Fyrir um 8.000 árum fluttist búferlum þjóðflokkur steinaldarbænda úr austri til Suður-Evrópu. Þar rákust bændurnir á hóp upprunalegra íbúa svæðisins sem samanstóð af bændum og söfnurum.
Nú hafa rannsóknir á erfðavísum þjóðflokkanna tveggja leitt í ljós að bændurnir höfðu tilhneigingu til að þróa með sér kvíða en veiðimennirnir og safnararnir voru hins vegar móttækilegir fyrir ADHD (ofvirkni með athyglisbresti).
Báðir þjóðflokkarnir nutu góðs af þessu.
Þessar niðurstöður Thomasar Werge hafa vakið mikla undrun en Thomas er prófessor í geðlækningum við Kaupmannahafnarháskóla. Hann hefur átt þátt í að kortleggja erfðavísa forfeðra okkar í viðamikilli alþjóðlegri rannsókn.
Vísindamennirnir leituðu að sérlegum genaafbrigðum sem geta verið gagnleg í tengslum við tiltekin lífsskilyrði en hins vegar beinlínis skaðleg í tengslum við aðrar lífsaðstæður.
Sum þessara genaafbrigða tengjast geðrænum kvillum og rannsóknin leiddi í ljós að vottur af geðrænum sjúkdómi getur beinlínis verið örvandi þáttur fyrir sköpunargáfu og greind og er í raun bundinn þeim órjúfanlegum böndum.
Ef marka má Thomas Werge bendir ýmislegt til þess að listamenn hafi oft yfir að ráða erfðavísi sem leitt geti til tiltekins geðræns kvilla en að t.d. verkfræðingar hafi yfir að ráða öðrum erfðavísi sem leitt geti af sér annars konar sálrænan kvilla.
Margar hugmyndir kvikna í heila fólks með geðklofa
Í sumu fólki fæðir ein hugsunin leiftursnöggt af sér þá næstu og þetta fólk fær stöðugt nýjar hugmyndir og getur sameinað þær vandkvæðalaust á undarlegasta máta.
Þess konar fólk getur verið einkar vel gefið og notið mikillar velgengni en heilastarfsemi þess minnir í raun að miklu leyti á geðklofa.
Þeir sem haldnir eru geðklofa eru með hraðvirkt hugsanastreymi sem að sama skapi er brotakennt og samhengislaust og þetta fólk getur upplifað truflandi hugsanir sem rjúka úr einu viðfangsefni í annað án þess að tengslin virðist vera rökrétt.
„Ef hugsanirnar hrannast upp og við komum sífellt auga á nýtt samhengi kann slíkt að reynast okkur ofviða, ef við ráðum ekki við að hafa hemil á hugsunum okkar,“ segir Thomas Werge í viðtali við Lifandi vísindi.
Þegar sagt er að hárfín skil séu á milli geðveiki og snilligáfu má segja að þau orð séu ekki alveg úr lausu lofti gripin.
Fólk með mikla hæfileika er ýmist geggjað eða með snilligáfu
Ýmsar áberandi manneskjur á sviði vísinda, lista og viðskipta þjást jafnframt af geðrænum kvillum eða þroskaröskunum.

Margverðlaunaður stærðfræðingur haldinn geðklofa
Afrek: Bandaríski stærðfræðingurinn John Forbes Nash (1928-2015) hlaut árið 1994 Nóbelsverðlaunin í hagfræði fyrir rannsóknir sínar á sviði leikjafræði. Niðurstöður hans eru m.a. notaðar til að greina hver áhrif fyrirtæki hafa á val neytenda og öfugt.
Kvilli: Þegar John Nash var þrítugur að aldri fór að bera á einkennum ofsóknargeðklofa í honum og líf hans næstu mörgu árin einkenndist af ítrekuðum innlögnum á geðdeildir. Þegar hann nálgaðist fimmtugt fóru geðrænu vandamálin að þverra og hann gat tekið til starfa á nýjan leik.

Geimflaugafrumkvöðull og tækniauðjöfur með einhverfu
Afrek: Elon Musk (f. 1971) er þekktur fyrir að vera margfaldur milljarðamæringur og stofnandi m.a. rafbílafyrirtækisins Tesla og geimferðafyrirtækisins SpaceX. Tækniáhugi hans lét fyrst á sér kræla í kringum tíu ára aldurinn þegar hann lærði sjálfur að forrita.
Kvilli: Musk upplýsti í sjónvarpsþættinum „Saturday Night Live“ að hann væri með Asperger-heilkenni sem er hluti af einhverfurófinu. Þroskaröskun hans einkennist m.a. af vandamálum í tengslum við félagslegt samneyti, svo og þröngu áhugasviði.

Vinsæll rappsöngvari með geðhvarfasýki
Afrek: Bandaríkjamaðurinn Ye sem áður nefndist Kanye West, (f. 1977) er einn vinsælasti tónlistarmaður heims en hann hefur selt 160 milljón hljómdiska og unnið til 24 Grammy-verðlauna. Rapparinn og hipphopp-framleiðandinn hannar að sama skapi föt og töskur í samvinnu við þekkt tískuhús.
Kvilli: Ye var greindur með geðhvarfasýki árið 2016 sem gerir það að verkum að hann er ýmist mjög hátt stemmdur eða í mikilli lægð. Hann bauð sig fram til forseta Bandaríkjanna árið 2020 þar sem hann ögraði fólki með gyðingahatri og staðhæfingum um að helförin hefði aldrei átt sér stað.
Meðal annars hefur verið sýnt fram á tengslin á milli sköpunargáfu og geðklofa í rannsókn sem Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, lét gera árið 2015.
Kári lét rannsaka erfðavísa mörg þúsund einstaklinga í leit að genaafbrigði sem vitað var að tengdist geðklofa.
Genaafbrigði minna á stökkbreytingar en eru þó langtum algengari í þýðinu en við á um stökkbreytingarnar og þau þurfa heldur ekki endilega að vera skaðleg. Geðklofi, á sama hátt og t.d. augnlitur, ákvarðast af ýmsum genaafbrigðum sem er að finna í ýmsum samsetningum.
„Fyrsta genaafbrigðið sem tengt er við geðklofa er að finna í um 70 hundraðshlutum fólks.“
Thomas Werge, prófessor í geðlækningum
Niðurstöðurnar af rannsókn Kára sýndu, svo ekki varð um villst, að 17% meiri líkur eru á að rekast á nákvæmlega þessi genaafbrigði í fólki sem stundar skapandi störf, svo sem eins og rithöfundar, tónlistarmenn og listmálarar, heldur en t.d. í bændum, stjórnendum fyrirtækja og sölumönnum.
Kári rannsakaði ekki beinlínis hvort skapandi einstaklingarnir væru með geðklofa en sennilega hefur sú ekki verið raunin. Erfðavísar þessa fólks hafa ugglaust verið útbúnir hæfilegu magni af hugsanaflæði sem ýtir undir að ýmsar hugmyndir fæðist en leyfir hugsunum þó ekki að leika lausum hala.
Geðrænir kvillar hafa tilgang
Erfðabreytileika sem tengdur hefur verið við geðrænan kvilla er ekki einvörðungu að finna í „geðveika“ minnihlutanum og þeim minnihluta sem einkennist af snilligáfu.
Við höfum öll yfir að ráða erfðabreytileika í tilteknu magni í erfðaefni okkar sem getur gert okkur móttækileg fyrir sköpunargáfu og geðklofa og sum genaafbrigðin eru meira að segja nokkuð algeng, segir Thomas Werge:
„Fyrsta genaafbrigðið sem tengt var geðklofa fyrirfinnst í um 70% allrar þjóðarinnar. Það eykur hættuna á geðklofa eilítið en fyrst svo margt fólk hefur yfir þessu afbrigði að ráða þá hlýtur það einfaldlega einnig að hafa einhverju skynsamlegu hlutverki að gegna. Að öðrum kosti hefði nefnilega mátt gera ráð fyrir að þessi eiginleiki myndi að engu verða við náttúruval.”

Hver og einn kvilli hefur sína kosti
Venjulegir geðrænir kvillar tengjast hver sínu genaafbrigði. Erfðabreytileikinn eykur líkurnar á að fólk þrói með sér kvillann en hefur jafnframt í för með sér ákveðna kosti í rétta umhverfinu.

ADHD ýtir við frumkvöðlunum
Ókostur: Athyglisvandi og hvatvísi eru einkennandi fyrir fólk með ADHD (ofvirkni með athyglisbresti). Þetta er ókostur í umhverfi sem krefst einbeitingar og úthalds.
Kostur: Vísindamenn hafa greint mjög háa tíðni genaafbrigða sem leiða af sér ADHD meðal frumkvöðla. Þegar stofna á fyrirtæki skiptir sköpum að búa yfir sveigjanleika, geta tekið skjótar ákvarðanir og tekið áhættu ef vonir eru bundnar við velgengni í fyrirtækinu.

Einhverfa leiðir af sér aukið tæknihugvit
Ókostur: Einstaklingar eru mældir á svokölluðu einhverfurófi og gefur það til kynna missterk einkenni einhverfu. Kvillinn hefur oft í för með sér skort á félagsfærni, samskiptavanda og atferli sem einkennist af endurtekningum sem er oft fyrirstaða í atvinnuviðtölum.
Kostur: Einhverfir eiga það til að einblína um of á tiltekin áhugamál. Þetta kann að vera kostur á sviði rannsókna og tækni þar sem sérþekking, kerfisbundin niðurröðun og nákvæm vitneskja skiptir sköpum.

ÁÞR beinir athyglinni að smáatriðum og framgangsmáta
Ókostur: Áráttu- og þráhyggjuröskun (ÁÞR) einkennist af þráhyggju, kvíða og tímafrekum venjum. Kvilli þessi er því ókostur sé ætlunin að leysa verkefni sem krefjast sveigjanleika og skjótrar aðlögunar.
Kostur: Þeir sem haldnir eru áráttu- og þráhyggjuröskun veita smáatriðum iðulega of mikinn gaum. Þetta getur verið kostur í umhverfi þar sem nákvæmni og óskeikulleiki skipta sköpum, t.d. þegar fylgja skal nákvæmum fyrirmælum upp á hár.
Rannsókn Thomasar Werge á erfðavísum forfeðra okkar leiðir jafnframt í ljós samhengið á milli kosta og galla. Hún sýnir nefnilega fram á að erfðavísar sem leiða af sér kvíða eru margfalt algengari meðal steinaldarbænda en meðal veiðimanna og safnara og þetta virðist eiga við rök að styðjast.
Steinaldarbændurnir voru berskjaldaðir fyrir árásum villtra dýra þegar þeir gengu til verka, óvopnaðir, úti á akrinum.
„Því berskjaldaðri sem við erum, þeim mun meira kvíðin og óttaslegin þurfum við að vera, því slíkt getur einfaldlega aukið líkurnar á að við lifum af í varasömum aðstæðum,“ útskýrir Thomas Werge.
Veiðimenn og safnarar höfðu á hinn bóginn yfir að ráða ofgnótt genaafbrigða sem leitt geta af sér ADHD (ofvirkni með athyglisbresti).
Þetta samræmist vel kenningunni um að smávægilegur vottur af geðrænum sjúkdómi geti verið kostur við sérstök lífsskilyrði. Andstætt við bændurna þurftu þeir nefnilega að berjast við villt dýr til að geta lagt þau að velli og við slíkar aðstæður gagnast ADHD-einkenni á borð við eirðarleysi og áhættusækni.
Hirðingjaþjóðflokkar skiptust i tvennt
Það að ADHD geti reynst vera kostur í tengslum við sérstök lífsskilyrði hefur einnig verið staðfest í rannsókn sem gerð var árið 2008 þar sem skoðaðir voru núlifandi einstaklingar, nánar tiltekið hirðingjaættflokkurinn Ariaal í Kenýa sem greindist í tvo hópa fyrir um það bil einni öld.
Annar hópurinn hélt áfram að lifa sem veiðimenn og safnarar en hinn hlutinn tók hins vegar fasta búsetu og fór að stunda nútímalegan landbúnað. Vísindamennirnir rannsökuðu útbreiðslu genaafbrigðis sem kallast DRD4-7R í báðum hópunum en afbrigði þetta gerir okkur móttækileg fyrir ADHD.

Hluti af Ariaal-ættflokknum í Kenýa eru orðnir bændur með fasta búsetu á meðan hinn hlutinn lifir áfram sem veiðimenn og safnarar. Þeir sem eru með ADHD spjara sig með einkar ólíkum hætti í hópunum tveimur.
Í ljós kom að þegar bændurnir áttu í hlut tengdist genaafbrigðið, og þar með einnig tilhneigingin til að þróa ADHD, slælegri heilsu og athyglistruflunum í skóla. Meðal hirðingjanna tengdist sama genaafbrigði aftur á móti styrk og góðri heilsu.
Þessar niðurstöður gefa til kynna að ADHD virðist vera kostur fyrir þá sem lifa hirðingjalífi á borð við veiðimenn og safnara en aftur á móti ókostur í tengslum við nútímalegri lífsmáta. Fyrir vikið hafa þau erfðaafbrigði sem geta gert okkur móttækileg fyrir kvillanum varðveist í erfðaefni mannsins.
Einhverfir eru ofurgreindir
Einhverfa er annað dæmi sem gefur til kynna hárfínt jafnvægi á milli geðrænna áskorana og hagnýtra eiginleika.
Einhverfa er oft álitin tengjast einstökum hæfileikum á tilteknu sviði og nú er umræðan einnig tengd bólusetningum. Greiningum fjölgar á ógnarhraða en sannleikurinn er víðs fjarri því sem sögusagnirnar herma.
Þessi geðræni kvilli er misalvarlegur og fyrir vikið er talað um einhverfuróf. Það á við um flesta þeirra að þá skortir greind, þar sem greindarvísitala þeirra nemur um 85 stigum en svo eru aðrir einhverfir með góða greind, eins og sjá má í yfirlitsgrein frá árinu 2016 eftir kanadíska þróunarlíffræðinginn Bernard Crespi.
Ýmsar vísindalegar rannsóknir hafa nefnilega leitt í ljós heilmikla skörun milli genaafbrigða sem tengjast annars vegar einhverfu og hins vegar mikilli greind. Crespi útskýrir samhengið á þann veg að einhverfir hafi ekki fulla stjórn á vitrænum ferlum í heila, þ.e. sjálfri hugsuninni.
Afleiðingarnar eru yfirleitt þær að einstaklingarnir verða síður greindir en hjá öðrum leiðir þessi óhefðbundna hugsun engu að síður af sér góða greind, þó yfirleitt á þröngu svæði.

Breski listamaðurinn Stephen Wiltshire er með einhverfu og býr jafnframt yfir einstökum hæfileikum. Hér sést hann teikna yfirlitsmynd af útlínum bygginga í London eftir að hafa flogið einu sinni yfir borgina.
„Þegar við rannsökum stóra hópa og spyrjum út í menntun og atvinnu komumst við að raun um að þeir sem skora hátt á einhverfuprófum starfa iðulega við náttúruvísindalegar greinar (á sviði vísinda, tækni, verkfræði, stærðfræði) án þess að þeir hinir sömu uppfylli að öllu leyti skilyrðin fyrir einhverfugreiningu. Þetta sama fólk hefur oft yfir að ráða sömu genaafbrigðum og við greinum í einhverfum,“ segir Thomas Werge.
Sérlegir hæfileikar virðast vera nátengdir geðrænum kvillum. Þeir sem eiga á hættu að þróa með sér einhverfu, ADHD, geðklofa eða kvíða hefðu strangt til tekið allt eins getað þróað með sér snilligáfu því einungis smávægilegur erfðabreytileiki ræður því hvorum megin jafnvægislínunnar hver og einn lendir: Verður hann haldinn geðveiki eða snilligáfu?