vitni að en starfsbræður þeirra í Lundúnaborg voru aftur á móti handgengnir glæpamönnum, líkt og sagnfræðingurinn William Sidney lýsti árið 1892:

„Ef þeir urðu vitni að einhverju misjöfnu af hendi samsærismanna þeirra, slökktu þeir ljósið og létu sig hverfa út í myrkrið“.

 
– Burðarstólaberar

Á 17. öld komst í tísku í stórborgum Evrópu, m.a. í Tórínó, Brussel og London, að láta bera sig um í burðarstólum í stað þess að ferðast ávallt í hestvögnum. Burðarstólar samanstóðu af tveimur burðarstöngum og aflokuðum klefa með dyrum og gluggum, þar sem farþeginn lét fara vel um sig í hægindastól. Síðan gripu tveir burðarmenn um stangirnar, annar að framan og hinn að aftan og þutu af stað þangað sem farþegann fýsti að fara.

6. BRÉFSKREYTARI –Listgreinin leiddi af sér skapalón

Á meðan munkar á 11. öld höfðu myndskreytt trúarleg rit með fjaðurpenna, bleki og penslum varð á 15. öld markaður fyrir teikningar sem ekki voru trúarlegs eðlis, svo og myndskreytingar í m.a. bréfum.

 

Bréfskreytarar unnu í litlum verkstæðum í Þýskalandi þar sem þeir reyndu að anna þessari síauknu eftirspurn. Á vinnuborðum þeirra urðu til fagurlega skreytt skjöl, heillaóskakort, dagatöl, skjaldarmerki, svo og spil.

 

Bréfskreytararnir teiknuðu og máluðu á það sem þeim var uppálagt að skreyta, oft með því að styðjast við skapalón. Þeir kættust því að vonum þegar á markað komu tréstimplar sem gerðu þeim kleift að fjöldaframleiða listaverk sín.

Bréfskreytarar fengu hugmyndir að skreytingum sínum í litríkum og fagurlega skreyttum bókum miðalda.

Bókstafir og myndskreytingar voru skorin í viðarbúta sem bréfskreytararnir notuðu til að þrykkja svonefndar tréristubækur með, þar sem heil síða var þrykkt í einu lagi.

 

Þó svo að Gutenberg fyndi upp bókagerðarlistina árið 1455 sem fólst í notkun hreyfanlegra bókstafa, héldu bréfskreytarar sínum störfum áfram eitthvað fram á 16. öldina en síðustu tréristubækurnar eru taldar stafa frá um 1530.

Spádómar stjörnusalanna gegndu sama hlutverki og spádómar í kínverskum happakökum.

7. STJÖRNUSALI – Páfagaukur fiskaði upp hamingjuna

Í höfuðborg Austurríkis, Vínarborg, gátu íbúarnir hæglega rekist á svonefnda stjörnusala. Þeir seldu þó alls ekki himintunglin heldur stjörnuspár, spádóma og happabréf með happdrættisnúmeri sem kaupandinn gat unnið vinning út á.

 

Þessir svokölluðu stjörnusalar voru þekktir í Vínarborg, þar sem þeir voru auðþekkjanlegir á kassa sem þeir báru framan á sér. Þegar „stjarna“ hafði verið seld þyrptist forvitinn skarinn um stjörnusalann, því hann hafði á sínum snærum páfagauk eða hvíta mús sem dró happabréf af handahófi upp úr kassa hans.

 

Stjörnusalar duttu úr tísku eftir síðari heimsstyrjöld og hurfu af götum Vínarborgar. Síðasti stjörnusalinn þrjóskaðist þó við í Mariahilfer Straße þar til hann gat ekki sinnt starfi sínu lengur fyrir aldurs sakir.

8. SKIPASMIÐUR – Verkamenn unnu sér til óbóta á höfninni

Í hafnarborgun Evrópu byggðu heilu hóparnir af skipasmiðum skip sem notuð voru til að kortleggja heimshöfin sjö.

Áður en járnskip ruddu sér til rúms á 19. öld störfuðu þúsundir skipasmiða við það daglega að byggja gríðarstór timburskip.

„Ég þekki enga starfsgrein þar sem mannslíkaminn vinnur jafn margvíslega vinnu og við á um skipasmíði. Skipasmiðir beita kröftunum á svo margan hátt í daglegri vinnu að fötin rifna utan af búkum þeirra“.

 

Þannig lýsti Hollendingurinn Cornelius van Yk starfi skipasmiða í bók sem hann ritaði um skipasmíðar árið 1697. Á tímum landkönnuðanna voru timburskip smíðuð á stórum afgirtum byggingarsvæðum nærri sjónum.

 

Þar erfiðuðu smiðir og léttadrengir frá klukkan fimm að morgni til sjö að kvöldi á sumrin en að vetrinum frá klukkan sex og fram í myrkur og notuðu mestmegnis einkar einföld verkfæri í líkingu við axir, hamra og sagir. Starfsreglurnar voru mjög strangar og þeir sem mættu of seint til vinnu eða höfðu gert verkfærin bitlaus voru umsvifalaust hýrudregnir.

„Aðeins sterklega byggður, heilbrigður maður getur þolað slíka vinnu og lifað af óþægindin“.
Cornelius Van Yk um lífið sem skipasmiður.

Skipasmíðin hófst með því að kjölurinn var útbúinn. Þá voru reistir forstafn og afturstafn, svo og þverbönd en innanverð grind skipsins samanstóð af þessum hlutum. Þverböndin voru svo klædd með borðum. Sama gilti um borðin og með allt annað timbur í skipið, allt var sagað úr trjábolum með stórum sögum sem tveir menn stjórnuðu.

 

Að lokum þurfti að tjarga skipið, bæta við þilfari og skotgötum fyrir fallbyssurnar áður en unnt var að sjósetja það. Aðrar viðbætur á borð við mastur, segl og reipi voru svo í höndunum á sjómönnunum.

 

Van Yk benti á að skipasmíðin sjálf væri einkar erfitt starf sökum þess að öll vinnan væri innt af hendi utanhúss. Þar voru skipasmiðirnir óvarðir fyrir hagléli eða steikjandi hita:

 

„Aðeins sterklega byggður, heilbrigður maður getur þolað slíka vinnu og lifað af óþægindin“.

Pöntunarseðill skipasmiðanna

Skipasmiðir sáu um að smíða stór hafskip sem á seglskipatímabilinu voru m.a. notuð af fróðleiksgjörnum landkönnuðum og ötulum kaupmönnum. Sumar skipategundirnar á skipasmíðastöðvunum voru pantaðar aftur og aftur.

Galíon

16.-18. öld: Skipið flutti m.a. silfur frá Ameríku til Spánar.

Galías

18. öld: Galeiða með allt að 32 árum sem einnig var útbúin seglum.

Karavella

15.-16. öld: Tvö af skipum Kólumbusar árið 1492 voru karavellur.

Barkskip

19. öld: Skip þetta var það allra algengasta árið 1800.

9. LOFTVOGASMIÐUR – Tæknilegir galdramenn spáðu fyrir um veðrið

Þegar menn fyrst gerðu sér grein fyrir loftþrýstingi fóru þeir að geta spáð fyrir um veðrið í fyrsta sinn. Fólk beið í röðum eftir að geta keypt handhægar loftvogir.

Á 17. öld fundu snjallir uppfinningamenn upp aðferð til að mæla loftþrýstinginn.

Á fyrri hluta 17. aldar komust vísindamenn að raun um að loftið fæli í sér þyngd sem breyttist með veðrinu og að unnt væri að mæla „þyngd“ loftsins með t.d. kvikasilfri í glerpípu.

 

Uppgötvun þessi leiddi af sér markað fyrir færanlega loftþrýstingsmæla sem enski eðlisfræðingurinn Robert Boyle fór að kalla „barometer“ á ensku árið 1663.

 

Einna fyrstur til að framleiða loftvogir var Otto von Guericke (1602-1686) en hann var vísindamaður og borgarstjóri í þýsku borginni Magdeburg. Í stað þess að notast við kvikasilfur fyllti hann glerpípu sína hins vegar af vatni. Örlítil mannsstytta flaut efst í vatninu og benti á kvarða á glerinu sem sagði til um loftþrýstinginn.

Líkt og við á um úrsmiði útheimti starf loftvogarsmiðsins mikla lagni og nákvæmni.

Fólk sem var háð veðrinu tók uppfinningu þessari fagnandi en þeirra á meðal var þýski landbúnaðarfræðingurinn Johann Georg Krünitz sem lýsti því hrifinn, árið 1773, hvernig uppfinningin gerði honum lífið léttara:

 

„Loftvogin er einkar gagnlegt og mikilvægt tæki sem gerir kleift að sjá fyrir veðrabreytingar áður en þær eiga sér stað og þannig gefst bændum og garðyrkjufólki kostur á að haga sér í samræmi við veðrið þegar stendur til að gróðursetja, sá eða uppskera“.

Ferdinand Raimund  var austurískur leikari og rithöfundur.

Veðurfræðingur endaði sem leikhúshetja

Á 19. öld voru nýju veðurfræðingarnir í svo miklum hávegum hafðir að loftvogarsmiðir gátu komið fram sem aðalpersónur á sviðum leikhúsanna.

 

Í gamanleik Ferdinands Raimunds, „Loftvogarsmiðurinn á Töfraeyju“, frá árinu 1823 rekur loftvogarsmiðinn í miklu hvassviðri yfir til eyju einnar þar sem honum eru gefnar töfrakenndar gjafir.

10. KAÐLARI – Starfið útheimti fatnað án hnappa

Í mörgum starfsgreinum, einkum á sviði skipasiglinga, hafði verið þörf fyrir heilu kílómetrana af reipi fyrir iðnbyltinguna. Kaðlarar sinntu þessari framleiðslu.

 

Á allt að 400 metra langri kaðlarabraut var hampþræði vafið upp í kaðlaþætti sem snúið var upp í reipi með notkun svokallaðs sjálfdráttarbúnaðar. Á endanum á kaðlarabrautinni var að finna handfang sem kaðlarinn og aðstoðarmenn hans notuðu til að snúa upp á þræðina.

Kaðlarar hurfu á 18. öld þar sem hægt var að búa til reipi á skilvirkari hátt í verksmiðjum.

Starfsmennirnir gengu í fatnaði án hnappa, því að öðrum kosti var hætt við að þeir væfust með inn í kaðalinn.

 

Til eru heimildir um kaðlarabrautir frá árinu 1265 í Hamborg en í hinni þekktu kaðlarabraut, Reeperbahn í Skt. Pauli, voru m.a. framleiddir kaðlar sem voru fluttir út til Norðurlandanna.

Hinn þekkti rithöfundur H.C. Andersen náði mikilli leikni á sviði „svartlistarinnar“ á 19. öld.

11. SKUGGAMYNDASKERI –  Nýjungagjarnir listamenn skáru út í pappa

Klippimyndalistin barst frá Austurríki til Frakklands á 18. öld. Listin fólst í að teikna útlínur á svartan pappír og skera síðan út.

 

Gárungarnir í Frakklandi nefndu strax þessa sparlegu listgrein í höfuðið á afar sparsömum fjármálaráðherra landsins en hann hét Étienne de Silhouette (1709-1767).

 

Listamenn um alla Evrópu tileinkuðu sér þessa tískustrauma og hófu að teikna og klippa út skuggamyndir sem í nokkra áratugi gegndu hlutverki eins konar fyrirrennara ljósmyndarinnar og prýddu allt frá setustofum fólks yfir í myndaalbúm þess.

12. HROSSAKAUPMENN – Svikulir kaupmenn lituðu hrossin

Áður en bifreiðar og dráttarvélar litu dagsins ljós á 20. öld gátu dugmiklir hrossakaupmenn grætt heilmikið á því að selja og kaupa hesta.

Ef hrossakaupmaður fékk á sig orð fyrir að vera svikull kölluðu nágrannarnir hann „hestaprangara“. Slíkir menn lifðu af því að kaupa og selja hross og fengu að öllu jöfnu meira fyrir hrossin en þau voru virði.

 

Árið 1822 lýsti hrossakaupmaðurinn Abraham Mortgens frá Dessau tortryggilegum aðferðum sínum í bókinni „Leyndarmál hrossaprangarans“. Mortgens kvað prangarana lita faxið og feldinn á gömlum bikkjum til að yngja þær upp.

 

Útjöskuð trunta gat enn fremur lifnað heilmikið við væri pipar stungið í endaþarm hennar, uppljóstraði hann:

 

„Pipar, það er hinn sanni andi hrossasölumannsins“.

 

13. SKEMMTIKRAFTAHÓPUR – Hæfileikar voru tekjulind

Allar götur frá miðöldum voru hópar skemmtikrafta algeng sjón í borgum og bæjum. Þeir ferðuðust milli staða og höfðu lífsviðurværi sitt af því að troða upp með alls kyns skemmtiefni.

 

Á þessum tíma voru fæstir læsir og skrifandi og fyrir vikið voru þessir skemmtikraftar einnig uppspretta frétta og slúðursagna. Betri borgarar litu raunar á skemmtikraftana sem hneykslanlegt fólk því það seldi sig fyrir peninga.

 

Á 20. öldinni, þegar fjölleikahús og revíur voru orðin útbreidd í borgum, fengu margir þessara skemmtikrafta fast starf og hurfu af torgunum.

Fjöldinn streymdi að

Flestir gátu fundið eitthvað sér til skemmtunar þegar skemmtikraftarnir komu í bæinn.

Fimleikamenn

Köstuðu hnífum og sverðum. Þeir hinir sömu iðkuðu bakfallsstökk, léku listir sínar með diska og gleyptu eld.

Leikarar

Hermdu m.a. eftir prestum og tróðu stundum upp sem búktalarar.

Dýratemjarar og tónlistarfólk

Skemmtu með lírukassa, dansandi birni og tamda hunda.

Óvinsælir fylgisveinar

Betlarar, skottulæknar og spákonur fylgdu oft í fótmál skemmtikraftanna.

Glókolla sem eru aðeins níu cm á hæð, gátu fuglafangararnir sjálfir veitt á prik með lími á endanum en sá fugl er alls óhræddur við menn.

14. FUGLAVEIÐIMENN – Fuglar voru tældir með lími

Strax í fornöld varð til markaður fyrir fuglsfjaðrir til skreytinga, æta fugla sem matreiddir voru, svo og söngfugla til skemmtunar. Fuglaveiðimenn sérhæfðu sig í veiði fugla og í þeim tilgangi notuðu þeir oft lím.

 

Aðferðin gerði það að verkum að rómverska skáldið Óvíð (43 f.Kr.-18 e.Kr.) hrópaði upp yfir sig: „Ekki narra fugla með lími smurðum lurki!“.

 

Þrátt fyrir umkvörtun Óvíðs héldu fuglaveiðarar áfram að útbúa lím úr mistilteinsberjum sem þeir mökuðu á greinar sem stungið var inn í runna, nærri jörðu. Síðan var búrfuglum komið fyrir rétt við til að narra fuglana í límgildruna.

15. TIMBURFLEYTARI – Sleipt yfirborð dró menn til dauða

Allt fram á seinni hluta 20. aldar störfuðu timburfleytarar við það að fleyta trjám niður eftir ánum í Evrópu. Trjábolir voru bundnir saman í fleka í ám nærri skógunum og gat hver fleki verið allt að 10 m breiður og 25 m langur.

 

Timburfleytararnir stýrðu þessum skammtímabátum, einum og einum í senn eða mörgum samtengdum í einu, með löngum stjökum fremst og aftast.

Timburfleyta hvarf sem starfsgrein þegar vegakerfið í Evrópu fór að geta borið flutningabifreiðar.

Uppi á flekunum voru minnst tveir fleytarar en á þeim alstærstu gátu þó verið allt að 20 menn.

 

Stundum fluttu prammar þessir einnig aðrar vörur í leiðinni eða jafnvel farþega, ef flekarnir voru nægilega stórir.

 

Starf þetta hentaði einkum ungum, sterkbyggðum karlmönnum sem voru alls óhræddir við að taka áhættu. Jafnvel þótt fleytararnir væru með járngadda neðan á stígvélum sínum til þess að renna síður til á blautum trjábolunum, var alls ekki óalgengt að fleytarar féllu í árnar og straumurinn tæki þá.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: BJØRN BOJESEN

© Pennsylvania Academy of the Fine Arts, Shutterstock,© Look and Learn/Bridgeman Images,© Royal Armoury & shutterstock,© Look and Learn/Bridgeman Images,© Cleveland Museum of Art,© The Picture Art Collection/Imageselect,© The Protected Art Archive/Imageselect,© Stefano Bianchetti/Bridgeman Images,© David J. Green/Imageselect & Shutterstock,© Odense Bys Museer & Shutterstock,© The Metropolitan Museum of Art,© Imagno/Getty Images,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Læknisfræði

Ofvirkni í heilastöð veldur stami

Maðurinn

Rannsókn: Þetta er ástæðan fyrir því að börn læra hraðar en fullorðnir

Maðurinn

Heilinn kortlagður: Smásæ vefsýni sýna stórbrotin smáatriði

Náttúran

Af hverju er kalt í mikilli hæð?

Maðurinn

Hversu oft segjum við ósatt?

Lifandi Saga

Kjarnorkuógnin: Sovéskur kafbátur í skerjagarðinum

Alheimurinn

Lítið eitt um þyngdarkraftinn

Menning

Hverjir höfðu fasta búsetu í Machu Picchu?

Lifandi Saga

Hitler var á efnum alla seinni heimsstyrjöld

Jörðin

Af hverju virðist Grænland álíka stórt og Ástralía?

Lifandi Saga

Hversu góðir vinir eru Kína og Rússland? 

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.