Ef þú gætir flett áfram um nokkrar síður – eða kafla – í lífsbók þinni, myndirðu gera það?
Þessi spurning hefur nú öðlast meira gildi en áður, þar eð gervigreindin virðist geta áætlað hvað muni bíða þín síðar á lífsleiðinni. Þetta gildir m.a. um sjúkdóma, tekjur – og dánartíma.
Það er hópur vísindamanna hjá Kaupmannahafnarháskóla, Northwesternháskóla, DTU og ITU sem hafa þróað gervigreindarlíkan sem getur sagt nokkuð nákvæmlega fyrir um æviferil og lífaldur fólks.
Vísindamennirnir notuðu sömu algóritma og knýja ChatGPT. Þessir algóritmar greina gríðarlegt magn texta og leita að mynstrum í orðaröðum og málsgreinum. Algóritminn nýtir svo þær upplýsingar sem hann hefur fundið til að sjá fyrir hvaða orð eigi að koma næst í málsgreininni.
Á svipaðan hátt getur líkan vísindamannanna skoðað fjölmarga atburði í ævi fólks og ákvarðað hvað líklegast er að gerist næst.
„Við notuðum líkanið til að fá svar við þeirri spurningu að hve miklu leyti unnt væri að segja fyrir um atburði í framtíð þinni á grundvelli atburða í fortíð þinni.“ segir Sune Lehmann, prófessor við DTU og aðalhöfundur niðurstöðuskýrslunnar.
Vísindamennirnir fóðruðu líkanið á upplýsingum um búsetu, menntun, tekjur, heilbrigði og atvinnu allra Dana, samtals nærri sex milljóna.
ChatGPT hefur aðeins þykjustuvit
Spjallmennið hefur staðist ýmist þung próf en í rauninni veit það ekki neitt.
Greind: Getur skilið hugsanir annarra
Í tilraun einni reyndist ChatGPT standa sig jafn vel og níu ára barn við að spá því að einhver yrði fyrir vonbrigðum með að konfektkassi reyndist tómur. Það bendir til þróaðrar hæfni til að skilja hugsanagang annarra.
Greind: Stóðst háskólapróf
ChatGPT hefur tekið samskonar krossapróf og lögð eru fyrir bandaríska stúdenta. Þótt spjallmennið svaraði stundum út í hött, náði það m.a. 7 í lögfræði.
Heimska: Sér ekki gegnum lygar
ChatGPT byggir ekki á eigin þekkingu, heldur giskar sig áfram að næsta orði í svarinu. Öfugt við mannsheilann hefur spjallmennið enga hugmynd um hvað það veit ekki og gerir því alvarleg mistök.
Þessum gríðarmiklu upplýsingum var forrit látið snúa yfir á eins konar gervimál og mynda málsgreinar.
Dæmi: „Í ágúst 2020 fékk Birte, með sykursýki 2, 30.000 krónur í laun sem hársnyrtir í Kaupmannahöfn.“ Með því að raða æviatburðum fólksins upp á tímalínu, náði líkanið að skapa eins konar ævisögu hvers og eins.
Og til dæmis gat líkanið spáð fyrir um það með 78% nákvæmni hverjir myndu deyja fyrir 2020.
Og rangar spár virtust helst byggjast á slysförum eða hjartaáfalli sem auðvitað er erfitt að sjá fyrir.
Líkön á borð við þetta má trúlega síðar nota til að ákvarða sjúkdómaáhættu einstaklinga – og reyndar eru þessir algóritmar þegar í notkun á nokkrum stöðum.
Leit á netinu slævir heilann og samfélagsmiðlum má líkja við eiturlyf. Heyrst hafa margar fullyrðingar um skjái og hér hyggjumst við skoða sannleiksgildi nokkurra algengustu staðhæfinganna.
„Svipaða tækni nota hátæknifyrirtæki nú þegar til að spá fyrir um lífsframvindu fólks og atferli, þegar þessi fyrirtæki rekja atferli okkar á samfélagsmiðlum,“ segir Sune Lehmann.
Vísindamennirnir sem að rannsókninni stóðu, segja tryggingastarfsemi meðal þeirra greina þar sem líkön af þessu tagi geti orðið til vandræða.
„Að sjálfsögðu eiga tryggingafélög ekki að nýta sér líkanið okkar. Grunnhugsunin að baki tryggingum er einmitt sú að við deilum öll byrðunum af því að við vitum ekki hverja ólánið dynur yfir,“ segir Lehmann.