Húðin getur raunar mætavel fengið á sig lit þó svo að við sitjum á bak við gluggarúðu. Sólbaðið tekur hins vegar lengri tíma en ella því gluggarúðan heftir stóran hluta útfjólubláu geislanna.
Þegar útfjólubláir geislar lenda á húðinni, framleiðir hún litarefnið melanín sem gerir hana dekkri. Melanínið drekkur í sig útfjólubláu geislana og ver með því móti húðina.
Til eru tvær gerðir útfjólublárra geisla, UVA og UVB.
UVB-geislar fela í sér mikla orku og auðvelda okkur að verða dökk og sólbrún. Þessir sömu geislar eru jafnframt ábyrgir fyrir flestum gerðum húðkrabbameins.
UVA-geislar eru vægari en geta þó engu að síður gert húðina brúna.
Geislar komast gegnum glerið
Gluggarúður hefta allt að 97% UVB-geislanna, en innan við 40% af UVA-geislum.
Rúðugerðin ræður því hversu mikið af útfjólubláum geislum kemst gegnum glerið. Gamlar gluggarúður hamla t.d. ekki eins miklu magni útfjólublárra geisla og við á um nýrri rúður, sem oft á tíðum samanstanda af nokkrum glerlögum eða eru jafnvel þaktar útfjólublárri síu.
Jafnvel þótt gluggarúður hefti nánast alla UVB-geisla þá er engu að síður hægt að öðlast brúnan lit á húðina af völdum þeirra UVA-geisla sem komast í gegn. Það tekur einfaldlega bara lengri tíma.
Sólarljós örvar að sama skapi framleiðslu líkamans á D-vítamíni, en til að svo verði þurfum við að halda okkur utanhúss. Vítamínframleiðslan krefst nefnilega UVB-geisla sem rúðugler heftir.